Sjónum beint að lestri barna og ungmenna á Norðurlöndum í nýju safnriti

29.11.19 | Fréttir
På tværs af Norden
Photographer
norden.org

Myndskreyting úr safnritinu „På tværs af Norden“

„Er virkilega hægt að skrifa svona fyrir börn?“ Safnritið „På tværs af Norden“ veitir einstaka innsýn, sem byggð er á rannsóknum og miðlun, í nýja strauma á sviði barna- og unglingabókmennta á Norðurlöndum. Safnritið varð til gegnum frjótt norrænt samstarf og tengir saman sýn mismunandi aðila á bókmenntirnar

Norrænar barna- og unglingabókmenntir eiga sér langa og ríka hefð og eru einmitt nú sú grein bókmennta sem með fáeinum undantekningum bæði selst mest og er mest lesin á Norðurlöndum. Safnritið er hið fyrsta sinnar gerðar sem með þverfaglegri blöndu af myndum og textum kynnir framlag vísindafólks, miðlara, rithöfunda og teiknara og hvetur til áframhaldandi þróunar og samstarfs.

Sköpun barnanna sjálfra er önnur mikilvæg áhersla. Það skiptir máli að lesa en það er enn mikilvægara að geta skrifað og unnið á fjölbreytilegan hátt úr því sem maður hefur lesið.

Bland í poka

Í sýnisbókinni er að finna tíu ritgerðir sem með blöndu af bréfum, ljóðlist, myndskreytingum og rannsóknarniðurstöðum endurspeglar strauma og stefnur í barnabókmenntum á Norðurlöndum, veltir upp aldri myndabókarinnar og ræðir gæðahugtakið. Lesandanum gefst einnig kostur á að kynna sér aukinn áhuga unga fólksins á distópíum og endurskrifuðum þjóðsögum, margbreytileika barnaljóðanna, form og notkun ímyndunaraflsins ásamt nýjum stafrænum möguleikum.

Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnastjóri sýnisbókarinnar og skrifstofustjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs segir eftirfarandi um ferlið:

„Árangurinn af fagurfræðilegri breidd og þverfaglegri vinnu er augljós í safnritinu og sýnir á svo fallegan hátt hvernig vísindafólk, miðlarar, útgefendur, rithöfundar og teiknarar á sviði barna- og unglingabókmennta á Norðurlöndum geta mæst og fengið tækifæri til að sækja innblástur og miðla þekkingu sinni og reynslu hvert til annars.“

Mikilvægur hluti af þeirri distópíu sem rætt er um í bókinni fjallar um hversu miklu máli það skiptir á ná tökum á nýrri tækni en um leið að láta hana ekki stýra sér.

Sameinast gegnum húmor, tilfinningar og dýpt

Það var í júní 2019 sem rithöfundar, teiknarar, útgefendur, vísindafólk og aðrir aðilar á sviði norrænna barna- og unglingabókmennta komu saman á málþingi í Danmörku til þess að velta fyrir sér samtímabókmenntunum og að ná fram öflugri samnorrænum árangri á þessu sviði. Þremur dögum síðar var búið að koma upp hópi höfunda, farið var að búa til bréf og myndskreytingar og til varð nýr og lifandi fundarstaður sem ekki hafði verið til áður.

 

„På tværs af Norden“ er fyrst í röð þriggja sýnisbóka verkefnisins sem stendur yfir árin 2019- 2021. Þetta er hluti af áætlun norrænu menningarmálaráðherranna um barna og unglingabókmenntir, „LØFTET“, sem staðið hefur síðan 2013 þegar Barna- og unglingabókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót.