Nýr forseti Norðurlandaráðs æskunnar: „Við erum komin hingað til að hugsa fram í tímann – það kemur í okkar hlut að lifa með afleiðingunum“

29.10.23 | Fréttir
Anders Hansen i talarstolen på Ungdomens Nordiska Råds session i Oslo 2023.

Anders Hansen valdes till president för Ungdomens Nordiska Råd på deras session i Oslo.

Photographer
Emma Reijonen
Norðurlandaráð æskunnar (UNR) hélt árlegt þing sitt í lok síðustu viku. Á þinginu var kjörinn nýr forseti, Daninn Anders Hansen frá Nordens Liberale Ungdom.

„Það er mjög góð tilfinning að njóta trausts – ég hlaut einróma kosningu þingsins til forseta og er ótrúlega ánægður með það og hlakka til að hefja störf,“ sagði Anders Hansen.

Hann segist ætla að byggja áfram á traustri vinnu fyrirrennara síns, Rasmus Emborg, sem gegnt hefur embætti forseta síðustu tvö árin. Í fyrra öðlaðist Norðurlandaráð æskunnar rétt til að sitja og taka til máls á öllum fundum Norðurlandaráðs og það var stórt skref í átt til aukinna áhrifa á stefnumótun. Að mati Anders Hansen felst mikil ábyrgð í að nýta vel þessa nýju stöðu Norðurlandaráðs æskunnar.

„Við ætlum að leggja ríka áherslu á að fá meiri tíma til að taka til máls á fundum Norðurlandaráðs og sjá til þess að raunverulega verði hlustað á okkur þannig að við setjum mark okkar á þá stefnumótun sem á sér stað á Norðurlöndum.

Aðspurður um kveðju til þingmanna Norðurlandaráðs sem þinga í vikunni framundan segir hann eftir stutta umhugsun:

„Við erum komin hingað til að hugsa fram í tímann – það kemur í okkar hlut að lifa með afleiðingunum.“

Áhersla á utanríkismál, loftslagmál og hreyfanleika

„Fjölmargar ályktanir um utanríkismál og loftslagsmál voru samþykktar á þingi Norðurlandaráðs æskunnar – þetta eru málefnin sem brenna mest á okkur um þessar mundir,“ segir Anders Hansen.

„Í ljósi alls sem er að gerast í heiminum einmitt núna – stríðsins í Úkraínu og stríðsins milli Ísrael og Palestínu síðustu vikurnar er mikil áhersla á utanríkismál og margar ályktanir um þau mál komu inn á lokametrunum,“ segir hann.

Ungt fólk hefur sömuleiðis mikinn áhuga á loftslagsmálum, meðal annars er verið að ræða um að koma á fót fleiri vind- og sólarorkugörðum til þess að framleiða losunarlausa orku en einnig til að tryggja örugga græna flutninga milli norrænu landanna.

„Afar margt ungt fólk hefur miklar áhyggjur af loftslagsmálum og afleiðingum þeirra fyrir þeirra eigin framtíð og komandi kynslóðir,“ segir Anders Hansen.

Þriðja málefnið sem sérstök áhersla er lögð á í Norðurlandaráði æskunnar er hreyfanleiki námsfólks milli norrænu landanna.

„Við viljum að það verði enn auðveldara fyrir allt ungt fólk að Norðurlöndum að stunda nám í öðru norrænu landi.“

Anders Hansen tekur við forsetaembættinu í Norðurlandaráði æskunnar í byrjun janúar 2024 þegar tímabil sitjandi forseta, Rasmus Engborg, rennur út.

Norðurlandaráð æskunnar heldur þing sitt árlega í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Fulltrúar Norðurlandaráðs æskunnar taka þátt í öllum nefndarfundum og þingfundum Norðurlandaráðsþingsins og eiga rétt á að taka þátt í öllum umræðum.