Norðurlandaráð stóð fyrir hringborðsumræðum um varnarmál

20.09.23 | Fréttir
Svenska soldater
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Svíþjóð gegnir formennsku í Nordefco í ár og því efndi landsdeild Svíþjóðar í Norðurlandaráði til óformlegra hringborðsumræðna um varnarmál í sænska þinghúsinu miðvikudaginn 13. september.

Í umræðunum gafst færi á að ræða norrænt samstarf í varnarmálum í framtíðinni, bæði í hernaðarlegu og borgaralegu samhengi. Rætt var hvernig styrkja mætti samstarfið á friðartímum og dýpka það á langvarandi neyðartímum og ef átök koma upp.

Norrænu löndin hafa lengi unnið að því að stuðla að reglubundinni skipan heimsmála og framgangi lýðræðis.

Breyttar forsendur fyrir samstarfi í varnarmálum

Umræðurnar snerust að miklu leyti um hina ólögmætu innrás Rússlands í Úkraínu. Norrænt samráð um varnarmál var sagt sérlega mikilvægt í ljósi stríðsátakanna í Evrópu og versnandi stöðu með tilliti til öryggismála. 

„Öryggismál verða sífellt mikilvægari og þess vegna er mjög þýðingarmikið að við eigum gott samstarf á öllum Norðurlöndum, bæði á hernaðarlegu sviði og öðrum. Við lifum á miklum ólgutímum og það segir sig sjálft að það hefur áhrif á samstarf okkar. Undanfarið ár hafa öryggismál verið allsráðandi og þau verða það áfram þegar öll norrænu löndin verða orðin aðilar að NATO,“ segir Heléne Björklund, formaður landsdeildar Svíþjóðar í Norðurlandaráði.

Mörg þeirra sem tóku til máls undirstrikuðu mikilvægi samstarfs við Eystrasaltsríkin. Í náinni framtíð má gera ráð fyrir því að öll norrænu löndin verði aðilar að NATO og því hafa forsendur norræns samstarfs í varnarmálum breyst.

Reglulegir óformlegir fundir

Frá árinu 2013 hefur forsætisnefnd Norðurlandaráðs átt óformlega fundi við norrænu varnarmálaráðherrana, yfirmenn varnarmála og formenn varnarmálanefnda norrænu þjóðþinganna með það fyrir augum að efla þingsamstarf um varnarmál og stuðla að auknu öryggi á Norðurlöndum. 

„Ég met mikils þá miklu virðingu sem ríkir á milli landa okkar sem hefur byggst upp á löngum tíma. Samböndin einkennast af vináttu og virðingu og fólk hlustar virkilega á reynslu hvers annars,“ segir Heléne Björklund.

Flestir fulltrúar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs voru viðstaddir fundinn í Stokkhólmi, auk meðal annarra Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Carl-Oskar Bohlin, ráðherra almannavarna í Svíþjóð, og Micael Bydén, yfirhershöfðingja í Svíþjóð. Þá voru fulltrúar varnarmálanefnda norrænu þjóðþinganna einnig viðstaddir.

Varnarmálasamstarf er eitt af aðaláherslumálunum í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum.