Louise Dedichen aðstoðaraðmíráll gestaræðumaður á þemaþingi Norðurlandaráðs í Færeyjum

27.03.24 | Fréttir
Viceamiral Louise Dedichen
Ljósmyndari
Forsvarets Mediearkiv
Louise Dedichen, aðstoðaraðmíráll og fastafulltrúi Noregs í hernaðarnefnd NATO, verður ræðumaður á þemaþingi Norðurlandaráðs í Þórshöfn í Færeyjum þann 9. apríl.

Þema þingsins er friður, öryggi og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi og ræða Dedichen mun hafa yfirskriftina „Stríð í Evrópu. Hvað nú, Norðurlönd?“.

„Mjög margt hefur breyst að undanförnu, ekki síst eftir að Rússar réðust af fullum þunga inn í Úkraínu fyrir rúmlega tveimur árum. Það er gott að Svíþjóð og Finnland séu nýlega orðin aðilar að NATO og ég hlakka til að ræða þessi mál í Þórshöfn,“ segir Dedichen.

Hjá NATO einbeitir Loiuse Dediche sér að norðlægum slóðum en á ferli sínum hefur hún einnig beitt sér mikið fyrir jafnréttismálum í hernum. Áður en hún tók við sem hernaðarfulltrúi Noregs í NATO var hún yfirmaður háskóla norska hersins.

Umræðunum á þemaþinginu verður streymt beint á norden.org.