Bréf Norðurlandaráðs til forsætisráðherra: Aukið samstarf á erfiðleikatímum

23.04.20 | Fréttir
Läkare gör ett coronatest.

Läkare gör ett coronatest.

Photographer
Niels Christian Vilmann/Ritzau Scanpix
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur sent bréf til forsætisráðherra Norðurlanda þar sem ríkisstjórnir eru hvattar til að sameina krafta sína í baráttunni gegn kórónuveirunni og á erfiðleikatímum. Meðal þess sem lagt er til í bréfinu er að komið sé á fót óháðri, norrænni viðbúnaðarnefnd.

Í bréfinu vísar forsætisnefndin til stefnu um samfélagsöryggi sem samþykkt var einróma á Norðurlandaráðsþingi í október árið 2019. Forsætisnefndin hvetur ríkisstjórnir Norðurlanda til að innleiða þær tillögur sem lagðar eru fram í stefnunni og nefnir sérstaklega tillögu um að ríkisstjórnir Norðurlanda samræmi aðgerðir til að tryggja framboð á mikilvægum lyfjum og öðrum búnaði til lækninga.

Í bréfinu undirstrikar forsætisnefndin þörfina á uppfærðri norrænni áhættugreiningu og viðbúnaðaráætlun og leggur til að komið sé á fót óháðri, norrænni viðbúnaðarnefnd.

„Kórónufaraldurinn virðir ekki landamæri“

Forsætisnefndin óskar þess að norrænu ríkin hjálpi hvert öðru eftir þörfum og eins og við verður komið, svo sem með lækningabúnað og heilbrigðisstarfsfólk og hún undirstrikar mikilvægi þess að löndin haldi áfram að skiptast á upplýsingum og góðum ráðum.

- Kórónufaraldurinn virðir ekki landamæri. Því verðum við að starfa saman þvert á þau. Norrænu ríkin eiga mjög náið samband og á milli okkar ríkir traust sem er einstakt á heimsvísu. Nú, á erfiðleikatímum, reynir á vinabönd okkar, segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, og vísar til nýrrar framtíðarsýnar fyrir norrænt samstarf, þar sem fram kemur að Norðurlönd skuli verða samþættasta svæði heims.

Efnahagsaðgerðir séu samræmdar

Í bréfinu segir einnig að ríkisstjórnir þurfi að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra ferðatakmarkana sem gripið hefur verið. Þá eru ríkisstjórnir hvattar til að skoða hvort hægt sé að samræma viðbrögð við faröldrum í framtíðinni með þeim hætti að ekki þurfti að grípa til nýrra landamærahindrana.

Forsætisnefndin óskar þess að norrænu ríkin samræmi aðgerðir sem miða að því að endurreisa og styrkja efnahag norrænu ríkjanna eftir COVID-19, með áherslu á græna og sjálfbæra þróun og viðkvæma hópa, segir í bréfinu.

Forsætisnefndin hvetur einnig ríkisstjórnir til að styrkja alþjóðlegt samstarf og norræna samhæfingu í stofnunum á borð við WHO og ESB.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs þakkar öllum þeim sem berjast gegn COVID-19 og nefnir sérstaklega þá gríðarlegu vinnu sem heilbrigðisstarfsfólk og aðrir inna af hendi.

Lesa má bréfið til forsætisráðherranna hér fyrir neðan.

 

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

Bréf frá forsætisnefnd Norðurlandaráðs til ríkisstjórna Norðurlanda um COVID-19-faraldurinn og samstarf um samfélagsöryggi

Mette Frederiksen forsætisráðherra

Sanna Marin forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Erna Solberg forsætisráðherra

Stefan Löfven forsætisráðherra

Bárður á Steig Nielsen lögmaður​​​​​​

Kim Kielsen formaður

Veronica Thörnroos landstjóri

 

20. apríl 2020

Tengslanet landa okkar er víðfeðmt og traust. Við erum að mörgu leyti lík og höfum sameiginleg gildi. Þau sterku bönd sem á milli okkar eru hafa ekki orðið til af sjálfu sér. Þau eru ávöxtur langvarandi og náins samstarfs á milli stofnana, samtaka og einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins. Með framtíðarsýn sinni til 2030 ákváðu forsætisráðherrarnir að Norðurlönd ættu að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. COVID-19-faraldurinn virðir ekki landamæri. Því verðum við að starfa saman þvert á þau. Nú reynir á vinabönd okkar og það traust sem byggst hefur upp á milli landanna.

