Barn – Noregur

Bild från "Beware Of Children" - Anders Jan Gunnar Røise
Photographer
Lars Olav Dybvig
Norska kvikmyndin „Barn“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Myndin Barn rekur spennuþrungnar afleiðingar átakanlegra atburða í miðstéttarhverfi í Ósló. Í frímínútum í skólanum verður hin 13 ára gamla Lykke, dóttir framámanns í Verkamannaflokknum, fyrir því að valda bekkjarfélaga sínum Jamie alvarlegum áverkum, en faðir hans er áberandi stjórnmálamaður af hægri vængnum. Þegar Jamie deyr á sjúkrahúsi er hætt við því að hinar mótsagnakenndu lýsingar á atburðunum geri erfiðar aðstæður enn verri. Liv, skólastjóri barnanna og leynilegur elskhugi föður Jamies, mætir skólasamfélaginu í miklu uppnámi og tilfinningatogstreitu.

Rökstuðningur dómnefndar

Barn er kvikmynd sem fjallar í grunninn um hinn norska lífsmáta. Jafnframt teygir hún listræna og þematíska anga sína mun lengra. Hinn harmræni útgangspunktur frásagnarinnar er veginn upp með lágstemmdum pólitískum streng og mannlegri hlýju. Gegnum þrjár kynslóðir sem tengjast þvers og kruss er dregin upp margslungin mynd af samfélagi þar sem fullorðnir og börn lifa og hrærast í nánu samneyti, en komast þrátt fyrir það að raun um að þau lifa í aðskildum heimum og hafa mismunandi nálgun á sekt og samvisku. Í Barn er fjallað á hæglátan hátt um helstu grundvallaratriði lífsins.

Handritshöfundur/leikstjóri – Dag Johan Haugerud

Dag Johan Haugerud (1964) er virtur rithöfundur, handritshöfundur og leikstjóri. Að loknu námi í bókasafnsfræði útskrifaðist hann með gráðu í kvikmyndafræði frá Stokkhólmsháskóla. Hann lærði leikhúsfræði við háskólann í Ósló og skapandi skrif við háskólann í Þelamörk. Frumraun Haugerud sem leikstjóra var stuttmyndin 16 levende klisjeer (1998). Fyrsta mynd hans í fullri lengd, Som du ser meg (2012), hlaut fern Amanda-verðlaun í heimalandinu og var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2013. Næsta mynd hans, Det er meg du vil ha – 53 mínútna samfelldur einleikur – var frumsýnd í kvikmyndahúsum árið 2014.

Barn var heimsfrumsýnd á Venice Days 2019. Í kjölfarið hlaut myndin verðlaun kvikmyndagagnrýnenda á kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku og Dragon-verðlaun sem besta norræna myndin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Næsta mynd Haugeruds, Lyset fra sjokoladefabrikken, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tromsø 2020 og var einnig sýnd í Gautaborg.

Framleiðandi – Yngve Sæther

Yngve Sæther (1964) er einn helsti kvikmyndaframleiðandi Noregs með yfir 30 kvikmyndir og sjónvarpsmyndir á ferilskrá sinni og hafa margar þeirra hlotið verðlaun víða um heim. Árið 2001 gekk hann til liðs við framleiðslufyrirtækið Motlys sem framleiðandi og yfirmaður þróunardeildar og hefur þar stuðlað að gjöfulu langtímasamstarfi við leikstjóra á borð við Arild Andresen, sem var tilnefndur til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir myndirnar Maðurinn sem unni Yngvari árið 2008 og Kompani Orheim árið 2012. Sæther framleiddi einnig margverðlaunaða kvikmynd Joachims Trier, Oslo, 31. august, sem var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2011 í flokknum Un Certain Regard og tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs sama ár.

Eftir að hafa gert fjölmargar stuttmyndir ásamt Dag Johan Haugerud framleiddi Sæther Som du ser meg, kvikmyndina sem kom Haugerud á kortið sem leikstjóra og var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2013, svo og aðra mynd hans í fullri lengd, Barn. Hann var yfirframleiðandi hinnar vinsælu norsku sjónvarpsþáttaraðar Heimavöllur fyrir NRK (2018-19) og nú síðast kvikmyndarinnar Håp í leikstjórn Mariu Sødahl. Sæther framleiddi einnig Turist, mynd Rubens Östlund sem tilnefnd var til Golden Globe verðlauna, og Den allvarsamma leken eftir Pernillu August. Sem stendur vinnur hann að gamandramanu Ninjababy eftir Yngvild Sve Flikke og heimildarmyndinni a-ha: The Movie eftir Thomas Robsahm.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Barn

Enskur titill: Beware of Children

Leikstjórn: Dag Johan Haugerud

Handritshöfundur: Dag Johan Haugerud

Aðalhlutverk Henriette Steenstrup, Jan Gunnar Røise, Thorbjørn Harr, Brynjar Åbel Bandlien, Andrea Bræin Hovig

Framleiðandi: Yngve Sæther

Framleiðslufyrirtæki: Motlys A/S

Lengd: 157 mínútur

Dreifing í heimalandi: Arthaus

Alþjóðleg dreifing: Picture Tree International