Orkumálaráðherrar: Græn orka á að knýja endurreisn eftir covid-19

26.05.20 | Fréttir
Havvindmøller ved Samsø
Ljósmyndari
Anne Sofie Bender/norden.org
Norrænu orkumálaráðherrarnir vilja að sjálfbærar orkulausnir verði drifkraftur í endurreisn hagkerfisins eftir kórónuveirufaraldurinn. Ráðherrarnir settu fram stefnumótun um endurreisninina og samþykktu einnig yfirlýsingu um þróun norræna raforkumarkaðarins til framtíðar á fjarfundi 26. maí.

Á fundinum voru ráðherrarnir sammála um að norræni orkugeirinn væri vel undirbúinn undir þær áskoranir sem blasa við í kjölfar covid-19. Norrænu ríkin eru í forystu á sviði sjálfbærrar orkutækni og orkugeirinn er meðal þeirra geira þar sem vaxtar- og útflutningsmöguleikar eru hvað mestir.

„Endurreisn hagkerfisins á Norðurlöndum og í Evrópu í kjölfar covid-19 veitir mikil tækifæri fyrir nýtt grænt upphaf sem styður við þróunina í átt að kolefnishlutlausri framtíð, skapar atvinnutækifæri og sér okkur fyrir samkeppnishæfum sjálfbærum hagvexti,“ segir Dan Jørgensen, loftslags-, orku- og veitumálaráðherra Danmerkur, sem stýrði fundinum.

Orkugeirinn gegnir lykilhlutverki

Ráðherrarnir lögðu áherslu á að orkugeirinn léki lykilhlutverk varðandi græna þróun í kjölfar covid-19. Þá bentu þeir á að byggja ætti endurreisnaráætlunina á evrópska græna sjálfbærniverkefninu Green Deal þar sem ein megináherslan er á samþættingu geira, það er hvernig samþætta megi endurnýjanlega orku í öðrum geirum. Það snýst meðal annars um samgöngur, iðnað og hitun.

Danmörk, sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2020, benti einnig á áherslu á nýja tegund eldsneytis sem byggir á rafmagni og kallast Power2X. Danmörk hefur komið á fót norrænu samstarfsverkefni um P2X með það að markmiði að vinna saman að því að P2X stuðli að umskiptum í samgöngugeiranum, sérstaklega þeim hlutum hans sem ekki er hægt að rafvæða beint.

Yfirlýsing um norrænan raforkumarkað

Orkumálaráðherrarnir samþykktu á fundi sínum yfirlýsingu þar sem dregin er upp stefnumótun um norrænt raforkusamstarf til framtíðar og einnig má líta á sem verkfæri fyrir græna endurreisn eftir covid-19.

Í yfirlýsingunni er meðal annars bent á aukna aðlögun sjálfbærrar orku í öðrum geirum, eins og samgöngum og iðnaði, aukið samstarf um vindorkuframleiðslu á hafi úti í Eystrasalti, náið samstarf um rannsóknir og nýsköpun ásamt gegnsærri nálgun á skipulagi og stækkun raforkunetsins á hverjum stað fyrir sig.

„Þessi yfirlýsing veitir góðan grundvöll undir vinnuna við að raungera norrænu framtíðarsýnina um að Norðurlöndin eigi að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Orkugeirinn leikur lykilhlutverk í þessari vinnu og það er einstaklega hvetjandi að sjá að orkumálaráðherrarnir stefni með svo miklum þunga á að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.