Einungis Svíþjóð á móti nýrri ráðherranefnd um samgöngumál

02.11.23 | Fréttir
Tog
Photographer
Magnus Fröderberg
Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin berst enn fyrir stofnun nýrrar norrænnar ráðherranefndar um samgöngumál. Nefndin þrýstir mjög á Svíþjóð sem er nú eina landið sem ekki styður tillöguna. Norrænu samstarfsráðherrarnir munu fjármagna greiningu á núverandi fyrirkomulagi samstarfsins til þess að auðvelda endanlega ákvarðanatöku.

Norðurlandaráð telur aukna samræmingu verkefna er varða samgöngur og innviði lykilatriði fyrir framtíðarsýn norrænu landanna um sjálfbær og samþætt Norðurlönd. Strax árið 2018 setti Norðurlandaráð fram tillögu um að stofnaði yrði á ný sérstök ráðherranefnd um samgöngumál innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Með því mætti tryggja aukna skilvirkni og skapa rétt skilyrði fyrir sjálfbærum samgönguinnviðum á svæðinu í framtíðinni, meðal annars með lausnum í tengslum við rafvæðingu siglinga og flugs og auknar almenningssamgöngur þvert á landamæri.

Aukinn þrýstingur á Svíþjóð

Þegar tillagan var rædd á þingi Norðurlandaráðs 2022 hlaut hún hljómgrunn hjá Íslandi, Danmörku og Noregi en naut ekki stuðnings Finnlands og Svíþjóðar. Í kjölfar stjórnarskipta í Finnlandi hefur afstaða landsins breyst. Samkvæmt stjórnarsáttmála Finnsku ríkisstjórnarinnar á að stuðla að samræmingu norrænna samgöngukerfa með stofnun nýrrar ráðherranefndar um samgöngumál. Svíþjóð er því eina landið sem eftir situr.

„Þingmenn Norðurlandaráðs, þar á meðal sænskir þingmenn og fulltrúar atvinnulífsins og landamærasvæðanna, hafa lengi talað fyrir ráðherranefnd um norræna samræmingu á samgöngum og innviðum en svo virðist sem lítill áhugi sé fyrir því af hálfu Svíþjóðar,“ sagði Kjell-Arne Ottosson, formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar á fundi hennar með norrænu samstarfsráðherrunum í dag.

Atvinnulífið kallar í auknum mæli eftir samnorrænni stefnu og aðgerðum á sviði samgöngumála. Samtök norrænna vöruflutningamanna, Nordic Logistics Association, sem telja 15 þúsund félagsmenn, segja í nýlegri grein í Altinget: „Norræn ráðherranefnd um samgöngumál myndi ýta undir græn umskipti á öllum Norðurlöndum.“ Það varð þó ljóst í Ósló í dag að samstarfsráðherra Norðurlanda í Svíþjóð, Jessica Roswell, er ekki sannfærð um að þetta sé rétta leiðin. Hún benti á að nú þegar séu til staðar margar góðar aðgerðir og samstarfsverkefni sem stuðla að samræmdum samgöngum á Norðurlöndum.

 

Nálgumst við ákvörðun?

Í febrúar á ný greining á núverandi samræmingu á samgöngum og innviðum í norrænu löndunum að liggja fyrir. Stefnt er að því að samstarfsráðherrarnir kynni niðurstöður skýrslunnar á þemaþingi Norðurlandaráðs í apríl. Nefndin óskaði eftir skýrri tímalínu yfir það hvenær vænta mætti endanlegrar ákvörðunar samstarfsráðherranna um nýja ráðherranefnd. Samstarfsráðherrarnir gátu ekki svarað því að svo stöddu. Að mati nefndarinnar hefur þróunin í málinu verið jákvæð og standa vonir hennar til þess að Svíþjóð sláist einnig í förina.