Joanna Rubin Dranger hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023
Joanna Rubin Dranger veitti verðlaununum viðtöku við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Norska óperu- og balletthúsinu í Ósló á þriðjudagskvöld. Menningarmálaráðherra Noregs, Lubna Jaffery, afhenti verðlaunin. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur.
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Samtals voru 14 verk sem tilnefnd voru til bókmenntaverðlaunanna í ár.
Rökstuðningur dómnefndar
Þegar Joanna Rubin Dranger var rétt komin af unglingsaldri framdi Susanne, ástkær móðursystir hennar, sjálfsmorð. Í bókinni Ihågkom oss till liv („Mundu okkur til lífs“, óþýdd), verki sem fer þvert á bókmenntagreinar og hefur nú hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023, lýsir Rubin Dranger því í texta og myndum hvernig hún byrjar, mörgum árum síðar, að grafast fyrir um þá atburði sem leiddu til sjálfsvígs móðursysturinnar. Þessar athuganir verða til þess að rjúfa þá þögn og þær endurskrifanir á veruleikanum sem réðu ríkjum í uppvexti hennar, þar sem ættingjar voru einfaldlega sagðir „horfnir“ – eða alls ekki nefndir á nafn. Leitin leiðir hana á slóðir gyðingaofsóknanna sem áttu sér stað í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar og í styrjöldinni sjálfri í Þýskalandi, Póllandi, Litháen og Rússlandi – en einnig að gyðingahatri og undirlægjuhætti í löndum Skandinavíu og þeim eyðileggingaráhrifum sem þar hlutust af tregðunni til að rétta fram hjálparhönd. Og að þeirri óvæntu gleði sem felst í því að hitta ættingja sem komust lífs af í Bandaríkjunum og Ísrael.
Þetta er í senn rannsóknar- og bókmenntaverkefni og útkoman er falleg bók sem kölluð er heimildaskáldsaga á kápunni en er þó miklu meira en það: myndasaga, söguleg frásögn, nokkurs konar dagbók höfundar og sjálfsævisaga þar sem einkalífi sögumanns er fléttað saman við stórviðburði úr sögunni. Höfundur fléttar ljósmyndir saman við teikningar, vatnslitamyndir og texta svo að úr verður nánast yfirþyrmandi áhrifamikil frásögn sem er einstök sinnar tegundar en byggir áfram á hefð sem til teljast sígild verk á borð við Maus eftir Art Spiegelman og Persepolis eftir Marjane Satrapi. Rubin Dranger beinir sjónum okkar beint inn í myrkrið, myrkur mannkynssögunnar og jafnframt það myrkur sem hún uppgötvar fljótlega í eigin sálarfylgsnum – og sýnir hvernig áfallið sem þessir atburðir ollu heldur áfram að hafa áhrif, kynslóð fram af kynslóð.
Fyrst og fremst er bókin svar við ákalli úr gamalli gyðingabæn um að lífga hin látnu við með því að muna þau. Þegar Rubin Dranger kemst að því að lítill drengur í ættinni var myrtur og að enginn man lengur nafn hans býður hún lesandanum með sér í örvæntingarfulla leit að svörum. Skyndilega skiptir það hana öllu máli að komast að nafni drengsins, og þegar hún veit það loksins upplifa bæði hún og lesandinn hve mikilvægt það er að muna og sýna það sem horfið er – að þannig má teygja sig aftur í tímann, gegnum áratugina og leiðrétta hluti. Það að skrifa og teikna sögu hinna horfnu gerir bókina að andspyrnuaðgerð sem nálgast hugsunarhátt töfranna: nasistarnir máðu út þetta fólk og líf þess, en Rubin Dranger særir það fram úr gleymskunnar dái. Með því að skrá nöfn hinna myrtu og teikna upp af kostgæfni ljósmyndir og portrettmyndir af þeim er hægt að endurskapa þau eftir dauðann. Ekki er unnt að breyta sögunni eftir á, en hin látnu öðlast líf þegar við minnumst þeirra.