Að ferðast með hund eða kött til Finnlands

Lemmikki- ja kotieläinten tuominen Suomeen
Hér er fjallað um það að ferðast eða flytja með gælu- og húsdýr til Finnlands. Sérstaklega er sagt frá reglum sem gilda um innflutning á hundum, köttum og frettum.

Reglurnar um ferðalög með gælu- og húsdýr eru hinar sömu hvort sem um er að ræða flutninga til Finnlands, viðkomu í Finnlandi eða tímabundið ferðalag þangað. Reglurnar eru mismunandi eftir því hvort gæludýrin ferðast ein eða ásamt fólki, og þá gilda sérstakar reglur um innflutning dýra í viðskiptaskyni.

Hundur, köttur eða fretta ásamt fylgdarmanni

Mismunandi reglur gilda einnig um ferðalög með gæludýr til Finnlands eftir því hvort dýrið kemur frá ESB-landi, Noregi eða Íslandi.

Ferðalög með dýr frá ESB-löndum og Noregi

Eftirfarandi reglur gilda um innflutning á hundum, köttum og frettum frá ESB-löndum, Sviss og Noregi til Finnlands. Þær gilda aðeins um gæludýr sem eigendur ferðast sjálfir með og sem ekki eru ætluð til sölu eða til að afhenda nýjum eiganda.

1. Örmerking

Skylt er að örmerkja gæludýr í Finnlandi með einstaklingsörmerki á formi tölvuflögu. Húðmerking með húðflúri er aðeins tekin gild að vissum skilyrðum uppfylltum, sem lesa má um á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto). Dýr þarf að vera örmerkt til að geta fengið bólusetningu við hundaæði.

2. Bólusetning við hundaæði

Í Finnlandi er skylt að bólusetja dýr við hundaæði. Nánari upplýsingar um þær reglur sem gilda um bólusetninguna eru á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto).

3. Ormalyf

Ekki er gerð krafa um að hundur sem fluttur er til Finnlands frá Noregi hafi fengið lyf við sullaveikibandormi. Hundar sem fluttir eru til Finnlands frá öðrum norrænum löndum þurfa þó að hafa fengið slík lyf. Ekki er nauðsynlegt að gefa köttum og frettum ormalyf. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto).

4. Gæludýravegabréf

Gæludýri á ferðalagi þarf að fylgja gæludýravegabréf. Tvær útgáfur af gæludýravegabréfum eru til: Gæludýravegabréf Evrópusambandsins og gæludýravegabréf útgefið af þriðja landi (Noregi).

Nánari upplýsingar um gæludýravegabréf eru á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto).

Ferðalög frá Íslandi

Um gæludýr sem ferðast með eiganda sínum frá Íslandi gilda sérstakar reglur sem finna má á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto).

Hundur, köttur eða fretta án fylgdarmanns

Sé dýr sent til Finnlands án fylgdarmanns þarf dýralæknir sem viðurkenndur er af brottfararlandinu að skoða dýrið til að ganga úr skugga um að það sé heilbrigt og þoli að ferðast án fylgdarmanns. Einnig gilda sömu reglur um innflutninginn og útlistaðar eru í undanförnum kafla (Hundur, köttur eða fretta ásamt fylgdarmanni).

Ef samanlagður fjöldi hunda, katta og fretta er sex eða fleiri, eða ef ætlunin er að selja dýrin eða framselja í hendur nýrra eigenda að loknum innflutningi, þá þarf að fylgja þeim reglum sem gilda um innflutning í viðskiptaskyni.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto).

Takmarkanir á innflutningi vissra dýrategunda

Í Finnlandi eru engar takmarkanir varðandi innflutning á katta- eða hundategundum. Finnsk lög um framandi tegundir banna þó innflutning dýra sem orðið hafa til við blöndun heimilishunds og úlfs/dýrs af öðru hundakyni, sjakala, sléttuúlfs eða dingóhunds, eða við blöndun heimiliskattar og dýrs af villikattakyni. Nánari upplýsingar um framandi tegundir eru í upplýsingagáttinni um framandi tegundir.

Önnur gælu- og húsdýr

Reglur um innflutning annarra gæludýra, svo sem kanína og annarra nagdýra, skrautfiska, skriðdýra, gælufugla og smásvína , er að finna á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto). Þar má einnig finna leiðbeiningar varðandi innflutning hesta og annarra húsdýra .

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna