Norðurlandaráð vill sjá aukið samstarf um utanríkis- og öryggismál

09.02.21 | Fréttir
Björn Bjarnason i Zoom-möte
Ljósmyndari
Matts Lindqvist

Björn Bjarnason kynnti skýrslu sína á málþingi Norðurlandaráðs um utanríkis- og öryggismál.

Norrænu löndin ættu að samræma afstöðu sína í málefnum norðurslóða, eiga samstarf um rannsóknir á sameiginlegri stefnu í öryggis- og utanríkismálum og hugleiða að koma á fót norrænni viðbúnaðarmiðstöð um heildarvarnir. Þetta eru nokkrar af þeim tillögum sem Björn Bjarnason vakti máls á á málþingi sem Norðurlandaráð stóð fyrir á mánudaginn.

Á málþinginu, sem fór fram rafrænt, var lagt út af skýrslu Björns frá 2020, Nordic Foreign and Security Policy, þar sem fjallað er um leiðir til að auka norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál.

Í skýrslunni setur fyrrum ráðherrann fram 14 tillögur að því hvernig norrænu löndin geti þróað samstarfið á þremur sviðum: samstarf um loftslagsmál, samstarf um fjölþættar ógnir og netöryggi og marghliða samstarf. Á málþinginu gafst Norðurlandaráði færi á að ræða innihald skýrslunnar í fyrsta sinn.

Í samræmi við forgangsröðun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð hefur lengi beitt sér fyrir auknu norrænu samstarfi um utanríkis- og öryggismál og tillögurnar í skýrslu Björns Bjarnasonar eru í samræmi við stefnu ráðsins um samfélagsöryggi og stefnu þess í alþjóðamálum.

Að auki eru varnar- og öryggismál ofarlega á dagskrá Danmerkur, sem gegnir formennsku í Norðurlandaráði á þessu ári.

„Þrátt fyrir að norrænu ríkin tilheyri ekki öll sömu bandalögum kemur ekkert í veg fyrir að við getum átt enn nánara samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Þvert á móti. Vinir okkar í NATÓ og ESB meta öflugt norrænt samstarf mikils. Sama gildir um Sameinuðu þjóðirnar. Norrænt samstarf ógnar engum, það stuðlar að fyrirsjáanleika og stöðugleika,“ sagði Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs.

COVID-19 með í skýrslunni

Björn ritaði skýrsluna að beiðni norrænu utanríkisráðherranna. Honum var falið verkefnið áður en heimsfaraldur braust út, en þó er fjallað um COVID-19 í skýrslunni.

„Rætt hefur verið um þörfina fyrir sameiginlegan norrænan viðbúnað á tímum heimsfaraldra. Norrænu utanríkisráðherrarnir báðu ekki um neinar tillögur að nýjum stofnunum og því er ekki fjallað um samnorræna viðbúnaðarmiðstöð um heildarvarnir í skýrslunni. Heimsfaraldur COVID-19 gefur þó tilefni til að ræða möguleikann á slíkri miðstöð,“ sagði Björn Bjarnason á málþinginu og bætti því við að heimsfaraldurinn útheimti einnig aukna athygli með hliðsjón af fjölþættum ógnum og netöryggi.

Með skýrslu sinni fylgir Björn eftir skýrslunni um varnarmál sem Thorvald Stoltenberg ritaði árið 2009. Þó væri ekki sanngjarnt að bera þessar tvær skýrslur saman, þar sem umboð Björns var þrengra en Stoltenbergs og beindist í minna mæli að hreinræktuðu varnarmálasamstarfi.

Mikilvægi norðurslóða

Í kynningu sinni vakti Björn einnig máls á mikilvægi aukins norræns samstarfs á norðurslóðum, einkum með hliðsjón af vaxandi áhuga stórvelda á svæðinu.

„Tillögurnar í skýrslunni taka mið af nýrri heimsmynd þar sem áhrif Kína hafa margfaldast í samanburði við stöðuna 2009, þegar skýrsla Stoltenbergs kom út. Ein af tillögunum fjallar um að norrænu ríkisstjórnirnar ættu að reyna að samræma afstöðu sína gagnvart auknum áhuga Kínverja á norðurslóðum,“ sagði Björn.

Bertel Haarder lagði áherslu á að Norðurlönd gætu og ættu að gegna mikilvægu hlutverki hvað það varðaði að halda togstreitu á norðurslóðum í lágmarki. Ennfremur hvatti hann norrænu ríkisstjórnirnar til að hrinda tillögunum í skýrslu Björns í framkvæmd.

„Það er mikilvægt að Norræna ráðherranefndin eigi sér fulltrúa í þessu máli. Í stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi segir að löngu tímabært sé að ráðherranefndin komi í auknum mæli að utanríkis- og öryggismálunum, þar með töldu starfinu að samfélagsöryggi,“ sagði Haarder.

Johanna Sumuvuori, ráðuneytisstjóri Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, sagði í erindi sínu að í skýrslu Björns Bjarnasonar væri fjallað um afar mikilvæg málefni og að Finnland hlakkaði til þess, sem formennskuland í Norrænu ráðherranefndinni 2021, að halda starfinu áfram.

Stefna í utanríkis- og öryggismálum fellur ekki undir umboð Norrænu ráðherranefndarinnar. Hins vegar er hún mikilvægur þáttur í starfsemi Norðurlandaráðs. Ráðherranefndin er hinn formlegi samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna en Norðurlandaráð er vettvangur formlegs samstarfs norrænu þjóðþinganna.