Friðarmálin í fyrirrúmi í formennskutíð Íslands

12.01.23 | Fréttir
Formandskab 2023
Photographer
Eyþór Árnason
Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 byggist á Framtíðarsýn okkar 2030 og er áhersla á friðarmál.

Augu allra á Norðurlöndum beindust að Reykjavík í dag þar sem Íslendingar kynntu formennskuáætlun sína í Norrænu ráðherranefndinni 2023. Yfirskrift formennskuáætlunarinnar er: Afl til friðar

„Á þeim tímum sem við lifum á verðum við að leggja áherslu á frið því hann er forsenda velferðar, mannréttinda og jafnréttis, sem eru grundvallargildi okkar hér á Norðurlöndum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, sem ýtti formennskuárinu 2023 úr vör ásamt Guðmuni Inga Guðbrandssyni, samstarfsráðherra Norðurlanda. Haldin verður alþjóðleg ráðstefna í Reykjavík með áherslu á frið sem forsendu fyrir mannréttindum, velferð og jöfnuði. Jafnframt verður friður gegnumgangandi þema á formennskuárinu 2023.

 

Program for Islands formandskab i Nordisk Ministerråd 2023: Norden – en kraft for fred

Á þeim tímum sem við lifum á verðum við að leggja áherslu á frið því hann er forsenda velferðar, mannréttinda og jafnréttis, sem eru grundvallargildi okkar hér á Norðurlöndum

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands

Sjálfbærasta og samþættasta svæði heims

Rétt eins og formennskuáætlun Noregs í fyrra stendur íslenska formennskuáætlunin styrkum stoðum á grunni framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030 og þess markmiðs að við verðum sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Í því samhengi kynnti Katrín Jakobsdóttir fleiri væntanlegar aðgerðir sem stuðla munu að grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Dæmi um það eru grænu umskiptin þar sem Ísland mun leggja áherslu á græn umskipti í sjávarútvegi til að draga úr mengun og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

„Við leggjum áherslu á að byggja upp græn Norðurlönd þar sem jafnrétti og réttlát umskipti eru grundvallaratriði,“ sagði Katrín Jakobsdóttir. Jafnréttisáherslur eru áberandi í formennskuáætluninni og sömuleiðis vilji til að virkja þau sem fjallað er um – einkum býður forsætisráðherrann ungu fólki að taka þátt.

Nýtt formennskuland og nýr framkvæmdastjóri

Nýr framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann, var viðstödd kynninguna en hún er ánægð með formennskuáætlunina og hlakkar til að taka þátt í framkvæmd hennar á Norðurlöndum öllum.

„Það er sérlega ánægjulegt fyrir mig að hefja störf sem framkvæmdastjóri á formennskuári Íslands enda voru það Íslendingar sem kynntu Framtíðarsýn okkar síðast þegar þeir fóru með formennsku. Í áætluninni í ár er jafnframt áhersla lögð á friðarmálin sem eru algjört grundvallarstef í starfsemi okkar. Norrænu samstarfi er akkur í þeirri elju og áræðni sem einkennir nálgun Íslands á verkefnið,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.