Skortur á yfirsýn yfir glötuð veiðarfæri á Norðurlöndum

17.04.20 | Fréttir
Fåglar och trasiga fisknät
Photographer
Foto: Arild Hareide, Runde Miljøsenter
Glötuð og ónýt veiðarfæri liggja í tonnatali á hafsbotninum úti fyrir ströndum norrænu landanna. Fiskur festist enn í sumum þeirra. Önnur verða að plastögnum sem enda í maga fiska og sjófugla. „Þetta ástand sæmir ekki Norðurlöndum árið 2020,“ segir Gjermund Langedal, verkefnisstjóri hjá Clean Nordic Oceans.

Athugun 1: Norrænu löndin hafa enga yfirsýn yfir það magn veiðarfæra sem liggur á víð og dreif um hafsbotninn.

Athugun 2: Norrænu löndin hafa enga viðbragðsáætlun svo heitið geti til að takast á við vandann.

Norræna samstarfsnetið Clean Nordic Oceans er ómyrkt í máli í nýútkomnu stefnuskjali.

„Við höfum verið eins skorinorð og okkur er unnt án þess að gagnrýna löndin harðlega. Við beinum máli okkar að áhrifafólki á sviði umhverfis- og fiskveiðistjórnunar í öllum norrænu löndunum,“ segir Gjermund Langedal.

Siðferðislegt vandamál

Athygli alþjóðasamfélagsins hefur beinst í vaxandi mæli að úrgangi í hafinu og það hefur orðið til þess að virkja borgarana, meðal annars með ruslatínslu sjáfboðaliða á ströndum.

En samkvæmt samstarfsnetinu Clean Nordic Oceans hefur mengun af völdum glataðra veiðarfæra ekki hlotið verðskuldaða athygli.

„Það kann að stafa af því hve ósýnilegur vandinn er. Hann kemur ekki beint við þig eða mig. En að láta glötuð veiðarfæri liggja á hafsbotninum þar sem fiskur festist áfram í þeim er bæði siðlaust og auðlindasóun. Og þar sem mörg þessara veiðarfæra eru úr plasti sem brotnar niður í agnir með tímanum, þá munum við að endingu finna plastið inni í dýrum sem lifa í hafinu og við strendurnar,“ útskýrir Gjermund Langedal.

Skortur á tæknilegum lausnum

Regluverk er þegar til staðar í formi reglugerðar ESB um málið. Samkvæmt henni er þeim sem glatar veiðarfærum skylt að tilkynna það yfirvöldum.

Það sem ekki er til staðar er skilvirkt og einfalt rafrænt kerfi til að tilkynna og skrá glötuð veiðarfæri.

„Fiskimaður í Danmörku veit að tilkynning um glötuð veiðarfæri leiðir ekki til neins konar aðgerða af hálfu yfirvalda. Fiskimennirnir treysta ekki kerfinu og þar með hefur myndast vítahringur.“

Vel heppnað verkefni í Noregi

Í Noregi hefur verið komið á kerfi þar sem tilkynning verður í flestum tilvikum til þess að fiskimaðurinn endurheimti veiðarfæri sín.

„Einu sinni á ári láta yfirvöld sækja veiðarfæri sem skráð er að hafi týnst. Þetta skapar traust og hvatningu til að halda áfram að tilkynna um glötuð veiðarfæri,“ segir Gjermund Langedal.

 

Auk þess að byggja upp rafræn kerfi og traust verða löndin að beita sér fyrir því að auka meðvitund og breyta viðhorfum til vandans sem liggur í glötuðum veiðarfærum. Þetta er efst á blaði yfir þau tilmæli sem samstarfsnetið beinir til landanna.

Hér er listi yfir aðgerðirnar:

  • Innleiða lausnir fyrir skráningu á staðsetningu veiðarfæra, svo hún verði sjáanleg öðrum á stafrænu formi
  • Merkja veiðarfæri svo hægt sé að skila týndum veiðarfærum til eigenda
  • Þróa aðferðir til að endurheimta glötuð veiðarfæri
  • Auka þekkingu meðal frístundafiskimanna og bæta verkferla hjá atvinnufiskimönnum
  • Gera fólki kleift að skila inn fundnum og ónýtum veiðarfærum í höfnum

Fróðleikur:

Clean Nordic Oceans var ýtt úr vör af Norrænu ráðherranefndinni árið 2017 undir formennsku Noregs. Samstarfsnetið samanstendur af vísindafólki, aðilum á sviði fiskveiðistjórnunar, fiskimönnum og umhverfissamtökum í öllum norrænu löndunum.