Heilnæmt og sjálfbært mataræði: Nýjustu fréttir af norrænum næringarráðleggingum

11.01.23 | Fréttir
Rune Bomhoff at COP27
Ljósmyndari
Andreas Omvik/norden.org

Rune Blomhoff tók þátt í pallborðsumræðum um heilnæmt og sjálfbært mataræði í Norræna matvælakerfaskálanum á COP27.

Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR) lýsa því hvernig hægt er að neyta fæðu sem er bæði holl og sjálfbær. Ráðleggingarnar eru dæmi um samvinnu milli svæða á sviði leiðbeininga um fæðusamsetningu og ráðlagða skammta næringarefna. Í júní 2023 kemur út ný sjálfbærniútgáfa norrænu næringarráðlegginganna. Við hittum verkefnisstjórann, Rune Blomhoff prófessor, til að fá nýjustu fréttir af ferlinu.

Hvað eru norrænu næringarráðleggingarnar? Af hverju eru þær mikilvægar?

Norrænu næringarráðleggingarnar veita stjórnvöldum ráðgjöf á grunni alþjóðlegra hágæðavísindarannsókna. Áratugum saman hafa leiðbeiningarnar veitt mikilvægan vísindalegan grundvöll fyrir mótun matvæla- og heilbrigðisstefnu á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum þremur. Á þeim grundvallast til dæmis næringarráðleggingar stjórnvalda í hverju landi, leiðbeiningar um mataræði, merkingar matvöru, skattlagning og reglugerðir, fræðsla, eftirlit og rannsóknir. Í ljósi þess að þetta er ört vaxandi rannsóknarsvið, og með tilkomu sífellt þróaðri aðferðafræði við samþættingu næringarrannsókna, hefur skýrslan verið uppfærð á átta til tíu ára fresti. Næsta útgáfa kemur út í júní 2023. 

Að hvaða leyti er þessi skýrsla frábrugðin þeim fyrri?

Ný útgáfa norrænna næringarleiðbeininga  (NNR2022) byggir á traustum grunni síðustu útgáfu en einnig eru nokkrar endurbætur og viðbætur. Orðið hefur veruleg framför í aðferðafræði við samantekt rannsóknaniðurstaðna. Aðferðafræðin sem notuð er fyrir nýju útgáfuna er mun kerfisbundnari, opnari og gagnsærri, með margvíslegum sannprófunum. Umfang verkefnisins hefur stöðugt aukist og nú taka hátt í 400 vísindamenn þátt í því. Önnur nýmæli felast í því að nú er tekið tillit til sjálfbærni. Við höfum einnig bætt við sértökum nýjum rannsóknum á kólíni, sem er „nýtt“ næringar- og trefjaefni. Þar að auki höfum við aukið við kaflann um ráðlagt mataræði með því að bæta við 15 nýjum rannsóknum um fæðuhópa, auk rannsókna um máltíða- og mataræðismynstur. 

Getur þú lýst vinnsluferli og aðferðafræði nýju útgáfunnar?

Allt fyrsta árið unnum við að því að þróa aðferðafræði um samantekt rannsóknaniðurstaðna. Við skilgreindum aðferðafræðina, skilyrðin fyrir því að notast við eða útiloka vísindalegar úttektir og finna þannig fremstu vísindalegu úttektirnar, sem við köllum „gjaldgengar vísindalegar úttektir“. Þessar úttektir eru gjarnan afar langar tæknilegar skýrslur sem eru oft margra blaðsíðna langar og fjalla um rannsóknarspurningar á þröngu sviði. Gæðakannanir okkar á rannsóknunum sem liggja til grundvallar fela meðal annars í sér jafningjarýni og samráð við almenning. Endanlega skýrslan um norrænu næringarráðleggingarnar og á sjöunda tug rannsókna sem liggja til grundvallar eru aðgengilegar í opinberri samráðsgátt síðustu átta vikurnar fyrir endanlega útgáfu. Bætt aðferðafræði okkar hefur vakið athygli heilbrigðisyfirvalda um allan heim, og gjarnan hefur verið litið til norrænu næringarráðlegginganna þegar stjórnvöld leitast við að samræma aðferðafræði við mótun ráðlegginga um næringu og mataræði. 

Hvaða sérfræðingar taka þátt í verkefninu?

Við höfum þá stefnu að tilkynna ekki um vísindafólkið sem gerði rannsóknirnar sem leggja til grundvallar áður en niðurstöðurnar eru birtar. Það er mikill áhugi frá hagsmunaaðilum, atvinnugreinum, samtökum og einstaklingum og við viljum ekki hætta á að reynt sé að hafa áhrif á álit vísindafólksins. Öllum hagsmunaaðilum býðst að gera athugasemdir við rannsóknirnar á samráðstímabilinu til þess að tryggja að þetta fari fram á opinn og gagnsæjan máta. Þegar niðurstöður rannsókna eru birtar verður auðvitað getið um alla höfunda, jafningjarýna og viðmiðshópa.

Hvernig er unnið með mismunandi þætti sjálfbærni og af hverju skiptir sjálfbærni máli fyrir norrænu næringarleiðbeiningarnar?

