Umræður um varnarmál og heimsókn til forseta Finnlands er forsætisnefnd Norðurlandaráðs fundaði í Finnlandi

12.12.23 | Fréttir
Ett stridsflygplan

JAS 39 Gripen at F17, Kallinge, Sverige

Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Umræður um öryggis- og varnarmál voru rauði þráðurinn á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Helsinki 11. til 12. desember. Forsætisnefndin hitti einnig forseta Finnlands Sauli Niinistö í tengslum við fundinn.

Öryggismál æ mikilvægari fyrir Norðurlandaráð

Öryggis- og varnarmál hafa mikið verið rædd innan ramma Norðurlandaráðs eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Á fundi forsætisnefndar í Finnlandi voru rædd tilmæli bæði um enduruppbyggingu Úkraínu og um norrænt öryggi og varnir í því nýja landfræðipólitíska samhengi sem Norðurlönd eru nú hluti af. Norðurlandaráð telur að vinna þurfi skýrslu um heildarvarnir fyrir Norðurlönd til að fá mynd af því hvernig varnarmálasamstarfið getur þróast í framtíðinni. Einnig var fjallað um tillögu um aukna sjálfbærni að því er varðar bæði orkuframleiðslu og matvælaframleiðslu.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs vinnur einnig að tillögum um endurskoðun Helsingforssamningsins, sem kveður á um hvernig haga beri hinu opinbera norræna samstarfi. Möguleg endurskoðun hans gæti náð til öryggis- og varnarmála.

Heimsókn til forseta Finnlands

Í tengslum við fundinn var forsætisnefnd einnig boðið á fund með forseta Finnlands Sauli Niinistö, þar sem rætt var um utanríkis-, öryggis- og varnarmál með sérstakri áherslu á norrænt samstarf.

„Við áttum góðar umræður við forsætisnefnd Norðurlandaráðs um utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Saman erum við sterk þegar kemur að því að skapa öryggi,“ sagði forseti Finnlands, Sauli Niinistö.

Allir fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs sátu fundinnm sem var haldinn í aðsetri finnska forsetans, Mäntyniemi.

„Í ljósi stöðu mála í heiminum í dag er mjög mikilvægt að norrænu löndin vinni einnig saman á sviði varnarmála. Saman getum við verið afl í þágu stöðugleika og friðar. Þema formennskuáætlunar Íslands í Norðurlandaráði 2024 er „Friður og öryggi á Norðurslóðum“ og því verður þetta þema einnig ofarlega á dagskrá í framtíðinni,“ sagði Helge Orten, varaforseti Norðurlandaráðs.

Nordiska rådets presidium på besök hos Finlands president Sauli Niinistö
Photographer
Matti Porre/Tasavallan presidentin kanslia

Samstarf við Eystrasaltsríkin

Forsætisnefnd lagði einnig fram nýja tillögu um að norrænu ríkisstjórnirnar auki samstarf sitt við ríkisstjórnir Eystrasaltsríkjanna til að efla hagkerfi, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt á báðum svæðunum. Eystrasaltsríkin og Eystrasaltsþingið eru nú þegar samstarfsaðilar sem eru í miklum forgangi hjá Norðurlandaráði.

Vindorka á hafi

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs samþykkti fyrir hönd þingfundar tilmæli um fjárfestingu í vindorku á hafi. Norðurlandaráð vill einfalda opinber ferli fyrir vindorkuver á hafi á Norðurlöndum, að samstarf verði um rannsóknir og menntun í tengslum við tæknina og að norrænu raforkufyrirtækin vinni saman að enn samþættara norrænu rafmagnsdreifikerfi.