„Norðurlönd eiga að gera átak í tækni til að binda og geyma koldíoxíð“

07.09.22 | Fréttir
ny teknik på island för att fånga koldioxid

Carbfix-kupoler vid Hellisheiði-kraftverket nära Reykjavik suger koldioxid ur luften. 

Photographer
Halldor Kolbeins/AFP/Ritzau Scanpix
Norrænu löndin ættu að samræma tækniþróun og stefnu í tengslum við bindingu og geymslu koldíoxíðs. Það kæmi sér vel fyrir loftslagið og myndi gera Norðurlönd samkeppnishæfari að mati þingmanna í norrænu sjálfbærninefndinni sem funduðu í Reykjavík í dag.

Nefndin tók jákvæða afstöðu til tillögu flokkahóps hægrimanna um að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að vinna saman að Carbon Capture and Storage, CSS.

„Ef við eigum að ná loftslagsmarkmiðunum verðum við að gera allt sem við getum. Auðvitað verðum við að draga úr losun, en það dugar ekki til, við verðum að gera fleira. CSS-tæknin er hluti af þeirri lausn,“ segir Cecilia Tenfjord Toftby, sænskur þingmaður í flokkahópi hægrimanna.

„Við höfum hvorki efni á því né tíma til þess að hvert og eitt norrænt land finni sínar eigin innlendu leiðir. Við verðum að nýta okkur hvert annað til þess að ná loftslagsmarkmiðum okkar. Það er raunverulegt norrænt notagildi!“ segir hún.

Nauðsynlegt til að uppfylla Parísarsamkomulagið

CSS, Carbon Capture and Storage er regnhlífarhugtak yfir mismunandi tækni við að fanga koldíoxíð sem kemur frá orkuverum og verksmiðjum, þjappa því og dæla því svo ofan í berggrunninn til að geyma það.

Tækni til að fanga, flytja og geyma koldíoxíð er nú talin nauðsynleg til þess að heimurinn nái að uppfylla Parísarsamkomulagið.

Í síðustu skýrslu sinni nefndi loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna CSS-tækni sem hluta af lausninni til að hægja á hnattrænni hlýnun.

 

Einstakur samningur Norðmanna og Hollendinga

Öll norrænu löndin eru með stefnu eða stór þróunarverkefni varðandi CSS-tækni. Meðal annars hefur verið rætt um möguleikann á að dæla koldíoxíði ofan í olíu- og gaslindir sem hafa verið tæmdar.

Nýlega gerði Noregur einstakan viðskiptasamning við Holland um að geyma koldíoxíð á 2600 metra dýpi undir sjávarbotni í Norðursjó.

Norræna sjálfbærninefndin, sem skipuð er þingmönnum frá öllum norrænu löndunum, vill að Norðurlönd séu í fararbroddi þegar kemur að CSS.

Norðurlönd eiga að setja sér sameiginleg markmið

Fyrst vilja nefndarmenn sjá kortlagningu á núverandi stöðu Norðurlanda með tilliti til rannsókna, tækniþróunar, markaðs og viðskiptatækifæra.

Því næst ættu löndin að móta stefnu og setja sér sameiginleg markmið og nýta rannsóknir og tilföng landanna með skynsamlegum hætti.

„Norðurlönd eru best í heimi í tækniþróun og með það í huga hve framarlega hvert land stendur var ekki erfitt að taka afstöðu til þessa máls. Við vorum einnig sammála um það þvert á flokkslínur að grípa þurfi til allra hugsanlegra ráða til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr frekari loftslagsáhrifum. Þegar við vinnum saman getum við áorkað meiru en sem einstök lönd,“ segir Emilia Töyrä, þingmaður frá Svíþjóð í flokkahópi jafnaðarmanna.

Tillaga nefndarinnar verður nú lögð fyrir á þingi Norðurlandaráðs þar sem hún verður afgreidd.