Lífið á loftslagshlutlausum Norðurlöndum mótast á COP28

24.10.23 | Fréttir
climate-neutral livestyles
Photographer
Sara Tingström
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP28, í desember mun marka tímamót þar sem heimsbyggðin mun í fyrsta sinn leggja mat á loftslagsaðgerðir sínar til þess að ná markmiðum Parísarsamningsins. Norrænt samstarf lætur sig ekki vanta og báðar vikurnar verður boðið upp á vettvang til þekkingarmiðlunar og umræðna um að grænu umskiptin hafi ekki bara í för með sér fórnir heldur geti leitt til betra lífs fyrir fleira fólk.

Fyrir loftslagsviðræðurnar í ár er búið að vinna kortlagningu á því hve vel á veg Norðurlönd eru komin með að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Nokkrar norrænar hugsmiðjur unnu kortlagninguna sem sýnir að Norðurlönd verða að draga hraðar úr losun en einnig að við þurfum að fara að ræða í auknum mæli kostina við sjálfbært samfélag.

„Þegar kemur að loftslagshlutlausum Norðurlöndum skiptir jákvæð framtíðarsýn máli til að tryggja stuðning almennings við grænu umskiptin. Framtíðarsýnin minnir okkur á að við þurfum ekki „bara“ að draga úr losun heldur jafnframt sjá til þess að Norðurlönd verði betri staður til að vera á,“ segir Andreas Lind, aðalráðgjafi loftslagsrannsóknamiðstöðvarinnar CONCITO.

Lífsstílsbreytingar sem skipta máli

Losun á heimsvísu hefur aldrei verið meiri og Norðurlönd og heimurinn allur eru langt frá því að uppfylla Parísarsamninginn. Eigi að takast að halda hækkun meðalhitastigs í heiminum undir 1,5 gráðum þarf hröð umskipti á öllum sviðum, í öllum samfélögum og í lífsstíl okkar.

Samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, geta lífsstílsbreytingar dregið úr losun á heimsvísu um 40–70 prósent fram til ársins 2050 að því gefnu að nauðsynlegar reglur, innviðir og tækni sé fyrir hendi. Tækifærin eru helst á svæðum líkt og Norðurlöndum, þar sem við erum stórneytendur. En breyting á lífsstíl okkar þarf ekki að þýða að lífið verði verra.

Tækifæri fyrir okkur til jákvæðra breytinga

„Ef við eigum að ná að uppfylla Parísarsamninginn þurfa Norðurlönd að breytast, en í því felst líka tækifæri fyrir okkur til jákvæðra breytinga. Norrænu löndin eru með háleit markmið í loftslagsmálum og búa yfir því sem þarf fyrir grænu umskiptin. Þau verða að ganga hraðar fyrir sig. En Norðurlönd verða líka að sýna hvernig græn umskipti geta skilað sér í bættum lífskjörum,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norræni skálinn á COP28 stendur fyrir yfir 70 umræðuviðburðum og kynningum í tengslum við loftslagsbreytingar og -lausnir. Meðal annars snúast þeir um fjármögnun taps og tjóns, öruggari matvælakerfi, samspil loftslags- og jafnréttismála, réttlát græn umskipti, tæknilausnir, náttúrumiðaðar lausnir, líffræðilega fjölbreytni og hlutverk menningar í loftslagsbaráttunni.

Meiri tími fyrir það sem skiptir máli

Viðburðirnir 70 í norræna skálanum munu sýna hvernig Norðurlöndum gengur að ná kolefnishlutleysi, hvaða nýju lausnir eru til og hvernig við sköpum tækifæri fyrir kolefnishlutlausan lífsstíl. Að sögn Elise Sydendal sem situr í Loftslagsráði æskunnar í Danmörku getur loftslagshlutlaus lífsstíll veitt innsýn í hvað það er sem í raun gerir okkur hamingjusöm.

„Í loftslagshlutlausu samfélagi sjáum við að lífið snýst um að gefa okkur meiri tíma til að hlúa að sambandinu við okkar nánustu. Það snýst um aðgengi að menningu og náttúru, hreinu lofti og drykkjarvatni og heilbrigðu umhverfi frekar en aukinni efnishyggju og neyslu. Með því að breyta lífsstíl okkar og draga úr neyslu sköpum við betra líf fyrir okkur og um leið sköpum við öryggi fyrir komandi kynslóðir,“ segir Elise Sydendal, meðlimur Loftslagsráðs æskunnar í Danmörku. 

Fylgist með norrænu samstarfi á COP28 30. nóvember til 12. desember þegar við skoðum hvernig loftslagshlutlaust líf framtíðarinnar verður. Dagskrá verður birt á norden.org í lok nóvember.