Norræna ráðherranefndin fór þess á leit að við innleiddum sjálfbærniviðmið í næringarráðleggingunum í ljósi þess að matvælakerfi (þ.e. öll skrefin frá frumframleiðslu til fæðuneyslu og úrgangs) hafa veruleg áhrif á alla sjálfbærniþætti. Til dæmis eru matvælakerfi á heimsvísu ábyrg fyrir meira en þriðjungi allrar losunar gróðurhúsalofttegunda, auk þess að ganga á náttúruna og ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Við beinum sjónum okkar sérstaklega að því hvaða þátt matvælakerfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna eiga í þessum umhverfislegu áskorunum. Við tökum jafnframt tillit til félagslegra og hagrænna þátta sjálfbærni. Við höfum fengið til liðs við okkur mikinn fjölda vísindafólks frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum til að vinna að sjálfbærnirannsóknum til grundvallar næringarleiðbeiningunum.

Hvernig takið þið tillit til sjálfbærni í nýrri útgáfu norrænu næringarleiðbeininganna?

Við höfum hugleitt vandlega hvaða leiðir eru færar til að ná að innleiða sjálfbærni. Stungið hefur verið upp á því að notast við reiknilíkön en aðferðafræðin við slíkt er enn í mótun og í slíkri líkanagerð eru gjarnan „auðir reitir“ þar sem rökstuðningur fyrir leiðbeiningunum er ekki settur fram á gagnsæjan hátt. Við höfum því ákveðið að skoða fyrst heilbrigðisniðurstöður sérstaklega áður en við skoðum umhverfislega þætti sjálfbærni. Loks er fjallað um aðra þætti sjálfbærni. Í lokaskýrslunni verðum við gagnsæ og tökum skýrt fram hvort, og þá hvernig, sjálfbærnimál hafa áhrif á heilsufarsráðleggingar. 

Þið unnuð með Chatham House að þessari útgáfu. Hvernig tryggið þið að tilmælin eigi við fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin?

Flestir sjálfbærnisérfræðinganna sem taka þátt í verkefninu eru frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum og fjölfróðir um stöðu mála í hverju landi. Ekki er þó eingöngu hægt að íhuga sjálfbærni í svæðisbundnu samhengi. Meira en helmingurinn af fæðunni sem við neytum er innfluttur, og fæðuneysla okkar hefur gríðarleg áhrif á alla sjálfbærniþætti á fjölmörgum viðkvæmum landsvæðum. Því þarf einnig að skoða umhverfisþáttinn í alþjóðlegu samhengi.  Þess vegna höfum við unnið með Chatham House til að tryggja alþjóðlegt sjónarhorn í tveimur af fimm rannsóknum um sjálfbærniþætti. Við fengum Chatham House til liðs við okkur eftir ítarlega leit í fræðiritum og öðrum ritum. Við skoðuðum nokkrar stofnanir á heimsmælikvarða sem hafa reynslu af samþættingu vísindarannsókna á sviði sjálfbærni. Eftir vandlega íhugun var gengið til samstarfs við Chatham House í samræmi við reglur um opinber innkaup í rannsóknarverkefnum. 

Hvað gerist eftir 2022-útgáfu norrænu næringarráðlegginganna?

Norrænu næringarráðleggingarnar eru ekki opinber tilmæli og ráðleggingar heldur vísindaleg ráðgjöf fyrir stjórnvöld. Þegar næringarráðleggingarnar hafa verið lagðar fram þurfa stjórnvöld á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum að innleiða vísindalegu ráðgjöfina í stefnumótun í sínu landi. Það er hefð hefð fyrir því að nota næringarráðleggingarnar óbreyttar í hverju landi. Hvað varðar leiðbeiningar um mataræði er yfirleitt meiri sveigjanleiki milli landa þegar kemur að nákvæmri framsetningu tilmælanna. Þótt vísindalegi grundvöllurinn sé sá sami þarf einnig að huga að svæðisbundnu samhengi í leiðbeiningum um mataræði. Þegar litið er til sjálfbærni gætu löndin einnig viljað forgangsraða á mismunandi hátt eftir aðstæðum á hverjum stað. 

Við tökum jafnframt tillit til félagslegra og hagrænna þátta sjálfbærni. Við höfum fengið til liðs við okkur mikinn fjölda vísindafólks frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum til að vinna að sjálfbærnirannsóknum til grundvallar næringarleiðbeiningunum.

Rune Blomhoff, verkefnisstjóri hjá nefndinni um norrænu næringarráðleggingarnar

Um norrænu næringarráðleggingarnar

Norrænar næringarráðleggingar mynda vísindalegan grundvöll næringarviðmiða og ráðlegginga um mataræði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Alþjóðlegt samstarf norrænu ríkjanna fimm hefur getið af sér fimm fyrri útgáfur norrænu næringarráðlegginganna. 

Fyrsta útgáfan var árið 1980 og hafa ráðleggingarnar hlotið mikla athygli á alþjóðavísu. Valdhafar, rannsakendur og nemendur um allan heim hafa hlaðið niður núverandi útgáfunni, frá 2012, meira en 100 þúsund sinnum. 

Fyrirhugað er að ný útgáfa norrænu næringarráðlegginganna komi út í júní 2023. Auk þess að innihalda endurskoðaðar ráðleggingar um orku, meginnæringarefni og snefilefni er jafnframt þróaður gagnreyndur grunnur fyrir ráðleggingar um mataræði, auk þess sem tekið er tillit til ofþyngdar og offitu, sjálfbærni og umhverfismála í ráðleggingunum um mataræði.