Menningarátakið Nordic Bridges hefst í dag

27.01.22 | Fréttir
The work “Great Minds” by Aleksandra Stratimirovic
Photographer
Brian Medina

Nordic Lights er hluti af opnun Nordic Bridges og samanstendur af röð ljósverka eftir norræna og kanadíska listamenn sem sett eru upp utandyra við Harbourfront Centre í Toronto. Á myndinni má sjá verkið „Great Minds“ eftir Aleksöndru Stratimirovic.

Með norræna menningarátakinu Nordic Bridges, sem hefst 27. janúar 2022 í Kanada, verður kastljósinu beint að norrænni menningu og listum. Á árinu 2022 munu samstarfsaðilar vítt og breitt um Kanada bjóða upp á spennandi listviðburði og umræður með norrænum listamönnum og hugsuðum þar sem málefni á borð við þrautseigju og nýsköpun í listum verða í deiglunni.

Norræna ráðherranefndin um menningarmál átti frumkvæði að þessu árslanga átaki, sem menningarstofnunin Harbourfront Centre í Toronto stýrir. Menningarátakið er það umfangsmesta sem Norðurlönd hafa staðið fyrir á erlendri grund og það er norrænu ráðherrunum sönn ánægja að geta nú hleypt því úr vör eftir að hafa þurft að fresta því í ár vegna faraldursins. 


 „Það gleður okkur mjög að geta loksins hleypt menningarátakinu Nordic Bridges af stokkunum í Kanada. Við hlökkum til þessa lykilárs fyrir norrænar listir og menningu, árs þar sem Kanada og Norðurlönd mætast til að miðla listum, menningu, þekkingu og hugmyndum,“ segir norski menningar- og jafnréttisráðherrann Anette Trettebergstuen, sem jafnframt gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndarinni um menningarmál. Hún bætir við:

„Ekki einu sinni heimsfaraldur getur komið í veg fyrir að menning byggi brýr á milli fólks. Hér skapast einstakt tækifæri til þess að vekja athygli á mikilvægi lista og menningar fyrir samfélagið og daglegt líf fólks. Samstarfsaðilar um allt Kanada vinna nú saman, undir forystu Harbourfront Centre í Toronto, að því að setja saman dagskrá fyrir árið 2022 þar sem boðið verður upp á spennandi listviðburði og umræður með norrænum listamönnum og hugsuðum. Velkomin!“
 

Við hlökkum til þessa lykilárs fyrir norrænar listir og menningu, árs þar sem Kanada og Norðurlönd mætast til að miðla listum, menningu, þekkingu og hugmyndum.

Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttisráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál árið 2022

Nordic Lights, Design Matters og Nordic Talks

Fyrstu viðburðirnir verða utandyra eða á netinu, til samræmis við núgildandi sóttvarnareglur, en stærri viðburðir, svo sem hátíðir og sviðsviðburðir, fylgja í kjölfarið síðar á árinu 2022. Hjá Harbourfront Centre, einni helstu lista- og menningarstofnun Kanada, ríkir mikil tilhlökkun. Iris Nemani, aðaldagskrárstjóri við Harbourfront Centre og aðalframkvæmdastjóri Nordic Bridges, segir: 

„Við höfum unnið að undirbúningi Nordic Bridges ásamt hundruðum norrænna og kanadískra listamanna í á þriðja ár og við erum mjög spennt fyrir því að geta boðið upp á sköpunarverk þeirra um land allt út árið 2022. Þetta er einstakt tækifæri til að leiða saman listamenn, frumkvöðla og hugsuði svo þeir geti miðlað því sem þeir telja mikilvægt í menningarorðræðu samtímans, auk þess sem við bjóðum almenningi að upplifa framúrskarandi listviðburði af öllum gerðum, allt frá dansi og leikhúsi til myndlistar.“ 
 

Í beinni frá 27. janúar:
 

Á meðal þess sem kanadískir samstarfsaðilar á borð við alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Toronto, BreakOut West og National Arts Centre bjóða upp á er sviðslistir, myndlist og stafræn list, handverk og hönnun, bókmenntir, matargerðarlist, rökræður um samfélagsmál og blaðamennska.

Norrænir listamenn og hagsmunaaðilar frá öllum Norðurlöndum starfa og koma fram með kanadískum listamönnum á listahátíðum, í listastofnunum og á söfnum víðsvegar um landið. 

Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt

Dagskrá Nordic Bridges og þetta samstarf listamanna, frumkvöðla og hugsuða hvílir á fjórum meginstöðum: nýsköpun í listum, aðgengi og þátttöku, sjónarmiðum frumbyggja og þrautseigu og sjálfbærni. Þetta eru afar brýn málefni í bæði Kanada og á Norðurlöndum.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, hlakkar til þess að vekja athygli umheimsins á norrænum listum og menningu og fá tækifæri til að brydda upp á mikilvægum samræðum um áskoranir samtímans og áranna sem fram undan eru:
 

„Nordic Bridges veitir okkur einstakt tækifæri til að skoða og skiptast á hugmyndum og reynslu þvert á landamæri, í gegnum list og menningu. List hefur þann eiginleika að spyrja spurninga, ýta undir nýsköpun og skapa skilning, sér í lagi þegar heimsbyggðin stendur sameiginlega frammi fyrir fordæmalausum úrlausnarefnum. Ég er stolt að sjá að Norðurlönd hafa á að skipa svo mörgum eftirsóttum listamönnum. Verk þeirra skipta ekki aðeins gríðarmiklu máli fyrir þróun menningargeirans heldur fyrir Norðurlönd í heild sinni.“

 

Fáið nýjustu fréttir um leið og þær berast


Frekari upplýsingar um Nordic Bridges má fá með því að fara á NordicBridges.ca eða fylgjast með @NordicBridges og #NordicBridges á samfélagsmiðlum.

Um norræn átaksverkefni á sviði menningar

Lista- og menningarlíf á Norðurlöndum er öflugt og fjölbreytt og nýtur mikillar eftirspurnar á alþjóðavettvangi. Norræna ráðherranefndin um menningarmál á frumkvæði að menningarstarfi utan Norðurlanda til þess að efla tengsl milli norrænnar menningar og umheimsins og vekja athygli á því sem norræn menning hefur upp á að bjóða. Nordic Bridges í Canada er þriðja sameiginlega menningarátakið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál, og fylgir í kjölfarið á Nordic Matters í London og Nordic Cool í Washington.
 

Menningarátakið Nordic Bridges er opinberlega hafið. Þetta eins árs langa átaksverkefni sem ætlað er að vekja athygli á norrænni list og menningu í Kanada allt árið 2022 er umfangsmesta norræna átaksverkefni sem ráðist hefur verið í erlendis til þessa.