Stjórnsýsluhindranaráð: Vill undanþágu frá skattareglum fyrir vinnuferðalanga
Bertel Haarder formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins hefur fyrir hönd ráðsins alls sent ráðherrunum bréf þar sem vakin er athygli á þessu máli. Þetta er í annað sinn sem Stjórnsýsluhindranaráðið biður fjármála- og skattaráðherrana að veita vinnuferðalöngum undanþágu. Í fyrra skiptið höfnuðu sænski, danski og finnski ráðherrann því að veita undanþágu en lofuðu að halda samtalinu áfram.
Vandinn snýr að heimavinnu í faraldrinum og í hvoru landinu á að skattlegja vinnuna. Samkvæmt norræna tvísköttunarsamningnum eiga vinnuferðalangar að greiða skatta í því landi sem þeir starfa. Í faraldrinum hafa margir vinnuferðalangar unnið heima að ósk atvinnurekenda sem leiðir þá til þess að viðkomandi á að greiða skatta í því landi sem hann á heima, hvern dag sem vinnan er stunduð að heiman.
Á Eyrarsundssvæðinu gildir sérstakur skattasamningur, Eyrarsundssamningurinn, sem felur í sér að almennu reglurnar eigi ekki við ef vinnuferðalangur vinnur heima meira en 50% þriggja mánaða tímabils. Þá á að greiða skatta í því landi sem viðkomandi er búsettur.
Engin tvísköttun
Stjórnsýsluhindranaráðið bendir á að ef ekki verði veittar undanþágur kalli það á aukna umsýsluvinnu bæði fyrir einstaklinga og skattayfirvöld. Afleiðingarnar geta einnig orðið þær að skattar verði mun hærri hjá vinnuferðalöngum, jafnvel þótt ekki sé um tvísköttun að ræða.
Í seinna bréfi Stjórnsýsluhindranaráðsins segir að faraldurinn haldi áfram og það hafi í för með sér áframhaldandi og aukinn vanda fyrir vinnuferðalanga. Þess vegna vill ráðið að ráðherrarnir taki málið upp að nýju. Í bréfinu er vísað til þess að hægt hafi verið að leysa svipaðan vanda til dæmis í Lúxemborg þar sem gert hefur verið samkomulag við grannlöndin.
„Við óskum eftir því að fjármálaráðherrarnir ræði enn og aftur saman um þennan vanda og taki ákvörðun um að veita tímabundna undanþágu. Þetta hefur tekist annars staðar í Evrópu og það hlýtur að vera hægt að gera þetta líka hér á Norðurlöndum,“ segir Bertel Haarder, formaður Stjórnsýsluhindranaráðs og einnig þingmaður á danska þinginu og áður ráðherra til margra ára.
„Skattamálið veldur pirringi“
Bertel Haarder undirstrikar að norrænu ráðherrarnir sem bera ábyrgð á almannatryggingum hafi komið sér saman um að veita undanþágu fyrir vinnuferðalanga í faraldrinum. Samkvæmt þeirri undanþágu gilda reglur starfslandsins um vinnuferðalanga þrátt fyrir að þeir vinni að heiman í faraldrinum. Hægt væri að nota sama líkan á sviði skattamála.
„Skattamálið veldur pirringi og óróa hjá vinnuferðalöngum. Það er erfitt fyrir vinnuferðalanga og fyrirtæki að gera sér grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum heimavinnu sem ekki var sóst eftir. Nú hafa bæst við áhyggjusamlegar fréttir af því að vinnuferðalangar ferðist til vinnustaða sinna bæði í Danmörku og Svíþjóð til þess að eiga það ekki á hættu að vera skattlagðir í því landi sem þeir eiga heima. „Þetta er í andstöðu við sóttvarnartilmæli landanna en skiljanlegt í ljósi þess að fólk vill ekki taka áhættu með afkomu sína við þessar erfiðu aðstæður,“ segir Bertel Haarder.