Aðstoð vegna hjálpartækja fatlaðra og þjónusta við fatlaða í Finnlandi

Í Finnlandi er leitast við að styðja fólk með fötlun með ýmsu móti. Hér fyrir neðan eru upplýsingar um búferlaflutninga og búsetuform, aðstoðarfólk og hjálpartæki, ökutæki, atvinnu og aðstoð. Einnig er fjallað um innflutning hjálpartækja, lyfja og leiðsöguhunda, auk félagslegrar þjónustu og það hvert beina megi kvörtunum vegna úrskurða.
Flutningur og búseta
Samkvæmt níundu grein Norðurlandasamningsins um félagslega aðstoð og þjónustu eiga viðkomandi yfirvöld á hverjum stað að aðstoða fólk með fötlun við að flytja. Yfirvöld á hverjum stað bera ábyrgð á að sjá til þess að af flutningum geti orðið, svo lengi sem
- viðkomandi flytur af fúsum og frjálsum vilja,
- viðkomandi hefur sérstök tengsl við landið sem flytja á til og
- talið er að lífsgæði viðkomandi muni batna í nýju landi.
Telji fötluð manneskja að flutningar til annars lands muni bæta lífsgæði hennar eru það í sjálfu sér sterk rök fyrir því að flutningar skuli eiga sér stað. Hafðu samband við þitt sveitarfélag til að fá aðstoð við flutninga. Ef þörf krefur skaltu vísa til níundu greinar Norðurlandasamningsins um félagslega aðstoð og þjónustu. Tengiliðaupplýsingar finnskra sveitarfélaga eru á heimasíðu Sambands finnskra sveitarfélaga (Kuntaliitto).
Nánari upplýsingar um líf með fötlun í Finnlandi eru í handbók finnsku heilbrigðis- og velferðarstofnunarinnar um þjónustu við fólk með fötlun.
Almennar upplýsingar um búsetu í Finnlandi eru á síðunni Búseta í Finnlandi.
Yfirvöld á hverjum stað bera ábyrgð á að sjá til þess að flutningar geti orðið að veruleika ef
- viðkomandi flytur af fúsum og frjálsum vilja,
- viðkomandi hefur sérstök tengsl við landið sem flytja á til, og ef
- talið er að lífsgæði viðkomandi muni batna í nýju landi.
Það að manneskja með fötlun telji sjálf að flutningar til annars lands muni bæta lífsgæði hennar eru í sjálfu sér sterk rök fyrir því að flutningar skuli eiga sér stað. Hafðu samband við þitt sveitarfélag til að fá aðstoð við flutninga. Ef þörf krefur skaltu vísa til níundu greinar norræna samningsins um félagslega aðstoð og þjónustu.
Nánari upplýsingar um líf með fötlun í Finnlandi eru í handbók finnsku heilbrigðis- og velferðarstofnunarinnar um þjónustu við fólk með fötlun.
Íbúðir og þjónustuíbúðir fyrir fólk með fötlun
Í sumum sveitarfélögum eru sérstaklega útbúnar íbúðir fyrir fólk með fötlun. Möguleikar á að fá slíka íbúð ráðast að miklu leyti af því í hvaða sveitarfélag er flutt, auk húsnæðisþarfa hvers og eins.
Þegar búseta fólks með fötlun er annars vegar skal taka mið af því að í Finnlandi eiga sveitarfélög að sinna tiltekinni félagsþjónustu óháð fjárveitingum til málaflokksins, sem þýðir að sveitarfélögunum ber skylda til að aðstoða í slíkum málum.
Samkvæmt áttundu grein finnskra laga um þjónustu við fólk með fötlun ber sveitarfélagi að sjá íbúum með erfiðar fatlanir eða sjúkdóma fyrir húsnæði með stuðningi ef viðkomandi, sökum fötlunar sinnar eða veikinda, þarf nauðsynlega á þjónustu að halda til að geta sinnt athöfnum daglegs lífs. Þetta á þó ekki við um fólk sem dvelur á stofnunum.
Séu flutningar framundan er gott að hafa samband við nýja búsetusveitarfélagið og leita upplýsinga um húsnæðismál fatlaðra í því sveitarfélagi. Þú getur einnig beðið núverandi búsetusveitarfélag að hafa samband við það sveitarfélag sem þú hyggst flytja í.
Aðstoðarfólk, hundar og hjálpartæki
Margt fólk með fötlun þarf aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs. Það á að sjálfsögðu einnig við þegar ferðast er eða flutt búferlum.
