Sjálfbærni á dagskrá í norrænum næringarráðleggingum

23.09.20 | Fréttir
Grönsaker
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Fleiri en 300 sérfræðingar koma saman á vefþingi þann 24. september um mataræði og sjálfbærni. Vefþingið er þáttur í vinnu að uppfærslu á norrænu næringarráðleggingunum.

Þátttakendur af Norðurlöndum og víðar að úr heiminum koma saman á vefþinginu í vikunni til að ræða hvernig flétta má sjálfbærnisjónarmið í nýja útgáfu norrænu næringarráðlegginganna (NNR) sem nú er í undirbúningi og kemur út árið 2022. Aðilar úr matvælaiðnaði og félagasamtökum, fræðafólk og alþjóðlegir sérfræðingar eru meðal þeirra sem sækja vefþingið.

Norræna ráðherranefndin hefur óskað eftir að sjálfbærnisjónarmið verði innleidd í fæðutengdar ráðleggingar í nýrri útgáfu NNR. Sum norrænu ríkjanna hafa þegar tekið skref í þessa átt og í síðustu útgáfu NNR frá árinu 2012 var einn kafli helgaður sjálfbærni – en í nýrri útgáfu NNR verða sjálfbærnisjónarmið að fullu fléttuð inn í fæðutengdar ráðleggingar. Það er NNR2022-nefndin sem stendur fyrirvefþinginu þann 24. september en viðburðurinn er upphaf að undirbúningsvinnu fyrir innleiðingu sjálfbærnisjónarmiða í NNR.

Krefjandi verkefni

Norrænar næringarráðleggingar mynda vísindalegan grundvöll næringarviðmiða og ráðlegginga um mataræði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

„Í nýju útgáfunni, sem kemur út árið 2022, verða sjálfbærnisjónarmið fléttuð í ráðleggingar um mataræði. Þetta er krefjandi verkefni“, segir Rune Blomhoff, prófessor og formaður vinnuhópsins sem hefur umsjón með mótun ráðlegginganna.

„Markmið okkar er að innleiða að fullu sjálfbærni í ráðleggingarnar – á opin og gagnsæjan hátt. Við byggjum á bestu vísindalegu þekkingu sem fáanleg er. Nýju norrænu næringarráðleggingarnar verða vegvísir og munu hafa áhrif á mikinn hluta matvælakerfa Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna“, segir Blomhoff.

Aðferðir við innleiðingu sjálfbærnisjónarmiða í ráðleggingar um mataræði verða til umræðu á vefþinginu.

Dagskráin 24. september: vefþing um mataræði og sjálfbærni

Per F I Pharo, hjá alþjóðlegu verkefni á vegum norsku ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál og skógrækt, Nicole Darmon við rannsóknarstofnun um landbúnað í Frakklandi og Kerry Brown við London School of Hygiene & Tropical Medicine eru nokkur þeirra fyrirlesara sem ætla að miðla reynslu sinni og sérfræðiþekkingu á vefþinginu, sem stendur yfir í heilan dag.

Vinnunni lýkur 2022

Vinna að mótun NNR 2022 hófst í janúar 2019 og mun standa fram til ársins 2022 en þá kemur út skýrslan NNR 2022. Í ferlinu gefst fólki ýmis tækifæri til þátttöku – til dæmis með því að útnefna efni sem skoða skal sérstaklega, taka þátt í áheyrnarfundum og veita opinberar umsagnir.