Nefnd: Endurskoða ber ósjálfbæran niðurskurð til menningar- og menntamála

29.06.22 | Fréttir
Island UKK
Photographer
norden.org

Nefndin heimsótti þjóðgarðinn á Þingvöllun sem er á heimsminjaskrá Unesco en þar var Alþingi Íslendinga haldið í fyrsta sinn.

Norrænu samstarfsráðherrarnir ættu að endurskoða þá ákvörðun sína að fjármagna grænar aðgerðir með fjármagni frá menningar- og menntamálum þar sem þau skipta sköpum til að ná framtíðarsýninni um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs.

Á fundi sínum hinn 28. júní 2022 ræddi þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar að fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þann niðurskurð á sviði menningarmála og mennta- og rannsóknarmála sem þar er lagður til.

Nefndin er einhuga um að hvetja norrænu samstarfsráðherrana til að endurskoða þá ákvörðun sína að fjármagna grænar aðgerðir með fjármagni frá menningar- og menntamálum.

Menning, menntun og rannsóknir eru nauðsynlegir þættir í því að uppfylla framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði ekki aðeins sjálfbærasta svæði heims heldur einnig það samþættasta árið 2030.

Að ráðast í niðurskurð á þessum sviðum er aðgerð sem ekki hefur verið hugsuð til enda, er óskynsamleg og ósjálfbær.

Þvert á móti hefur þörfin á fjárfestingum á sviði menningar, menntamála og rannsókna aukist í kjölfar faraldursins.

Afleiðingar þess að afturkalla meðal annars öll framlög til Orkester Norden, Norrænu bókmenntavikunnar, norræns málþings fyrir upprennandi rithöfunda á Biskops Arnö og Nordisk Panorama eru afdrifaríkar fyrir jafnt þátttakendur sem norrænan almenning.

Nefndin bindur nú vonir við væntanlegar viðræður við norrænu mennta- og menningarmálaráðherrana um samkomulag milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherrranefndarinnar vegna fjárhagsáætlunar þar sem 15 milljónum danskra króna verði bætt við framlög til menningarviðs og mennta- og rannsóknasviðs vegna ársins 2023.

Norræna þekkingar- og menningarnefndin

Contact information