Kvikmyndin „Barn“ hlýtur kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

27.10.20 | Fréttir
Dag Johan Haugerud och Yngve Sæther som vinner Nordiska rådets filmpris 2020 för filmen Barn fick ta emot Statyetten på produktionskontoret tisdag kväll.

Dag Johan Haugerud och Yngve Sæther som vinner Nordiska rådets filmpris 2020 för filmen Barn fick ta emot Statyetten på produktionskontoret tisdag kväll.

Photographer
Margareth Kwarteng / Kulturmeglerne
Norska kvikmyndin „Barn“ eftir handritshöfundinn og leikstjórann Dag Johan Haugerud og framleiðandann Yngve Sæther hlýtur kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2020. Þetta metnaðarfulla verk kannar sambandið milli barns og fullorðins af innlifun og alvöruþunga og vekur ýmsar áleitnar spurningar. Hversu vel þekkja foreldrar og kennarar börnin sem þeir bera ábyrgð á? Að hve miklu leyti ber foreldrum skylda til að trúa börnum sínum? Að hve miklu leyti eiga þeir að vernda þau? Að hve miklu leyti eiga þeir að vernda þau?

Handritshöfundurinn og leikstjórinn Dag Johan Haugerud og framleiðandinn Yngve Sæther tóku við kvikmyndaverðlaununum úr hendi Benedikts Erlingssonar leikstjóra, verðlaunahafa síðasta árs, á stafrænni verðlaun Norðurlandaráðs 2020 á þriðjudagskvöld. COVID-19 kom í veg fyrir afhendingu verðlaunanna á Íslandi og þess í stað voru handhafar verðlaunanna fimm kynntir á öðruvísi verðlaunahátíð á netinu.

Rökstuðningur dómnefndar

Þrettán ára barn deyr í kjölfar ósættis við samnemanda á skólalóðinni. Atvikið leiðir af sér aragrúa nýrra vangaveltna og mikla togstreitu meðal hinna fullorðnu aðstandenda barnanna og knýr fram atburðarásina í Barn („Börn“), metnaðarfullri og umhugsunarverðri kvikmynd Dags Johans Haugerud. Haugerud kannar sambandið milli barns og fullorðins af innlifun og alvöruþunga og vekur ýmsar áleitnar spurningar. Hversu vel þekkja foreldrar og kennarar börnin sem þeir bera ábyrgð á? Að hve miklu leyti ber foreldrum skylda til að trúa börnum sínum? Að hve miklu leyti eiga þeir að vernda þau? Að hve miklu leyti eiga þeir að vernda þau? Geta hagsmunir barnsins ávallt verið í fyrirrúmi? Og af hverju er verra að eitthvað hræðilegt hendi barn en fullorðna manneskju?

 

Haugerud lýsir flóknum og áhugaverðum persónum og kringumstæðum þeirra í kvikmynd með breiða skírskotun sem verður jafnframt að sögu um Noreg samtímans. Pólitískar hugsjónir foreldranna læða sér inn í samræður þeirra um börnin og hvernig skuli annast þau. Skólastjóri barnanna upplifir að kröfur kerfisins og stjórnsýslunnar rekist á hennar eigin óskir og vilja. Úr þessu sprettur hin svarta kímni í Barn, sem verður þess valdandi að myndin er aldrei of þungbær áhorfs þó að viðfangsefnið sé erfitt. Kímnin skín líka í gegn þegar foreldrarnir reyna með misjöfnum árangri að tempra eigin hégóma og yfirgangssemi í nafni friðar og umburðarlyndis. Sum þeirra uppgötva hliðar á sjálfum sér sem þau eru miður stolt af. Kannski hin fullorðnu séu líka börn innst inni.

 

Dag Johan Haugerud er kvikmyndagerðarmaður með skýra og sérstæða sýn á heiminn og óvenju gott eyra fyrir samtölum. Í áranna rás hefur hann ræktað gjöfult samstarf, einkennt af hlýju og trúnaðartrausti, við marga af helstu leikurum Noregs og í Barn laða leikstjórinn og leikararnir fram það besta hver í öðrum. Þetta er margslungin mynd um það sem skiptir mestu máli.

Titill á frummáli: Barn

Titill á ensku: Beware of Children

Leikstjórn: Dag Johan Haugerud

Handritshöfundur: Dag Johan Haugerud

Framleiðandi: Yngve Sæther

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru þau veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.