Norðurlandaráð vill þakka fyrir það mikilvæga starf sem unnið er við að halda faraldrinum í skefjum og við umönnun þeirra sem veikst hafa. Heilbrigðisstarfsfólk og fleiri hafa unnið þrekvirki.

Þessi faraldur mun ganga yfir og betri tímar taka við en úrlausnarefnin eru mörg, bæði til lengri og skemmri tíma. Efnahagur landa okkar hefur beðið skaða. Óvissutímar geta ýtt undir öfgar og andlýðræðisleg öfl. Enn sem fyrr stafar mikil ógn af netárásum og villandi upplýsingum. COVID-19-veiran getur borist til okkar aftur, í sömu mynd eða stökkbreytt. Aðrir faraldrar geta komið upp. Loftslagsváin er enn til staðar og eykur líkur á flóðum, skógareldum og öfgum í veðri. Enn er hætta á öðrum náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta og eldgos. Við getum ekki tekist á við þessar ógnir án samstarfs landanna í milli.

Því hvetjum við ríkisstjórnir Norðurlanda til

  • að flýta eftir megni framkvæmd tillagnanna í stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi sem samþykkt var einróma á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi haustið 2019 og send var ríkisstjórnunum í kjölfarið. Við bendum sérstaklega á tillögu um að ríkisstjórnir Norðurlanda samræmi aðgerðir til að tryggja framboð á mikilvægum lyfjum og öðrum búnaði til lækninga. Sömuleiðis viljum við leggja áherslu á mikilvægi samnorræns skilnings, stjórnarhátta og forystu ásamt þörfinni á uppfærðri norrænni áhættugreiningu og viðbúnaðaráætlun. Stofna þyrfti óháða, norræna viðbúnaðarnefnd.
  • að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra takmarkana á ferðum milli norrænu landanna sem nauðsynlegt hefur reynst að grípa til, sérstaklega á landamærasvæðum. Ríkisstjórnirnar þurfa að skoða hvort hægt sé að samræma viðbrögð við faröldrum í framtíðinni með þeim hætti að ekki þurfi að grípa til ferðatakmarkana og annarra landamærahindrana á Norðurlöndum. Ekki síst á það við um fólk sem sækja þarf vinnu yfir landamæri. Ríkisstjórnirnar ættu að fela samstarfsráðherrunum (MR-SAM) að samræma þá vinnu.
  • að auka samstarfið í baráttunni við COVID-19-faraldurinn og komandi faraldra. Mikilvægt er að halda áfram að skiptast á upplýsingum og góðum ráðum. Norrænu löndin þurfa að hjálpa hvert öðru eftir þörfum og eins og við verður komið, svo sem með lækningabúnað og heilbrigðisstarfsfólk. Við vísum þar í norræna samninginn um heilbrigðisviðbúnað og gagnvæma aðstoð vegna hamfara og áfalla sem tók gildi 2003 og norrænu samstöðuyfirýsinguna frá 2011.
  • að samræma aðgerðir sem miða að því að endurreisa og styrkja efnahag norrænu ríkjanna með áframhaldandi áherslu á græna og sjálfbæra þróun og viðkvæma hópa. Jafnframt ættu ríkisstjórnirnar að samræma norrænar aðgerðir til aðstoðar löndum sem orðið hafa fyrir alvarlegum heilbrigðis- eða efnahagsáhrifum af völdum COVID-19-faraldursins. Það á við um lönd í Evrópu en einnig þróunarlönd þar sem stofnanir samfélagsins eru oft og tíðum veikar og eiga erfitt með að takast á við vanda af þessu tagi.
  • að styrkja alþjóðlegt samstarf og norræna samhæfingu í stofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og ESB svo að þjóðir heimsins geti hjálpast betur að og samræmt aðgerðir gegn COVID-faraldrinum og öðrum ógnum sem steðja að heimsbyggðinni allri.

Á Norðurlöndum höfum við ítrekað sýnt að við erum sterkari þegar við stöndum saman. Því skulum við halda áfram.

Með bestu kveðju,

Silja Dögg Gunnarsdóttir                                           Britt Bohlin

Forseti Norðurlandaráðs                                           Framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs

 

Annette Lind                                                                     Heidi Greni

Aron Emilsson                                                                  Linda Modig

Bertel Haarder                                                                 Martin Kolberg

Christian Juhl                                                                    Michael Tetzschner

Erkki Tuomioja                                                                 Oddný G. Harðardóttir

Gunilla Carlsson                                                              Steinunn Þóra Árnadóttir

Hans Wallmark                                                                Wille Rydman