Skýrt útfærð áætlun tryggi aukið vægi samstarfs

17.09.20 | Fréttir
Nordiska flaggor
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/Norden.org
Framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf þokaðist áleiðis þegar samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu hana 10. september. Um fjögurra ára áætlun er að ræða þar sem gengið er út frá þeirri framtíðarsýn á samstarfið sem forsætisráðherrarnir samþykktu í fyrra. Framtíðarsýnin gerir ráð fyrir að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Við gerð framkvæmdaáætlunarinnar var tekið mið af tillögum frá öllum málaflokkum innan Norrænu ráðherranefndarinnar og var hún unnin í samstarfi við Norðurlandaráð og norrænar stofnanir. Almenningur, þar með talið ungt fólk, hefur einnig komið að ferlinu í ríkari mæli en nokkru sinni áður.

Framkvæmdaáætlunin beinir samstarfinu inn á loftslagsvænni og sjálfbærnimiðaðri brautir en áður.

Athygli er vakin á tækifærum sem felast í stafvæðingu, m.a. á sviði rannsókna og menntunar og nýsköpunar og á heilbrigðissviði. Einnig er það markmið að stafrænar lausnir ýti undir frjálsa för innan svæðisins.

„Græn umskipti í samfélaginu eru lykilþáttur í framtíðarsýn norræns samstarfs fyrir árið 2030,“ sagði fundarstjórinn Mogens Jensen, samstarfsráðherra Danmerkur. „Samstarf þvert á fagsvið og á milli opinberra aðila og einkaaðila á Norðurlöndum er forsenda árangursríkra umskipta,“ bætti hann við.

„Við viljum gera það sem við getum til að við á Norðurlöndum getum betur séð með hvaða hætti við getum stutt við svið á borð við grænan samgöngu- og byggingariðnað, sjálfbærari opinber innkaup og sjálfbærari vefnaðarvöruframleiðslu,“ sagði Mogens. „Sömuleiðis beinum við sjónum okkar að norrænni náttúru og munum m.a. kanna hvernig við getum í sameiningu stuðlað að minni losun úrgangs í hafið og lagt áherslu á náttúrulegar loftslagslausnir.“

 

Menning og menntun eru áfram lykilþáttur í samstarfinu

Í undirbúningsferlinu hefur menningarsviðið lýst áhyggjum af því hvaða áhrif þær breytingar á forgangsröðun sem nú er verið að gera muni hafa á menningarsamstarfið.

Breytingarnar hafa áhrif á fjárhagsáætlanir á sviði menningar- og menntamála en þetta verða áfram með mikilvægustu þáttum samstarfsins.

„Ég er fyrstur til að leggja áherslu á þýðingu menningar- og tungumálasamstarfs í framtíðinni,“ segir Mogens Jensen. „Meðal verkefnanna má nefna Nordplus, styrktaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir símenntun og frjálsa för, og framhald á Norðurlöndum í skólanum,“ segir hann.

„Menningarstofnanir okkar leika líka lykilþátt í miðlun norrænnar menningar og listar fyrir jafnt unga sem aldna,“ heldur hann áfram.

Sérstök áhersla á sjálfbærni, jafnrétti og börn og ungmenni

Framkvæmdaáætlunin er byggð upp út frá þremur stefnumarkandi áherslusviðum: Grænum Norðurlöndun, samkeppnishæfum Norðurlöndum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Auk áherslu á sjálfbærni sem liggur sem rauður þráður í gegnum áætlunina eiga jafnrétti og sjónarmið barna og ungmenna að lita alla þætti norræns samstarfs á tímabilinu. Einnig er sérstaklega hvatt til þverlægra aðgerða í framkvæmdaáætluninni.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir framkvæmdaáætlunina vera verkfæri til að miðla, fylgja eftir og þróa mikilvægustu áhersluþætti samstarfsins. Hún lýsir sérstakri ánægju með skýra útfærslu framkvæmdaáætlunarinnar. Hún nefnir nokkur dæmi um umhverfismálin:

„Meðal annars erum við með mörg verkefni í tengslum við loftslagsvæna orkuþróun. Líffræðileg fjölbreytni er annað forgangsatriði. Við viljum þróa matvæla- og fóðurplöntur sem betur standast veðuröfgar og loftslagsbreytingar. Sérstök áhersla á norræna umhverfismerkið Svaninn á einnig að auðvelda Norðurlandabúum að velja umhverfis- og loftslagsvænar vörur.“

Frjáls för innan svæðisins í forgangi

Frjáls för innan svæðisins er einn hornsteina norræns samstarfs.

„Vinnan að því að gera Norðurlönd að enn samþættara svæði er að sjálfsögðu í forgangi,“ segir Paula Lehtomäki.

Mogens Jensen heldur áfram:

„Út frá þeim tillögum sem okkur hafa borist frá almenningi vitum við að bæði ungir og gamlir Norðurlandabúar gera ráð fyrir því að við beinum sjónum okkar að því að bæta frjálsa för. Við munum leggja aukna áherslu á að hægt verði að nýta sér opinbera, stafræna þjónustu þvert á landamæri svo auðveldara verði að reka fyrirtæki, stunda nám og vinna í öðru norrænu landi.“

Eftirfylgni tryggir vægi

Áætlunin sem samþykkt var í gær felur einnig í sér kröfu um stöðuga eftirfylgni. Um leið er eftirfylgni leið til að tryggja vægi samstarfsins. Þótt framkvæmdaáætluninni sé ætlað að vera leiðarljós starfseminnar í fjögur ár verður samstarfið að vera sveigjanlegt og geta lagað sig að breyttum aðstæðum. Það sýnir COVID-19-faraldurinn glöggt ásamt öllum þeim áskorunum sem í kjölfar hans hafa fylgt.

„Afleiðingar faraldursins hafa auðvitað áhrif á samstarfið á flestum sviðum næstu árin,“ segir Mogens Jensen. „Við tökum til dæmis frá fjármagn til að ráða í sameiningu betur við krísur á borð við heimsfaraldur.“

Framkvæmdaáætlunin fyrir norrænt samstarf öðlast gildi þegar Norðurlandaráð hefur fjallað um hana og samþykkt. Ráðið mun fjalla um áætlunina í þingvikunni í október.