Persónulegt aðstoðarfólk
Hyggist einstaklingur flytja til annars norræns lands til lengri tíma er hægt að sækja um styrk frá nýja búsetusveitarfélaginu fyrir persónulegri aðstoð. Meðferð umsókna kann að taka langan tíma og því er mikilvægt að hafa samband við nýja sveitarfélagið með góðum fyrirvara.
Sé um að ræða stutta heimsókn til annars norræns lands veita sveitarfélög aðeins styrki vegna aðstoðarfólks ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Það er aðeins í undantekingartilvikum sem sveitarfélög í brottfararlandi veita styrki vegna aðstoðarfólks til stuttra ferða eða námsdvalar í 6 mánuði eða skemur. Nánari upplýsingar um endurgreiðslu flutnings- og ferðakostnaðar veitir þitt búsetusveitarfélag.
Leiðsöguhundur
Í finnskum lögum eru engin sérstök ákvæði um innflutning leiðsöguhunda til Finnlands, heldur lýtur slíkur innflutningur sömu lögum og innflutningur annarra hunda. Um innflutning hunda og þar að lútandi reglur er fjallað á síðunni Að ferðast með hund eða kött til Finnlands.
Aðstoð og hjálpartæki
Ef þú býrð eða starfar í Finnlandi færðu þá aðstoð sem þú þarft á sömu kjörum og fólk með fasta búsetu í landinu almennt.
Dveljir þú tímabundið í Finnlandi færðu nauðsynlega læknisaðstoð og hjálpargögn á sama hátt og á sama verði og fólk með fasta búsetu, að því gefnu að þú framvísir evrópsku sjúkratryggingakorti, vegabréfi eða öðrum gildum skilríkjum.
Sé um tímabundna dvöl í Finnlandi að ræða, svo sem frí eða dvöl hjá ættingjum, er leyfilegt að flytja hjálpartæki milli norrænu landanna.
Fjöldi aðila í Finnlandi útvegar fólki með fötlun hjálpartæki og aðstoð.
- Það eru fyrst og fremst sveitarfélögin sem bera ábyrgð á að veita slíka þjónustu.
- Heilbrigðiskerfið sér um aðstoð sem lýtur að læknisfræðilegri endurhæfingu.
- Félagsþjónustan eða fatlaðraþjónustan getur veitt einstaklingum fjárhagslegan stuðning vegna breytinga sem gera þarf á húsnæði eða vegna kaupa á hjálpartækjum fyrir húsnæði.
- Menntakerfið sér um hjálpartæki tengd námi.
Á vefsvæði heilsuþorpsins Terveyskylä.fi, nánar til tekið á undirsíðu um Endurhæfingarhúsið (sæ. Rehabiliteringshuset), eru upplýsingar um hjálpartæki og hjálpartækjaþjónustu Þar eru einnig upplýsingar um ábyrgð opinberra þjónustuaðila og tryggingafélaga og um stuðning til útlanda eða vegna búferlaflutninga til útlanda.
Finnska almannatryggingastofnunin, vinnueftirlitið, ríkissjóður og trygginga- og vinnulífeyrissjóðir fjármagna einnig hjálpartækjaþjónustu sem fellur undir þeirra ábyrgðarsvið. Gegnum finnsku almannatryggingastofnunina er hægt að fá svonefnd krefjandi hjálpartæki. Krefjandi hjálpartæki eru til dæmis sérstök tæknileg tæki á borð við lestrartæki, sérstaka skjái og tölvur. Í Finnlandi er hjálpartækjaþjónusta af þessu tagi alla jafna án endurgjalds.
Nánari upplýsingar um aðstoð og hjálpartæki eru í handbók finnska heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins um þjónustu við fatlaða.
Ef þú lifir með fötlun eða sjúkdómi sem gerir að verkum að þú spjarar þig ekki í vinnu þinni eða námi án persónulegrar aðstoðar eða hjálpartækja mun Kela sjá þér fyrir hjálpargögnum og sinna tilheyrandi leiðsögn og viðhaldi.
Ökutæki
Um innflutning á bíl í eigu einstaklings með fötlun gilda almennar reglur um innflutning ökutækja. Um slíkan innflutning er fjallað á síðunni Ökutæki í Finnlandi.
