SÞ og Norðurlandaráð ræða meðgöngurofslöggjöf Færeyja

30.06.21 | Fréttir
Færøerne
Photographer
norden.org
Nicole Ameline, skýrslugjafi hjá Sameinuðu þjóðunum, telur ekki að Færeyjar hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt kvennasáttmála SÞ (CEDAW) hvað varðar rétt færeyskra kvenna til meðgöngurofs. Þetta kom fram á fundi velferðarnefndar Norðurlandaráðs, þar sem Ameline ræddi færeyska löggjöf um meðgöngurof við fulltrúa færeyskra samtaka og þingmenn velferðarnefndarinnar. Meirihluti þingmanna nefndarinnar greiddi atkvæði með því að ekki skyldi vinna áfram með málið á vettvangi norræns samstarfs, en telur mikilvægt að það verði rætt í Færeyjum.

Í pólitísku starfi sínu hefur velferðarnefnd Norðurlandaráðs meðal annars lagt áherslu á jafnrétti og heilbrigði fyrir alla Norðurlandabúa. Þess vegna lætur nefndin meðgöngurofslöggjöf í Færeyjum sig varða. Kvennasáttmáli SÞ (CEDAW) telur ekki að Færeyingar hafi staðið við skuldbindingar sínar varðandi rétt færeyskra kvenna til meðgöngurofs og því var Nicole Ameline, skýrslugjafa hjá SÞ, boðið til fundar ásamt nefndinni til að varpa frekara ljósi á málið. Nicole Ameline sagði á fundinum að færeysk löggjöf um meðgöngurof hefði réttindi kvenna að engu. Þess utan gæti löggjöfin orðið til þess að konur leituðu annarra lausna til að rjúfa meðgöngu, sem gæti stofnað heilsu þeirra í hættu og gert þær að lögbrjótum. Nicole Ameline mælir því með að Færeyingar breyti löggjöf sinni og segir:     


„Kyn- og frjósemisréttindi eru grundvallarréttindi. Að vanvirða slík réttindi er ein birtingarmynd kynbundins ofbeldis og brot á kvenréttindum,“ segir skýrslugjafi SÞ. 

 

Innri málefni Færeyja

Færeyska félagsmálaráðuneytið tók ekki þátt í fundinum og vísaði til þess að ráðuneytið samþykkti ekki að Færeyingar hefðu gerst sekir um brot á sáttmálanum. Félagsmálaráðuneytið bendir ennfremur á að málið sé talið til innri málefna Færeyja og því ekki álitið heyra undir opinbert norrænt samstarf. Þegar málið var rætt í velferðarnefnd Norðurlandaráðs greiddi meirihluti atkvæði með því að vinna ekki áfram með málið. Formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, Bente Stein Mathiesen, segir: 
 

„Norðurlandaráð ber virðingu fyrir sjálfstjórn Færeyja og hefur meðal annars hlustað á óskir hinna færeysku meðlima nefndarinnar um að Færeyingar taki sjálfir á málinu. Fyrir mér er nefnd okkar í Norðurlandaráði vettvangur þar sem ræða má málefni er varða norræna borgara svo að stjórnmálamenn geti lært hver af öðrum, og hvatt hver annan áfram, þvert yfir landamæri. Það er okkur fagnaðarefni að geta stuðlað að því að endurvekja umræðuna um meðgöngurofslöggjöf, og við vonum að Færeyingar haldi henni gangandi heima fyrir. En þetta er flókið mál og meirihluti hefur greitt atkvæði með því að vinna ekki frekar að því á okkar vettvangi.“ 

 

Andstæðir pólar í tilfinningaþrunginni umræðu

Á fundi dagsins mátti hlýða á erindi frá fulltrúum færeysku jafnréttisnefndarinnar, Færeysku siðferðisnefndarinnar og Amnesty í Færeyjum. Erindin drógu upp margslungna mynd af málinu sem varðar meðal annars menningu, trúarbrögð, jafnrétti og mannréttindi. Þetta sagði Færeyska siðferðisnefndin: 


„Helsta spursmálið í umræðunni um meðgöngurof varðar það hvort leggja eigi áherslu á rétt fóstursins eða rétt konunnar. Í þeim löndum þar sem meðgöngurof er frjálst er áhersla lögð á rétt konunnar. Í færeyskri löggjöf er ríkari áhersla lögð á rétt fóstursins. Það er hægt að láta rjúfa meðgöngu í Færeyjum, en viss skilyrði þurfa þó að teljast uppfyllt áður en leyfi er veitt. Það sem er sársaukafullt við umræðuna er hve mikið er í húfi. Erfitt er að verja eina afstöðu án þess að vanvirða aðra,“ segir formaður Færeysku siðferðisnefndarinnar, Anne Mette Greve Klemensen. Hún tekur ekki afdráttarlausa afstöðu í málinu en segist vonast eftir góðri umræðu. Um þá von ríkti víðtæk samstaða.   
   
 

Norðurlandaráð æskunnar vill lagabreytingu 

Norðurlandaráð æskunnar, sem einnig tók þátt í fundinum, hefur oftsinnis samþykkt sínar eigin ályktanir um „frjálst meðgöngurof á öllum Norðurlöndum“, sem liggur til grundvallar í afstöðu Norðurlandaráðs æskunnar til meðgöngurofslöggjafar. Anna Falkenberg, fulltrúi í Norðurlandaráði æskunnar sem sjálf er frá Færeyjum, fagnar því að áhersla nefndarinnar á málið hafi glætt umræðuna, en telur þó eiga að vinna áfram með það á færeyskum vettvangi. Hún segir:


„Í grunninn lít ég svo á að breyta ætti færeyskri löggjöf um meðgöngurof svo að valið verði raunverulega í höndum konunnar. Málið snýst um jafnrétti innan heilbrigðiskerfisins, þar sem færeyskar konur njóta nú ekki sömu réttinda og konur í öðrum norrænum löndum.“ Þetta tók jafnréttisformaður velferðarnefndarinnar, Nina Sandberg, undir. Hún greiddi atkvæði með því fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna að vinna áfram að málinu.