Höfundur skýrslu um öryggisstefnu leggur áherslu á heildarvarnir

30.01.20 | Fréttir
Í október í fyrra báðu norrænu ráðherrarnir á sviði utanríkismála Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, að gera nýja úttekt á öryggisstefnu. Úttekt á norrænu samstarfi um varnar- og öryggismál var síðast gerð af Thorvald Stoltenberg, fyrrum forsætisráðherra í Noregi, árið 2009. Björn Bjarnason mun kynna tillögur sem taka til allra sviða samfélagsins og leggja minni áherslu á hernað en Stoltenberg gerði í sinni skýrslu.

„Á Íslandi höfum við engan her og sem Íslendingur kem ég til með að skrifa skýrslu með borgaralegt samfélag til grundvallar,“ segir Björn Bjarnason.

Í erindisbréfi utanríkisráðherranna er Birni falið að leggja til lausnir tengdar netógnum og fjölþættum ógnum. Að hans sögn eru ógnir af þessum toga bæði hernaðarlegs og borgaralegs eðlis.

„Annars vegar er hernaðarleg öryggisstefna, hins vegar borgaraleg öryggisstefna og þar á milli er grátt svæði. Hvernig skilgreinum við öryggi – í hverju felst það að ógnir séu fjölþættar eða netógnir?“ spyr Björn.

Einkum sjáum við Finnland og Svíþjóð nálgast hvort annað æ meir í öryggismálunum, en það er ekki það sem ég mun fjalla um.

Björn Bjarnason

Norrænt varnarmálasamstarf er ekki á borði Norrænu ráðherranefndarinnar heldur fer það fram innan ramma Nordefco (The Nordic Defence Cooperation). 

Úttekt Björns Bjarnasonar mun ekki varða starf Nordefco með beinum hætti. Þær lausnir sem hann hefur verið beðinn um að leggja fram eiga ekki að koma í stað núverandi innviða, heldur styðja við þá. Af þeim sökum verður áhersla á hernaðarlegt öryggi minni en í fyrri úttekt, að sögn Björns. Þess í stað verður mikil áhersla lögð á það sem hann nefnir heildarvarnir.

„Nordefco gegnir sínu hlutverki, sem er stórt og verður enn stærra. Einkum sjáum við Finnland og Svíþjóð nálgast hvort annað æ meir í öryggismálunum, en það er ekki það sem ég mun fjalla um,“ segir hann.

Norðurlandaráð fagnar skýrslunni

Björn Bjarnason var gestur á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs þann 28. janúar og sagði þar frá umboði sínu. Ráðið hefur lengi óskað eftir að ný úttekt á öryggisstefnu verði gerð og hefur einnig stefnu um samfélagsöryggi sem tengist viðfangsefninu.

Forseti Norðurlandaráðs, Silja Dögg Gunnarsdóttir, fagnar því að ný úttekt sé nú væntanleg.

„Við bíðum með eftirvæntingu eftir niðurstöðum Björns Bjarnasonar enda hefur margt breyst í heiminum síðan fyrri skýrslan kom út árið 2009,“ segir hún.

Á meðal nýrra ógna sem lögð er aukin áhersla á bendir Silja Dögg meðal annars á loftslagsmál, netöryggi og falsfréttir sem ógni lýðræðinu.

„Eitt af forgangsmálunum í formennskuáætlun Íslands fyrir Norðurlandaráð 2020 felst í starfi í þágu lýðræðisins, meðal annars með því að hamla útbreiðslu á falsfréttum og rangfærslum,“ segir hún.

Björn Bjarnason hefur hafið vinnu að skýrslunni og hyggst skila henni í sumar.