Einstaklingar með fötlun geta fengið undanþágu frá þeim skatti sem almennt er lagður á ökutæki án þess að sækja sérstaklega um hana, ef ökutækjaskrá inniheldur athugasemd um endurgreiðslu ökutækjaskatts samkvæmt lagagreinum 50 eða 51 um ökutækjaskatt. Hafi einstaklingur bílastæðaauðkenni hreyfihamlaðra getur hann fengið undanþágu frá ökutækjaskatti með því að senda inn umsókn.
Sé skipt um ökutæki eða ef gildistími bílastæðaauðkennis rennur út þarf að sækja aftur um undanþáguna. Einn og sami einstaklingur getur aðeins fengið undanþágu frá ökutækjaskatti vegna eins ökutækis í einu. Þó að umsókn hafi verið send þarf að greiða ökutækjaskattinn á eindaga. Sé umsóknin samþykkt er útlagður skattur endurgreiddur. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Traficom.
Samkvæmt 51. grein finnskra laga um ökutækjaskatt getur einstaklingur með fötlun sem skráir ökutæki í Finnlandi í fyrsta sinn fengið þann ökutækjaskatt sem innifalinn er í verði ökutækis endurgreiddan, ýmist að fullu eða að hluta. Við meðhöndlun umsókna er litið til eðlis og alvarleika fötlunar umsækjandans. Unnt er að endurgreiða ökutækjaskatt upp að tilteknu hámarki. Mat á eðli og alvarleika fötlunar er ávallt framkvæmt af lækni.
Í sumum tilvikum er einnig hægt að endurgreiða ökutækjaskatt á grundvelli fötlunar með svonefndri eftirgjöf skatta. Finnski tollurinn getur veitt ívilnun af ökutækjaskatti á grundvelli 50. greinar finnskra laga um ökutækjaskatt. Í því felst að teljist fullnægjandi ástæður vera fyrir hendi er hægt að endurgreiða skattinn að öllu eða einhverju leyti. Í slíkum tilvikum er ökutækjaskattur til dæmis endurgreiddur foreldrum sem þurfa á ökutækinu að halda vegna alvarlegrar fötlunar barns síns.
Samkvæmt finnskum lögum um þjónustu við fatlaða er hægt að veita styrk til kaupa á notuðu eða nýju ökutæki. Um er að ræða endurgreiðslu á allt að helmingi kostnaðar af ökutækinu. Þar er tekið tillit til endurgreiðslu á ökutækjaskatti og annarra endurgreiðslna eða styrkja vegna ökutækis sem viðkomandi kann að hafa fengið nú þegar. Hægt er að sækja um styrk til kaupa á ökutæki þó að ökutækjaskattur hafi ekki fengist endurgreiddur.
Samkvæmt lögum um umferðar- og slysatryggingar er styrkur til kaupa á ökutæki aðeins í boði fyrir vinnandi fólk með alvarlega fötlun.
Á grundvelli finnskra laga um þjónustu við fólk með fötlun er veittur styrkur vegna óhjákvæmilegra breytinga sem gera þarf á staðalbúnaði ökutækis vegna fötlunar (akstursstýring, vökvastýri, snúningssæti, hjólastólabraut). Slíkar breytingar eru endurgreiddar að fullu, en þó innan gildandi ramma um slíkar endurgreiðslur þar sem ekki er um að ræða svonefnd efnisleg réttindi einstaklings (e. subjective rights). Á grundvelli laga um þjónustu við fatlaða er einnig hægt að endurgreiða helming af kostnaði vegna búnaðar sem ætlað er að auðvelda notkun ökutækis.
Tryggingafélög sem höndla með umferðar- og slysatryggingar endurgreiða líka kostnað sem hlýst af breytingum á ökutæki. Þú færð nánari upplýsingar hjá þínu tryggingafélagi.
Finnska þjónustufyrirtækið Ajovarma gefur út bílastæðaauðkenni hreyfihamlaðra fyrir einstaklinga með alvarlega fötlun eða ökumenn sem flytja einstaklinga með fötlun. Sótt er um auðkennið á skrifstofu Ajovarma eða rafrænt á þjónustusíðum Traficom.
Sum tryggingafélög bjóða einstaklingum með fötlun afslátt af umferðartryggingum. Athugaðu málið hjá þínu tryggingafélagi.
