Stjórnsýsluhindranaráðið í bréfi til forsætisráðherranna: Mótið norræna stefnu fyrir hættuástand!

15.06.20 | Fréttir
Bertel Haarder vid Nordiska Rådets session i Stockholm
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg

Bertel Haarder er formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2020.

Mótið norræna stefnu fyrir hættuástand í framtíðinni og upplýsið nágrannalöndin með góðum fyrirvara ef þið hyggist hindra frjálst flæði yfir landamærin. Þessi hvatningarorð koma fram í bréfi Stjórnsýsluhindranaráðsins til norrænu þjóðarleiðtoganna. Ráðið hefur ennfremur skrifað fjármálaráðherrunum og hvatt þá til að finna lausn á því hvernig haga skuli skattlagningu fólks sem alla jafna sækir vinnu yfir landamæri en hefur þurft að vinna heima vegna kórónuveirunnar.

Verkefni stjórnsýsluhindranaráðsins er að greiða götu frjálsrar farar á Norðurlöndum. Í ástandinu sem skapast hefur vegna kórónuveirunnar hafa norrænu löndin innleitt ýmsar hömlur sem torvelda hreyfanleika yfir landamæri landanna.

Þetta vill Stjórnsýsluhindranaráðið varast í framtíðinni og biðlar því til forsætisráðherranna í von um samstarf áður en næsta hættuástand kemur upp. Í bréfi sínu til forsætisráðherranna bendir ráðið á að heimsfaraldurinn hafi reynt mikið á fólk sem sækir vinnu yfir landamæri og einnig orðið til þess að starfið að afnámi stjórnsýsluhindrana hafi farið út af sporinu, einkum með hliðsjón af framtíðarsýn forsætisráðherranna um að gera Norðurlönd að samþættasta og sjálfbærasta svæði heims.

„Við, fulltrúar landanna í hinu norræna Stjórnsýsluhindranaráði, hvetjum því forsætisráðherrana til að móta samnorræna stefnu svo að löndin verði betur í stakk búin að takast á við hættuástand í framtíðinni,“ segir í bréfi Stjórnsýsluhindranaráðsins.

Einnig vill ráðið að löndin upplýsi hvert annað með góðum fyrirvara, hyggist þau hindra frjálst flæði yfir landamærin. Með því hefðu löndin möguleika á að draga úr neikvæðum áhrifum á fólk sem sækir vinnu yfir landamæri.

Leysa þarf vandamál tengd skattlagningu

Stjórnsýsluhindranaráðið hefur einnig skrifað norrænu fjármálaráðherrunum um það að heimsfaraldur kórónuveirunnar kunni að koma bæði einstaklingum og fyrirtækjum sem starfa þvert á landamæri í stjórnsýslulega skattaklemmu.

Yfirleitt er fólk skattskylt í því landi sem það starfar í, þótt það búi annars staðar. Ein afleiðing af ákvörðunum landanna hefur verið að fólk sem alla jafna starfar í öðru landi sinnir nú fjarvinnu í heimalandi sínu. Það hefur í för með sér skattlagningu í tveimur löndum, sem fólk verður jafnvel ekki vart við fyrr en á næsta ári þegar það þarf skyndilega að telja fram til skatts í tveimur löndum.

„Þetta skapar einstaklingum, fyrirtækjum og skattayfirvöldum aukið álag og fyrirhöfn, alveg að óþörfu. Á undanförnum áratugum höfum við byggt upp samstarf norrænu landanna, einkum á landamærasvæðunum, sem hefur greitt fyrir því að fólk geti starfað þvert á landamæri. Frjáls för er hornsteinn í norrænu samstarfi og við megum ekki láta ástandið vegna kórónuveirunnar grafa undan því. Við verðum að leysa þennan vanda,“ segir Bertel Haarder, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins og þingmaður á danska þinginu.

Lýsa eftir lausnum

Í bréfi sínu hvetur Stjórnsýsluhindranaráðið ráðherrana til að hefja umræðu um að leita lausna.

„Lausnin er að þið, norrænu ráðherrarnir á sviði skatta- og fjármála, takið sameiginlega ákvörðun um að undantekning verði gerð fyrir fólk sem hefur þurft að vinna heima í búsetulandi sínu svo að það verði áfram skattskylt í landinu þar sem það vinnur alla jafna. Um væri að ræða svipaða undantekningu og gerð var milli norrænu landanna vegna almannatrygginga heimavinnandi fólks,“ segir í bréfinu.

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.