Sjálfsvígshugsanir ásækja misnotuð börn
„Ungmenni Grænlands eru norræn ungmenni. Því vill Norðurlandaráð að Norðurlöndin taki höndum saman til að varna því að ungmenni á Grænlandi þrói með sér sjálfsvígshugsanir,“ segir formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, Bente Stein Mathisen. Ummælin féllu þegar könnunin, sem framkvæmd var af lýðheilsustofnun danska ríkisins (Statens Institut for Folkesundhed) og Háskóla Suður-Danmerkur (Syddansk Universitet), var rædd á fundi velferðarnefndar á Álandseyjum. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að mörg börn á Grænlandi búi við afar erfiðar aðstæður, svo sem áfengisvanda, misnotkun og heimilisofbeldi, sem ýti undir sjálfsvígshugsanir.
Grænland biðlar til Danmerkur um aðstoð
Stuttu eftir að könnunin var birt sýndi danska ríkisútvarpið heimildarmyndina „Byen hvor børn forsvinder“ („Bærinn þar sem börn hverfa") en í henni er fjallað um Tasiilaq, lítinn, afskekktan bæ á Austur-Grænlandi þar sem fimmti hver íbúi fellur fyrir eigin hendi og stór hluti íbúanna hefur verið beittur kynferðisofbeldi. Með hliðsjón af heimildarmyndinni kallaði meirihluti grænlenska landsþingsins, Inatsisartut, eftir því í maí 2019 að landsstjórnin bæði Danmörku um hjálp til aðgerða gegn kynferðisofbeldi, vanrækslu og sjálfsvígum. Hvatningunni hefur verið vel tekið af mörgum dönskum stjórnmálaflokkum.
Ungmenni Grænlands eru norræn ungmenni. Því vill Norðurlandaráð að Norðurlöndin taki höndum saman til að varna því að ungmenni á Grænlandi þrói með sér sjálfsvígshugsanir.
Norræn aðstoð
Nefndin vonast til þess að geta lagt sitt af mörkum í málinu með því að kanna þann möguleika að löndin miðli þekkingu og bestu starfsháttum á norrænum vettvangi, Grænlandi til gagns. Til dæmis bendir Tony Wikström frá Álandseyjum, sem situr í velferðarnefndinni, á að tekist hafi að fækka sjálfsvígum meðal ungs fólks svo um muni fyrir tilstilli YAM-verkefnisins í Svíþjóð. Einnig kemur til greina að líta til aðgerða sem nú er verið að ýta úr vör í Finnlandi og á Álandseyjum. Að auki vill Norðurlandaráð spyrja dönsku ríkisstjórnina, auk landsstjórnar Grænlands, hvernig fyrirhugað sé að fylgja hinu alvarlega ástandi eftir.
Besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni til að alast upp á
Bætt kjör barna og ungmenna er varanlegt áherslusvið hjá norrænu velferðarnefndinni og í starfsáætlun nefndarinnar fyrir 2019 er það nefnt sem sérstakt forgangs- og áherslusvið. Nefndin hefur hliðsjón af því í öllu starfi sínu að Norðurlönd eigi að vera besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni til að alast upp á.