Ráðstefna: Styrkleikar og tækifæri Norðurlanda í ljósi alþjóðlegra kreppa og strauma
Norræna ráðherranefndin vinnur að því þessa dagana að leggja lokahönd á undirbúning ráðstefnunnar „Norðurlönd 2030 – Hvaða leið eigum við að fara? Farið verður í saumana á styrkleikum og tækifærum Norðurlanda í ljósi alþjóðlegra kreppa og strauma og sjónum beint sérstaklega að þremur mikilvægum áskorunum og álitamálum sem eru áberandi í samfélaginu um þessar mundir.
Hvernig stöndum við vörð um hið öfluga norræna velferðarsamfélag um leið og við verðum að draga úr vistspori okkar? Hvernig styrkjum við samkeppnishæfni Norðurlanda með því að beita gervigreind án þess að það skerði réttindi einstaklinga? Og hvernig tryggjum við félagslegan samloðunarkraft Norðurlanda í heimi þar sem kreppur og skautun sækja stöðugt á?
„Á ráðstefnuna bjóðum við ráðafólki, fyrirtækjum, félagasamtökum, vísindafólki, stjórnvöldum og ungmennahreyfingum alls staðar af á Norðurlöndum til þess að rýna í samfélagsáskoranir sem eru efstar á baugi um þessar mundir. Á dagskrá er fjöldi áhugaverðra umræðna og fyrirlestra helstu sérfræðinga á Norðurlöndum. Komdu og fáðu hugmyndir og taktu þátt í að móta leið Norðurlandanna að því að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Ráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn. Takmörkuð pláss eru í boði og verður þeim úthlutað í þeirri röð sem skráningar berast. Ráðstefnunni verður einnig streymt hér á síðunni.
Ráðstefnan er haldin í samstarfi við danska utanríkisráðuneytið, Mandag Morgen og Rambøll.