Norðurlandaráð býður forsætisráðherrunum til samráðs um samfélagsöryggi

18.09.20 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Photographer
Iris Dager
Á þingi Norðurlandaráðs 2019 samþykkti ráðið stefnu um samfélagsöryggi sem óskað er að norrænu löndin taki upp sem fyrst. Ráðið hefur beðið ríkisstjórnirnar um að koma með athugasemdir við tillögurnar í stefnunni og nokkrar ráðherranefndir hafa svarað fyrirspurninni. Norðurlandaráð er ekki ánægt með þau svör sem borist hafa og hyggst nú annars vegar halda samráðsfund með forsætisráðherrunum og hins vegar með þeim ráðherrum sem fara með viðbúnaðarmál.

Ráðið hefur meðal annars beðið ríkisstjórnirnar um að svara því með hvaða hætti Norræna ráðherranefndin geti sem best komið að og stutt við norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála, þar með talið samfélagsöryggis- og viðbúnaðarmála.

Í svörum sínum sýna ríkisstjórnirnar þessum áhuga mjög lítinn skilning og telja aðkomu ráðherranefndarinnar nægilega nú þegar.

„Stefnan er afrakstur vandlegs undirbúnings og við þær aðstæður sem nú eru uppi er mikilvægara en nokkru sinni að innleiða það sem lagt er til í henni,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs.

„Við erum vonsvikin og hissa á þeim svörum sem ríkisstjórnirnar hafa veitt okkur og því hyggjumst við nú bjóða forsætisráðherrunum til samráðsfundar um málið,“ segir hún.

Við erum vonsvikin og hissa á þeim svörum sem ríkisstjórnirnar hafa veitt okkur

Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs

Forsætisnefndin bendir á að kórónufaraldurinn hafi sýnt fram á þýðingu samfélagsöryggis.

„Við vonuðumst til að ríkisstjórnirnar myndu kanna hvort stjórn norræns samstarfs á sviði viðbúnaðarmála væri nógu skýrt skilgreind til að virka í raun í krísu,“ segir Wille Rydman sem fór fyrir starfshópi hjá Norðurlandaráði sem fór í gegnum svör ríkisstjórnanna. „Við teljum COVID-19 hafa sýnt að svo sé ekki. En ríkisstjórnirnar vilja heldur ekki breyta núverandi skipulagi í þessu tilliti,“ segir Rydman.

 

Forsætisnefnd vill að samráðsfundur með forsætisráðherrunum fari fram í lok október í tengslum við norrænu leiðtogafundavikuna. Þing Norðurlandaráðs verður ekki haldið með hefðbundnum hætti í ár vegna kórónufaraldursins. Pólítískt starf heldur þó áfram og Norðurlandaráð stendur fyrir fjölda rafrænna funda á þeim tíma sem þingið hefði undir eðlilegum kringumstæðum verið haldið, í viku 44.

Forsætisnefnd tók ákvörðun um málið á fundi sínum 18. september.