Norðurlandahúsið í Færeyjum fagnar 40 ára afmæli

07.05.23 | Fréttir
Nordens Hus på Færøerne
Photographer
Nordens Hus på Færøerne
Norðurlandahúsið í Færeyjum fagnar 40 ára afmæli 8. maí. Norðurlandahúsið er helsti framleiðandi menningar í Færeyjum og leikur stórt hlutverk í menningarlífi landsins sem og í norrænu menningarsamstarfi. Húsið er eitt af fimm stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar á Norðurlöndum sem miðla list og menningu frá svæðinu í heild.

Norðurlandahúsið í Færeyjum er mikið sótt menningarhús sem stendur fyrir yfir 400 menningarviðburðum ár hvert, þar á meðal barnahátíðum, listasýningum og hljómsveitum, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Færeyja. Árlega sækja um 120 þúsund gestir húsið heim. Tilgangur þess er bæði að efla menningarskipti við önnur norræn lönd og greiða götu færeysks menningarlífs. Að sögn Gunn Hernes frá Noregi, sem veitir Norðurlandahúsinu í Færeyjum forstöðu, er um mjög öfluga stofnun að ræða.

„Við tengjum Norðurlönd við Færeyjar og Færeyjar við Norðurlönd og heiminn allan í gegnum list, menningu, tungumál, þekkingu, umræður, upplýsingar, innblástur og ekki síst húsið sjálft í Þórshöfn sem jafnframt endurspeglar Norðurlönd.“

Hernes segir húsið ávallt hafa verið brautryðjandi aðila sem á frumkvæði að samstarfi, byggir upp samstarfsnet og veitir jafnt listamönnum sem almenningi innblástur og hvatningu. Hið umfangsmikla norræna samstarfsnet sem stofnunin er virkur aðili að gerir hana að samstöðuafli sem jafnframt hefur sterka tengingu við nærsamfélagið.

Menningin er mikilvæg fyrir norrænt samstarf

Menning hefur gegnt lykilhlutverki í norrænu samstarfi allt frá stofnun Norðurlandaráðs árið 1952 og er enn í dag ein máttarstoða þess.

„Menning og listir hafa alltaf átt veigamikinn sess í norrænu samstarfi. Við vinnum að því markmiði að Norðurlönd verði samþætt og sjálfbært svæði og ef vettvanga á borð við Norðurlandahúsið nyti ekki við ættum við langt í land í þeim efnum. Það eru bókmenntir, kvikmyndir og tónlist hinna ólíku landa okkar sem gera okkur kleift að mæta hvert öðru í því sem við eigum sameiginlegt, en einnig að skilja og viðurkenna það sem greinir okkur að og læra hvert af öðru,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, sem sjálf er frá Færeyjum, bendir á að ekki megi vanmeta þýðingu hússins fyrir samfélagið í Færeyjum.

„Norðurlandahúsið hefur mjög mikla þýðingu fyrir okkur Færeyinga. Í 40 ár hafa verið haldnir þar viðburðir fyrir börn, fullorðna og eldra fólk, frá morgni til kvölds, allt árið um kring. Norðurlandahúsið hefur verið umgjörð fyrir ógleymanlegar upplifanir og verið mikilvægur samkomustaður fyrir okkur og Norðurlönd í heild sinni. Norrænn viti í hjarta Færeyja og Norðurlanda.

Hátíðahöld með tónlist og dansi

Haldið verður upp á 40 ára afmæli Norðurlandahússins með tónlist og dans og munu Bjarni K. Petersen, dómsmálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda í Færeyjum, Sirið Stenberg, menningarmálaráðherra, Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, meðal annars sækja hátíðina.

Seinna um kvöldið fara fram tónleikar með færeysku tónlistarkonunni Anniku Hoydal sem einnig steig á stokk þann 8. maí 1983 þegar húsið var tekið í notkun.

Einstök byggingarlist

Arkitektúr hússins er einstakur og samanstendur af mismunandi þáttum frá öllum norrænu löndunum: Gluggar og stálbitar frá Danmörku, þak að íslenskri fyrirmynd með færeysku torfi, granítgólf frá Noregi, innréttingar frá Finnlandi og veggklæðningar úr viði frá Svíþjóð.

Ákvörðun um að reisa Norðurlandahúsið í Færeyjum var tekin árið 1977 og í kjölfarið fór fram samkeppni um teikningu hússins. Úr tillögunum 178 sem bárust voru norski arkitektinn Ola Steen og íslenski arkitektinn Kolbrún Ragnarsdóttir valin til að teikna húsið. Húsið var opnað 8. maí 1983.

Contact information