Verðlaun Norðurlandaráðs: Kynnist hinum tilnefndu í Helsingfors

25.10.22 | Fréttir
Biblioteket Ode i Helsingfors
Ljósmyndari
Fotograf: Ode/Kuvio

Bókasafnið Ode í Helsingfors þar sem hægt verður að taka þátt í pallborðsumræðum með þeim sem tilnefnd eru til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 31. október.

Í næstu viku verður hægt að kynnast nokkrum af áhugaverðustu rithöfundum, tónskáldum, kvikmyndagerðarmönnum og frumkvöðlum á Norðurlöndum í Helsingfors. Þau sem tilnefnd eru til verðlauna Norðurlandaráðs taka þátt í nokkrum viðburðum dagana fyrir verðlaunahátíðina 1. nóvember.

Hvernig er að búa til kvikmyndir á Norðurlöndum í dag? Hvernig semur maður tónlist sem innlegg eða viðbrögð við ástandið í heiminum? Hvernig geta náttúrumiðaðar lausnir mætt þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir. Þetta eru nokkrar af þeim spurningum sem verða á dagskrá þar sem þeim norrænu verkum, verkefnum og listafólki sem tilnefnt er árið 2022 verður gert hátt undir höfði.

Dagskráin inniheldur upplestra, pallborðsumræður og samtöl og hefst 30. október á bókamessunni í Helsingfors með þeim sem tilnefnd eru til bókmenntaverðlauna ársins.

Öll eru velkomin og ókeypis er á flesta viðburðina en ætlast er til að þátttakendur skrái sig til að taka frá sæti.

Allar tímasetningar miðast við finnskan tíma (CET +1).
 

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022: Kynnist hinum tilnefndu

Höfundarnir sem tilnefndir eru til bókmenntaverðlaunanna taka þátt í þremur pallborðsumræðum á bókamessunni í Helsingfors. Miða er krafist.

  • Tími: 30. október, kl. 14.30–17.00 
  • Staður: Bókamessan í Helsingfors, Mässcentrum, Mässplatsen 1, 00520 Helsingfors 
     

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022: Kynnist hinum tilnefndu

Þema umhverfisverðlaunanna í ár er náttúrumiðaðar lausnir. Á viðburðinum mun Marianne Sundholm, þáttastjórnandi og fréttakona hjá Svenska Yle, leiða umræður með þeim sex sem tilnefnd er um vinnu þeirra. Hægt verður að fylgjast með beinu streymi.

  • Tími: 31. október, kl. 16.00–17.30 
  • Staður: Norræna menningargáttin, Kajsaniemigatan 9, 00170 Helsingfors 

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2022: Kynnist hinum tilnefndu

Hvað er að gerast í norrænni kvikmyndagerð í dag og hvernig tryggjum við að kvikmyndirnar okkar eigi erindi í framtíðinni? Fylgist með kvikmyndagerðarfólkinu sem tilnefnt er ræða um tilurð mynda sinna. Fundarstjóri er Liselott Forsmann, framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

  • Tími: 31. október, kl. 16.30–17.30 
  • Staður: Kino Regina / Centrumbibliotek Ode, Tölöviksgatan 4, 00100 Helsingfors 

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022: Kynnist hinum tilnefndu

Upplestrar og umræður ásamt þeim höfundum og myndskreytum sem tilnefndir eru til barna- og unglingabókmenntaverðlaunanna í ár.

  • Tími: 1. nóvember kl. 9.30–11.30

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2022: Kynnist hinum tilnefndu

Hvernig nýtir maður söguna til að endurspegla nútímann í gegnum tónlist? Heyrið frásagnir tónskáldanna sjálfra af tónlistinni og verkunum sem tilnefnd eru. Fundarstjóri verður Matti Nives frá Radio Helsinki og dagskránni lýkur með pallborðsumræðum.

  • Tími: 1. nóvember kl. 10.00–11.30 
  • Staður: G Livelab, Georgsgatan 3, 00120 Helsingfors 
     

Bein útsending frá verðlaunahátíðinni í öllum norrænu löndunum

Verðlaunahafar Norðurlandaráðs verða afhjúpaðir í beinni útsendingu á verðlaunahátíð í Musikhuset í Helsingfors hinn 1. nóvember. Kynnar verða Andrea Reuter og Christoffer Strandberg og á meðal þeirra sem afhenda verðlaunin verða tónlistarkonan og fyrrum handhafi verðlaunanna Eivør og ljóðskáldið Jenni Haukio.

Bein útsending hefst frá Musikhuset í Helsingfors kl. 20.00 (að finnskum tíma / CET +1) og verður hægt að fylgjast með henni á YLE Teema / YLE í öllum norrænu löndunum fimm.

Fyrir fjölmiðla

Verðlaun Norðurlandaráðs 2022 verða afhent 1. nóvember klukkan 19.50 að finnskum tíma í Musikhuset í Helsingfors. Strax að athöfn lokinni verður hægt að taka myndir og viðtöl við verðlaunahafana. Eingöngu þeir blaðamenn sem skráðir eru á þing Norðurlandaráðs eiga tækifæri á að verða viðstaddir verðlaunaafhendinguna. Blaðamenn þurfa að skrá sig í síðasta lagi 28. október klukkan 14.00 (að finnskum tíma). Gilds blaðamannaskírteinis er krafist.