Áhrif fötlunar eða sjúkdóms á atvinnumöguleika
Þurfir þú að gera breytingar eða sérstakar ráðstafanir varðandi vinnu þína vegna fötlunar eða sjúkdóms getur þú leitað aðstoðar á TE-skrifstofunni. TE-skrifstofan veitir upplýsingar um atvinnutækifæri og möguleika á að halda starfi þínu þrátt fyrir fötlun eða veikindi.
Vinnuveitandi getur einnig fengið styrk frá TE-skrifstofunni til að bæta starfsskilyrði svo að einstaklingur með fötlun eða sjúkdóm geti haldið áfram á sínum vinnustað eða byrjað á nýjum vinnustað. Vinnuveitandinn þarf að sækja um þann styrk.
Túlkunarþjónusta og örorkubætur Kela
Finnska almannatryggingastofnunin (Kela) greiðir örorkubætur á grundvelli laga um örorkubætur. Markmið styrkjanna er að styðja íbúa Finnlands með fötlun eða sjúkdóm til að bjarga sér í daglegu lífi, stunda vinnu eða nám og gera þeim kleift að viðhalda getu sinni, búa á eigin heimili og sækja sér endurhæfingu og umönnun. Að auki veitir Kela túlkunarþjónustu fyrir einstaklinga sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir, daufblindir eða með talgalla.
Nánari upplýsingar á vefsvæði Kela.
Skiptinám
Háskólanemi eða starfsmaður skóla á háskólastigi sem glímir við fötlun, sjúkdóm, námsörðugleika eða aðrar sérþarfir getur fengið fjárstyrk til að fara í skiptinám eða vinnuskipti til annars lands. Til dæmis er svonefndur aðgengisstyrkur ætlaður til þess að greiða fyrir búsetu með aðgengi og auknum hreyfanleika einstaklings, eða útvega gögn sem hann kann að þurfa vegna náms síns.
Lyf
Norðurlönd eiga aðild að Schengen-samstarfinu og hafa því skuldbundið sig til að fylgja ýmsum reglum varðandi lyfjainnflutning einstaklinga. Almennt er leyfilegt að flytja inn lyf frá öðrum norrænum löndum til persónulegra nota, í magni sem nemur í mesta lagi birgðum til eins árs.
Kvartanir og áfrýjanir
Séu skjólstæðingar ekki sáttir við þá félagslegu þjónustu, aðstoð, umönnun eða viðmót sem þeir fá, geta þeir
- haft samband við yfirmann þeirrar stofnunar þar sem ákvörðun var tekin
- haft samband við umboðsmann félagsmála
- sent viðeigandi embættismanni eða ábyrgðarmanni félagsþjónustudeildar athugasemd vegna málsins
- lagt fram kvörtun til viðeigandi yfirvalds eða svæðisskrifstofu stjórnsýslustofnunar ríkisins, umboðsmanns finnska þingsins eða ríkislögmanns finnska ríkisins. Í vissum tilfellum getur svæðisskrifstofa stjórnsýslustofnunar ríkisins vísað kvörtun áfram til meðferðar hjá Valvira, leyfis- og eftirlitsstofnun félags- og heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.
Umsækjendur um úrræði og styrki frá finnsku félagsþjónustunni eiga rétt á að fá skriflegan úrskurð með rökstuðningi. Í úrskurði kemur fram hvernig óska megi eftir að fá honum breytt. Hægt er að krefjast leiðréttingar á úrskurði embættismanns félagsþjónustunnar frá viðeigandi félagsþjónustustofnun innan 14 daga eftir að upplýsingar um úrskurð hafa borist. Ef fólk er ósátt við úrskurði stofnana og fyrirtækja sem úthluta styrkjum og bótum, svo sem almannatryggingastofnunar og tryggingafyrirtækja, og vill sækja um að fá úrskurði hnekkt, skal fyrst snúa sér til úrskurðarnefndar finnska félags- og heilbrigðismálaráðuneytisins.
Hægt er að sækja um að fá úrskurði úrskurðarnefndar hnekkt með kvörtun til stjórnsýsludómstóls innan þrjátíu daga.
Hægt er að kvarta til umboðsmanns eða ríkislögmanns, leiki grunur á um að stofnun eða embættismaður hafi farið á svig við lög eða vanrækt skyldur sínar. Hvorki umboðsmaður né ríkislögmaður hefur þó vald til að breyta eða hnekkja stjórnvaldsúrskurði sem kveðinn hefur verið upp. Hins vegar geta þeir gert athugasemd, veitt áminningu eða viðvörun, eða hafið rannsókn á lögbroti.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.