Norðurlandaráð þrýstir á um nánara samstarf á sviði samgöngumála og samfélagsöryggis

25.09.20 | Fréttir
Lastbil i en tunnel
Ljósmyndari
norden.org/Ane Cecilie Blichfeldt
Formleg ráðherranefnd um samgöngumál og nánara samstarf á sviði samfélagsöryggis er eitt af því helsta sem Norðurlandaráð fer fram á þegar rætt er um áherslur í norrænu samstarfi á næstu árum.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs kom saman á fjarfundi á föstudag, meðal annars til að ákveða forgangsröðun ráðsins í norrænu samstarfi í framtíðinni. Markmiðið er að forgangsatriðin verði með í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2021 og framkvæmdaáætlunum fyrir 2021–2024.

Norðurlandaráð, sem er fulltrúi samstarfs norrænu þjóðþinganna, á nú í viðræðum við ráðherranefndina, sem er samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, um nýtingu fjármagns á næstu árum.

Samgöngumál leika lykilhlutverk í loftslagsvinnunni

Norðurlandaráð leggur áherslu á nokkur mál sem ber að setja í forgang. Ofarlega á þeim lista er formleg ráðherranefnd um samgöngumál, ekki síst í ljósi framtíðarsýnarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

„Ef okkur á að takast að draga úr losun og ná loftslagsmarkmiðum okkar er gríðarlega mikilvægt að við getum unnið saman á sviðum sem leika lykilhlutverk í grænum umskiptum. Samgöngumálin eru einn mikilvægasti þátturinn í þeirri vinnu og í dag er ekki um formlega ráðherranefnd að ræða á því sviði. Við verðum að setja markið hærra þegar kemur að samstarfi á sviði samgöngumála og þess vegna telur Norðurlandaráð tímabært að stofna ráðherranefnd,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs.

Í framkvæmdaáætlunum Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2021–2024 er ekki gert ráð fyrir ráðherranefnd um samgöngumál.

Áhersla á samfélagsöryggi

Annað svið sem Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á er samfélagsöryggi. Á Norðurlandaráðsþinginu 2019 samþykkti Norðurlandaráð einróma stefnu um samstarf á sviði samfélagsöryggis og nú vill forsætisnefndin að tillögurnar úr þeirri stefnu verði einnig að finna í framkvæmdaáætlunum fyrir næstu ár.

„Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar við sjáum áhrif COVID-10-faraldursins á norrænt samstarf. Við verðum að læra af faraldrinum og bæta samstarf á erfiðleikatímum. Stefna okkar um samfélagsöryggi inniheldur margar tillögur um hvernig bæta megi samstarfið en þær er ekki að finna í framkvæmdaáætlunum ráðherranefndarinnar,“ segir Silja Dögg.

Samþykkja á fjárhagsáætlun Norrænur ráðherranefndarinnar fyrir árið 2021 og framkvæmdaáætlanir fyrir 2021–2024 fyrir lok þessa árs. Norðurlandaráð þarf að samþykkja bæði fjárhagsáætlunina og framkvæmdaáætlanirnar.