Koma þarf sýklalyfjaónæmi ofar á dagskrá

26.05.21 | Fréttir
Vaccine
Ljósmyndari
Johannes Jansson
Formennska Dana í Norðurlandaráði og norræna velferðarnefndin skora á þjóðþing norrænu landanna að fjalla um sýklalyfjaónæmi og ræða þann möguleika að þróa sameiginlega norræna aðgerðaáætlun til að takast á við heilbrigðisógn sem með tímanum gæti skapað meira hættuástand en sú ógn sem heimurinn stendur nú frammi fyrir.

„Þegar árið 2014 vann fyrrum heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, Bo Könberg, skýrslu fyrir norrænu heilbrigðisráðherrana þar sem hann benti á mikilvægi þess að berjast gegn sýklalyfjaónæmi. Þetta er síst minna aðkallandi árið 2021,“ segir Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs. Hann bendir á að sýklalyfjaónæmi sé forgangssvið hjá formennsku Dana í Norðurlandaráði nú í ár og finnst borðleggjandi að formennskan styðji tillöguna: 


„Formennska Dana styður þessa áskorun, sem ég tel að ætti að koma af stað umræðu um sýklalyfjaónæmi og um möguleikann á aðgerðaáætlun á sviðinu. Það á eftir að gagnast hinum 27 milljónum íbúa Norðurlanda og hugsanlega verja okkur fyrir nýrri og kannski langtum alvarlegri heilbrigðisógn en þeirri sem heimurinn stendur nú frammi fyrir,“ segir forseti Norðurlandaráðs.      

Formennska Dana styður þessa áskorun, sem ég tel að ætti að koma af stað umræðu um sýklalyfjaónæmi og um möguleikann á aðgerðaáætlun á sviðinu.

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs

Norðurlönd geta enn brugðist við

Áskorunin til norrænna þingmanna um að setja sýklalyfjaónæmi ofar á hina pólitísku dagskrá er að frumkvæði norrænu velferðarnefndarinnar. Í mörg ár hefur nefndin beitt sér fyrir nánara samstarfi norrænu þjóðþinganna í baráttunni við þennan alvarlega vanda. Vanda sem, að sögn Bente Stein Mathisen, formanni nefndarinnar, á ekki að vanmeta:


„Sem formaður norrænu velferðarnefndinnar hvet ég norræna þingmenn til að taka sýklalyfjaónæmi afar alvarlega. Þessu framtaki er ætlað að vekja umræðu um beinar aðgerðir – bæði til skemmri og lengri tíma. Ef við grípum ekki til aðgerða nú getur þetta ógnað heilsu allrar heimsbyggðarinnar, en til allrar hamingju getur samvinna þvert á Norðurlönd og þvert á fagsvið enn haft áhrif með beinum forvarnaraðgerðum og þróun á nýjum tegundum sýklalyfja.  

 

Ef við grípum ekki til aðgerða nú getur þetta ógnað heilsu allrar heimsbyggðarinnar, en til allrar hamingju getur samvinna þvert á Norðurlönd og þvert á fagsvið enn haft áhrif 

Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar
Sameiginleg fyrirspurn til norrænu þjóðþinganna

Norðurlandaráð hefur haft sýklalyfjaónæmi á dagskránni í mörg ár, eða alveg síðan Bo Könberg gerði úttekt sína á norrænu samstarfi um heilbrigðismál fyrir norrænu heilbrigðisráðherrana árið 2014. Fyrsta ráðlegging hans var á þá leið að norrænu löndin skyldu setja aukinn kraft í aðgerðir sínar til að sporna gegn vaxandi sýklalyfjaónæmi. Nú er nánara norrænt samstarf í heilbrigðismálum mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Heimsfaraldur COVID-19 hefur fært okkur heim sanninn um hversu varnarlaus við erum þegar alvarlegir heimsfaraldrar eru annars vegar.

Í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2021–2024, „Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi“, er talað um nýsköpun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála og baráttu gegn sýklalyfjaónæmi sem mikilvæg forgangssvið. Lögð er áhersla á þörfina fyrir þekkingarmiðlun, rannsóknir og nýja hugsun.

Norðurlönd með sínar 27 milljónir íbúa hafa frábærar forsendur hvað snertir rannsóknir, þróun og framleiðslu nýrra lyfja og bóluefna. Lönd okkar búa yfir hæfu fræðasamfélagi, góðum heilbrigðisskrám og góðum efnahag. Málið snýst um pólitískan vilja.

Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á mikilvægi þess að berjast gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum. Mörg þeirra sem veikst hafa af COVID-19 fá fylgikvilla á borð við lungnabólgu. Þá eru sýklalyf lífsnauðsynleg!  

Sýklalyfjaónæmi hefur verið nefnt „loftslagskrísa heilbrigðiskerfisins“. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) deyja að minnsta kosti 700 þúsund manns árlega úr sýklalyfjaþolnum sjúkdómum. Verði nýjar gerðir sýklalyfja ekki þróaðar, og ef sýklalyfjaónæmi eykst enn frekar, mun þessi tala hækka umtalsvert. Um er að ræða „þöglan heimsfaraldur“ sem getur haft mun alvarlegri afleiðingar en COVID-19.

Mikilvægt er að bregðast hratt við nýjum heimsfaröldrum og heilbrigðisógnum. Vinna verður áhættumat og áætlanir. Slíkt framtak gæti falist í nánara norrænu samstarfi og sameiginlegri norrænni aðgerðaáætlun.

Við vitum að hugmyndinni um sameiginlega norræna aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi hefur verið velt upp áður. Svar og mat Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2019 var á þá leið að norræn aðgerðaáætlun myndi ekki skapa virðisauka samanborið við þær aðgerðaáætlanir sem þegar voru fyrir hendi innan landanna og á vettvangi ESB eða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

En heimurinn hefur breyst hratt á undanförnu ári. Er kannski tímabært að endurmeta tólftu tillöguna í Hvítbók Norðurlandaráðs?

Mergurinn málsins er að vera betur í stakk búin til að takast á við nýja faraldra með lífsnauðsynlegum lyfjum og bóluefnum.

Norræna velferðarnefndin hefur ákveðið að beina sameiginlegri fyrirspurn til heilbrigðisráðherranna í norrænu löndunum.

Hyggist þið fylgja eftir tillögunum úr Hvítbók Norðurlandaráðs um sameiginlega norræna aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi?