Norræni raforkumarkaðurinn kynntur fyrir orkumálaráðherrum heimsins

24.05.18 | Fréttir
Orkumálaráðherrum stærstu hagkerfa heims, þar á meðal G20-landanna, var á fimmtudaginn kynnt samstarfið á norrænum raforkumarkaði, samstarf sem er einstakt á alþjóðavísu og sem alþjóðasamfélagið lítur til sem fyrirmyndar.

Alþjóðlegi samstarfsvettvangarnir Clean Energy Ministerial 9 (CEM9) og Mission Innovation 3 (MI3) komu í vikunni saman á Eyrarsundssvæðinu en kynningin á norræna raforkumarkaðinum átti sér stað á CEM9-fundinum. Á fundinum var sýnd ný kvikmynd þar sem starfsemi og kostum samþættasta raforkumarkaðar heims er lýst.

Markmið CEM9 og MI3 er að ýta undir græn umskipti og í því sambandi stendur norræni raforkumarkaðurinn vel.

„Norrænt samstarf á raforkumarkaði er einstakt í heiminum. Auk þess að þetta er eitt samþættasta svæðisbundna samstarf í heimi eru Norðurlöndin leiðandi á heimvísu þegar kemur að sjálfbærri orku og loftslagsvænum lausnum. Innleiðing endurnýjanlegrar orku í raforkukerfi er ekki auðveld en hefur tekist á Norðurlöndum. Þess vegna er mikilvægt að við kynnum okkar leiðir á alþjóðlegum vettvangi eins og CEM9,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Löndin bæta hvert annað upp

Einn styrkleiki norræna raforkumarkaðarins er sveigjanleiki í orkuframleiðslunni. Á Norðurlöndunum er orka framleidd með vindi, sól og vatnsafli ásamt lífmassa og þetta felur í sér að löndin bæta hvert annað upp. Til dæmis: Þegar er lygnt í Danmörku er hægt að fá rafmagn frá Noregi, þar sem vatnsafl er ráðandi, gegnum opna norræna raforkumarkaðinn.

Óstöðugar endurýjanlegar orkulindir eins og vindur og sól eru bættar upp með sveigjanlegri leiðum svo sem lífmassa, fallorku og varmaorku.

Og eins og Dagfinn Høybråten segir í lok myndarinnar þá er ein norræn auðlind sérlega mikilvæg í þessu sambandi.

„Það er traustið. Ef ekki kæmi til traust og góð samskipti milli allra hagsmunaaðila þá gengi þetta ekki upp.“

Norræna ráðherranefndin eru ásamt norrænu ríkjunum og framkvæmdastjórn ESB gestgjafar CEM9 og MI3 í Kaupmannahöfn/Malmö. Samhliða fundunum hafa margvíslegir orkutengdir atburðir verið skipulagðir undir heitinu Nordic Clean Energy Week 21.-25. maí.