Leiðtogi stjórnarandstöðu Belarús hitti Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina

22.10.20 | Fréttir
Svetlana Tichanovskaja

Svetlana Tichanovskaja

Ljósmyndari
imago images/Scanpix
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, Svetlana Tichanovskaja, er í heimsókn í Kaupmannahöfn og hélt sameiginlegan fund með fulltrúum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á fimmtudaginn. Efni fundarins var staðan í Belarús.

Þátttakendur af hálfu Norðurlandaráðs voru Bertel Haarder, Annette Lind og Christian Juhl en þau sitja öll í forsætisnefnd ráðsins. Þau lýstu yfir eindregnum stuðningi sínum við baráttu almennings gegn einræðisherra Belarús og lögðu áherslu á mikilvægi þess að halda uppi samtali við stjórnarandstöðuna.

„Fundur dagsins var afar mikilvægur. Hann gaf okkur norrænu þingmönnunum færi á að sýna óhaggaðan stuðning okkar við stjórnarandstöðuna í Belarús og bauð okkur einnig upp á beint samtal við Svetlönu Tichanovskaja. Við heyrðum beint frá henni á hvaða sviðum hún þarf á aðstoð okkar að halda í baráttunni fyrir lýðræði í Belarús og það er ómetanlegt,“ sagði Bertel Haarder.

Hann lagði áherslu á að íbúarnir sjálfir í Belarús vissu best á hvernig stuðningi þeir þyrftu að halda og að þeir stýrðu því einnig sjálfir hvernig þeir höguðu baráttu sinni. Bertil Haarder sagði einnig að norrænir þingmenn myndu áfram þrýsta á ríkisstjórnir sínar til þess að málefni Belarús yrðu á dagskrá allt þar til íbúarnir hefðu unnið sigur á einræðiherranum.

Þörf á stuðningi

Svetlana Tichanovskaja beindi á fundinum ríkulegu þakklæti sínu til norrænna og erópskra landa fyrir afdráttarlausan stuðning sem hún sagði að rík þörf væri á. Hún benti einnig á að Norðurlöndin væru fyrirmynd almennings í Belarús þegar kæmi að samfélagi sem einkenndist af frjálslyndi, mannréttindum og lýðræði, sem er einmitt það sem barist er fyrir í Belarús.

Þá lagði Svetlana Tichanovskaja ríka áherslu á að baráttan hefði ekkert með Rússland að gera heldur væri um að ræða baráttu gegn einum manni, einræðisherranum Aleksandr Lukasjenko.

Hún kallar sérstaklega eftir aðstoð við allt það fólk og fjölskyldur sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu stjórnarinnar og sömuleiðis við ungt fólk og námsmenn sem nú berst fyrir frelsi og lýðræði.

Þá bað hún um hjálp við að skrásetja þær þusundir árása sem stjórnarherinn hefði gert sig sekan um, við að rannsaka þessar árásir og að leiða fyrir rétt þá sem bera ábyrgð á þeim.

Samstarf gegnum skrifstofu í Vilnius

Norræna ráðherranefndin er einnig tilbúin til þess að styðja almenning í Belarús, Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndinnar, sem einnig sat fundinn, sagði að nefndin hefði gegnum skrifstofu sína í Vilníus í Litháen í raun verið í samstarfi við almenning í Belarús í mörg ár.

Þetta var í annað sinn á stuttum tíma sem Norðurlandaráð fundaði með Svetlönu Tichanovskaja. Fyrri fundurinn var haldinn 2. september og fór fram gegnum fjarfundabúnað. Að þessu sinni var um að ræða hefðbundinn fund og átti hann sér stað í þinghúsinu í Kaupmannahöfn.

Svetlana Tichanovskaja er í Danmörku til þess að veita frelsisverðlaunum dagblaðsins Politiken viðtöku en þau eru veitt árlega einstaklingum eða stofnunum sem leggja sig í hættu við að verja réttinn til frelsis.

Tichanovskaja hefur orðið tákn fyrir baráttu almennings í Belarús fyrir lýðræði og margir líta á hana sem réttkjörinn forseta eftir forsetakosningarnar 9. ágúst. Aleksandr Lukasjenko lýsti sig sigurvegara kosninganna sem einkenndust af svindli að mati óháðra eftirlitsaðila.

Tengiliður