Við verðum að fyrirbyggja ójöfnuð í komandi kreppum

25.05.20 | Fréttir
.
Ljósmyndari
AaAbacaRitzau Scanpix
Á krepputímum verður fólk sem þegar glímir við félagslegan eða heilsufarslegan vanda verst úti. Norrænu ríkin geta spornað gegn þessu með því að miðla reynslu sinni úr kórónukreppunni, að mati velferðarnefndar Norðurlandaráðs. 

- Fjölskyldur með fíknivanda, ungmenni í sjálfsvígshættu og konur sem búa við ofbeldi eru meðal þeirra sem kórónukreppan leikur illa. Við eigum að læra af þessari reynslu og koma okkur upp betri viðbúnaði fyrir kreppur framtíðar, segir Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar Í sameiginlegri yfirlýsingu hvetur nefndin til aukins norræns samstarfs á velferðarsviði.

 

Við þurfum að stemma stigu við ofbeldi gegn konum

Yfirlýsing velferðarnefndarinnar kemur í kjölfar fundar norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál þann 12. maí síðastliðinn. Þar lýstu ráðherrar jafnréttismála yfir vilja til koma upp betri neyðarviðbúnaði, með áherslu á að tryggja jafnrétti kynjanna og vernda viðkvæma hópa. Nina Sandberg, sem situr í nefndinni, fagnar yfirlýsingu ráðherranna og segir:

- Norðurlönd eru af mörgum talin langt á veg komin með að jafna stöðu kynjanna. Því miður erum við ekki komin nógu langt. Það sést greinilega í kórónukreppunni, meðal annars í því að heimilisofbeldi gegn konum hefur aukist. Þörf fyrir alþjóðlegt samstarf er enn greinilegri en fyrr nú á tímum kórónufaraldursins. Við viljum koma í veg fyrir að kreppur ýti undir félagslegan ójöfnuð og ójafnrétti kynjanna. Viðbúnaðarnefnd myndi stuðla að því að gera Norðurlönd að opnu, samfelldu svæði þar sem jafnrétti ríkir.

Fjölskyldur með fíknivanda, ungmenni í sjálfsvígshættu og konur sem búa við ofbeldi eru meðal þeirra sem kórónukreppan leikur illa. Við eigum að læra af þessari reynslu og koma okkur upp betri viðbúnaði fyrir kreppur framtíðar

Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar

Atvinnuleysi gæti aukist meðal ungmenna

Kórónukreppan hefur einnig neikvæðar afleiðingar fyrir börn og ungmenni. Norðurlandaráð æskunnar segir ýmislegt benda til þess að afleiðingarnar séu verri fyrir þau sem þegar eiga erfitt uppdráttar.

- Jaðarsett börn og ungmenni, til dæmis þau sem búa við misnotkun fíkniefna eða geðræn vandamál á heimilinu, eiga sérstaklega erfitt á tímum kórónuveirunnar. Með hjálp norræns samstarfs, þurfum við að gera betur sem samfélög í að vernda þessi börn og ungmenni í kreppum framtíðar. Við styðjum því yfirlýsingu norrænu velferðarnefndarinnar til jafnréttismálaráðherranna, segja þau Dag Henrik Nygård og Margrét Steinunn Benediktsdóttir frá Norðurlandaráði æskunnar.

Yfirlýsingin í heild

Áhrifa kórónukreppunnar gætir á öllum sviðum samfélagsins og hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir mannkynið allt. Okkur á Norðurlöndum ber skylda til að draga lærdóm af þeirri þekkingu og reynslu sem nú þegar hefur skapast um afleiðingar kórónukreppunnar á velferðarsviði. Við þurfum að læra af viðbrögðum, þekkingu og reynslu hvers annars, svo að þegar næsti faraldur eða önnur kreppa skellur á okkur, séum við betur í stakk búin til að vernda börnin okkar, aldraða og aðra viðkvæma hópa, ásamt því að tryggja að jafnrétti kynjanna sé haft í öndvegi, líka á krepputímum.

 

Aukið atvinnuleysi og aukin neysla áfengis og annara vímugjafa eru augljós einkenni samfélagskreppu. Önnur einkenni eru ekki jafn augljós, sérstaklega meðal barna í jaðarsettum fjölskyldum, kvenna sem búa við heimilisofbeldi og fólks með geðrænan vanda. Þessum hópum hefur ástandið reynst sérstaklega erfitt. Lokanir dagvistunarúrræða, skóla og annarrar þjónustu fyrir börn og ungt fólk hafa gert það erfiðara að koma auga á vanlíðan hjá börnum og ungmennum og að rétta út hjálparhönd. Neyðarathvörf fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi eru yfirfull og margir glíma við einmanaleika og almennt slæma geðheilsu.

Víða um Norðurlönd hafa stuðningskerfi sem viðkvæmir hópar treysta á orðið tímabundið óvirk og fólk því skilið eftir í frjálsu falli með engin bjargráð. Kreppan hefur einnig haft áhrif á jafnrétti kynjanna innan heimilisins og álag vegna heimakennslu og umönnun barna hefur í mörgum tilfellum lent á herðum kvenna, sem einnig hafa þurft að sinna eiginlegum störfum sínum.

 

Öll norrænu ríkin hafa eyrnamerkt fé aðgerðum til að mæta þessum áskorunum og vonast til að geta dregið úr afleiðingunum bæði til skamms og langs tíma. Norræna velferðarnefndin fagnar öllu frumkvæði sem miðar að því að draga úr afleiðingum kreppunnar á sviðum félags-, heilbrigðis- og jafnréttismála. Kórónukreppan virðir ekki landamæri og dregur fram nauðsyn þess að norrænu ríkin samhæfi og samræmi aðgerðir sínar. Nefndin styður því eindregið að komið sé á fót óháðri, norrænni viðbúnaðarnefnd.

 

Norræna velferðarnefndin, Norðurlandaráði