Nýjar leiðbeiningar gera Skráargatið enn grænna

01.03.21 | Fréttir
Nordisk nyckelhålsmärkning
Photographer
livsmedelsverket.se
Græna skráargatið hefur í fjölmörg ár einfaldað Norðurlandabúum að velja hollar og góðar vörur. Í dag eru kynntar nýjar reglur um norrænu skráargatsmerkinguna sem hafa það meðal annars í för með sér að fleiri vörur sem eru gerðar úr grænmeti og plöntum geta fengið merkinguna og að auðveldara verður að neyta heilkorna, grænmetis og belgjurta og finna vörur merktar Skráargatinu.

Þetta vinsæla merkingarkerfi er afrakstur vel heppnaðs norræns samstarfs sem hófst árið 2007 með það að markmiði að auðvelda borgurum landanna að borða hollari mat í samræmi við næringarráðleggingarnar landanna. Skráargatið er jákvæð merking sem í stað þess að leiðbeina neytendum um hvað þeir ættu ekki að borða hjálpar þeim að velja heilsusamari kosti innan hvers vöruflokks.

Í dag eru fleiri en 4000 vörur merktar með Skráargatinu, sem nýtur mikils trausts meðal neytenda á Norðurlöndum. Auk þess að leiðbeina neytendum hvetur merkingin einnig til þróunar heilsusamlegra matvæla á Norðurlöndum.

Hollari vörur í innkaupakörfuna

Skráargatsmerkingin er óháð merking sem fyrirtæki sem uppfylla reglur Skráargatsins geta notað án endurgjalds. Yfirvöld landanna vonast til þess að nýju reglurnar stuðli að því að enn fleiri setji holl matvæli í innkaupakörfuna.

„Við vonumst til þess að þröskuldurinn lækki fyrir notkun framleiðanda á merkinu, án þess þó að kröfurnar minnki, og að enn fleiri og jafnvel yngri neytendur kynnist Skráargatinu sem leið til að neyta fjölbreytts og holls fæðis. Skráargatið á að vera einfaldur áttaviti í annríki hversdagsins – óháð því hvort við kaupum inn á netinu eða á búðargólfinu,“ segir Henriette Øien, deildarstjóri hjá Heilbrigðisráðuneytinu í Noregi og stjórnandi norræna vinnuhópsins.

Fleiri vörur úr grænmeti og plöntum

Hér eru nokkrar af mikilvægustu breytingunum og nýju reglunum.

  • Skráargatið fylgir vöruþróun og eftirspurn neytenda. Nýju reglurnar hafa í för með sér að fleiri vörur úr grænmeti og plöntum geta verið merktar með skráagatinu. Þetta þýðir að skráargatið mun ná til fleiri neytenda.
  • Einfaldara verður að finna vörur merktar Skráargatinu. Vinsæl og holl matvæli sem áður gátu ekki fengið skráargatsmerkingu, meðal annars þar sem þær uppfylltu ekki kröfur um skammtastærðir eða pössuðu ekki inn í flokkana, geta nú verið merktar Skráargatinu. Nýju breytingarnar hafa það í för með sér að fleiri vörur geta notað Skráargatið. Einfaldra verður fyrir fólk að fylgja næringarráðleggingum heilbrigðisyfirvalda.
  • Skráargatsvörur stuðla að aukinni neyslu heilkorna, grænmetis og belgjurta. Nýju reglurnar leyfa vörum í flokkum mjöls, grjóna, grauta, brauðs og pasta að skipta hluta korninnihaldsins út fyrir grænmeti og belgjurtir. Þar að auki geta heilkorn, grænmeti og belgjurtir komið í stað hluta kjöts í kjötvörum.
  • Kröfunni um innihald mettaðrar fitu hefur verið breytt úr orkuprósentu í innihald á hver 100 g fyrir tiltekna vöruflokka (tilbúna rétti). Með þessu verður auðveldara að fylgja reglunum við matvælavöruþróun.
  • Framleiðendur sem merkja vörur sínar með Skráargatinu geta verið stoltir af því að stuðla að bættri lýðheilsu með því að auðvelda neytendum að velja góð matvæli og sýna þar með samfélagslega ábyrgð.
  • Frá og með 1. mars 2021 mun ® ekki fylgja á eftir merkinu. Merkja má vörur með ® til 1. september 2024 og leyfilegt verður að selja vörur af lager eftir það.

Um Skráargatið

Skráargatið er merki sem einfaldar fólki að velja hollari matvæli innan matvælaflokka og þar með að koma sér upp hollu og fjölbreyttu mataræði í samræmi við ráðleggingar yfirvalda. Vara sem merkt er með Skráargatinu er því heilsusamlegri kostur innan síns vöruflokks.

Markmið kerfisins er að hvetja matvælaiðnaðinn til að þróa fleiri vörur sem innihalda minni fitu, hollari samsetningu fitusýra, minna salt og sykur og meiri trefjar, heilkorn, grænmeti og ávexti.

 

Staðreyndir um Skráargatið

  • Skráargatið er merking hollari kosta innan vöruflokks.
  • Til að fá merkingu með Skráargatinu þarf matvara að innihalda minna af salti og sykri, minni eða hollari fitu og meiri heilkorn og trefjar en sambærilegar vörur.
  • Skráargatið er meðal annars að finna fyrir brauð, grjón, mjólkurafurðir, olíu og tilbúna rétti.
  • Hægt er að merkja alla ávexti, grænmeti, fisk og magurt kjöt með Skráargatinu.
  • Merking með Skráargatinu er ókeypis og valfrjáls.
  • Framleiðendur matvæla bera ábyrgð á að fylgja reglunum.

 

Sjá nánari upplýsingar um Skráargatið og nýju reglurnar á vefsíðum landanna:

Merkingarkerfi sem er sambærilegt Skráargatinu er notað í Finnlandi, en það er hjartamerking finnsku hjartasamtakanna og samtaka sykursjúkra sem einungis er notuð í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru hér. (sydanmerkki.fi)