Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum

Bo Könberg och Kristján Þór Júlíusson
Samstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum byggir að stórum hluta á þeim fjórtán tillögum sem Bo Könberg lagði fram í óháðri skýrslu sinni „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“. Tillögurnar snúast um það hvernig hægt sé að þróa og efla samstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum á næstu fimm til tíu árum.

Skýrslan var afhent heilbrigðisráðherra Íslands 11. júní 2014 og var kynnt á fundi félags- og heilbrigðisráðherra Norðurlanda í október á sama ári. Áður hafði stutt en þétt vinnulota átt sér stað. Á minna en einu ári ferðuðust Könberg og Astrid Utterström, aðalráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, til allra norrænu landanna, auk Álandseyja og Færeyja, og héldu meira en áttatíu fundi með alls um 250 þátttakendum. 

Tveir tengiliðir frá hverju landi tóku þátt í vinnunni og lögðu fram gagnlegar athugasemdir og tillögur meðan á ferlinu stóð.

Fyrirmynd skýrslunnar „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“ var skýrslan „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í utanríkis- og öryggismálum“ sem Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs lagði fram árið 2009. 

Skýrslugerðin var liður í áætlun Norrænu ráðherranefndinnar um Sjálfbæra norræna velferð en það var eitt af stærstu verkefnum Norrænu ráðherranefndarinnar á tímabilinu 2013-2015. Eftir lok gildistíma áætlunarinnar hefur þó áfram verið unnið að því að fylgja eftir tillögunum úr skýrslunni. 

Bo Könberg er frjálslyndur sænskur stjórnmálamaður. Á árunum 1991-1994 var hann ráðherra heilbrigðismála og almannatrygginga í sænsku ríkisstjórninni og stýrði þá endurskoðun á sænska lífeyriskerfinu. Hann hefur átt þátt í mörgum sænskum úttektum á sviði velferðarmála, meðal annars ÄDEL–umbótunum og úttekt á komugjöldum (Vårdavgiftsutredningen).

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið.