Stjórnsýsluhindranaráðið fjallar um skattamál og starfsmenntun árið 2022

10.02.22 | Fréttir
Vibeke Hammer Madsen är ordförande för Gränshinderrådet under 2022.

Vibeke Hammer Madsen

Photographer
Matts Lindqvist / Norden.org

Vibeke Hammer Madsen (fyrir miðju til hægri) er formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2022.

Stafræn þróun, skattamál og gagnkvæm viðurkenning á norrænum starfsréttindum eru helstu verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins á þessu ári. Auk þess að takast á við afleiðingar heimsfaraldursins. Þetta kemur fram í viðtali við Vibeke Hammer Madsen, nýjan formann Stjórnsýsluhindranaráðsins.

„Heimsfaraldurinn hefur séð Stjórnsýsluhindranaráðinu fyrir ærnum viðbótarverkefnum á undanförnum tveimur árum. Og þeim er ekki lokið,“ segir Vibeke Hammer Madsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins en hlutverk þess er að stuðla að frjálsri för bæði íbúa og fyrirtækja milli Norðurlanda.

„Heimsfaraldrinum er ekki lokið en hann hefur haft í för með sér áskoranir sem hamla hreyfanleika á Norðurlöndum. Sumar þessar áskoranir má flokka sem stjórnsýsluhindranir. Hlutverk okkar og skylda er hreinlega að fylgja þeim eftir og sjá hvernig við getum búið okkur betur undir næsta faraldur,“ segir Vibeke Hammer Madsen.

Áhersla á heildstæða málaflokka

En Stjórnsýsluhindranaráðið mun sinna ýmsum öðrum verkefnum en þeim sem tengjast heimsfaraldrinum á þessu ári. Enn eru óleystar ýmsar stjórnsýsluhindranir sem voru til staðar fyrir faraldurinn. Auk þess leggur stjórnsýsluhindranaráðið áherslu á nokkra heildstæða málaflokka, það er að segja stærri svið sem hamla frjálsri för.

Vibeke Hammer Madsen nefnir þrjá stóra málaflokka þar sem þarf að gera átak árið 2022 en þetta eru stafræn þróun, gagnkvæm viðurkenning á menntun og starfsréttindum á Norðurlöndum og skattamál. Skattamálin hafa orðið sérstaklega aðkallandi í heimsfaraldrinum þegar fólki var gert að vinna að heiman en óljóst var í hvaða landi ætti að skattleggja vinnuferðalanga.

„Ég segi ekki að við þurfum að endurnýja alla tvísköttunarsamninga milli Norðurlanda en við verðum að geta leyst vandkvæði sem gamlir tvísköttunarsamningar fela í sér, til dæmis þegar um er að ræða heimaskrifstofur vinnuferðalanga. Þetta varð augljóst í heimsfaraldrinum og vandinn er enn óleystur nú þegar samspil heimaskrifstofu og vinnustaðar verða algengari.

Leggur mikla áherslu á samstarf

Vibeke Hammer Madsen leggur áherslu á að meginverkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins sé að norræna framtíðarsýnin verði að veruleika, að stuðla að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir 2030. Því vill hún ná fram með því að efla samstarf um afnám stjórnsýsluhindrana.

Hún vill virkja alla hagaðila sem vinna að þessum málefnum, til að mynda upplýsingaþjónustuna Info Norden, upplýsingaskrifstofur á landamærasvæðum, öll fagsvið og stofnanir Norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráð og Norðurlandaráð æskunnar.

Vibeke Hammer Madsen er hæfilega bjartsýn á þann árangur sem næst á árinu 2022.

„Við afnemum ekki allar hindranir en ég vona að við munum sjá árangur í hinum þremur heildstæðu málaflokkum í upphafi árs 2023. Ég vona ekki síst að við náum langt á sviði fagmenntunar og viðurkenningar á starfsréttindum milli landa vegna þess að sá vandi virðist ekki vera óleysanlegur. Við þurfum aðeins svolítinn velvilja. Og við munum á árinu geta afnumið sumar stjórnsýsluhindranir sem nú eru skráðar.

Áhersla á atvinnulífið

Áhersla á fyrirtækin mun aukast undir stjórn Vibeke Hammer Madsen. Hún er þekkt í norsku atvinnulífi, hefur verið framkvæmdastjóri Virke, samtaka atvinnurekenda, í áraraðir og heldur því áfram samhliða störfum sínum í Stjórnsýsluhindranaráðinu.

„Mikið hefur verið talað um íbúa landanna og áskoranir þeirra þegar þeir þurfa að fara yfir landamæri. Í framhaldinu þegar við fylgjum eftir vandamálum af völdum heimsfaraldursins hef ég einnig hug á að kanna hvað Stjórnsýsluhindranaráðið getur gert til að leysa áskoranir fyrirtækjanna.

Hún stefnir einnig að því að málin gangi hraðar fyrir sig á árinu.

„Ég kem úr atvinnulífinu og er þess vegna nokkuð óþolinmóð. Hvað það varðar verður starfið með Stjórnsýsluhindranaráðinu mér nokkur áskorun. Í stjórnmálum geta mál tekið óhemju langan tíma,“ segir Vibeke Hammer Madsen.

- Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum.

- Stjórnsýsluhindranaráðið hefur fengið öflugra umboð á þessu ári sem felur í sér að hægt er að bregðast hratt og með markvissum hætti við á krepputímum þegar þrengt er að frjálsri för.

- Venjan er að Stjórnsýsluhindranaráðið hefji starfsárið með upphafsfundi. Á þessu ári var sá fundur rafrænn og haldinn 9. febrúar.