Barnabætur í Danmörku

Børnefamilie i køkken
Photographer
Yadid Levy/norden.org
Hér má lesa um bætur sem barnafjölskyldur eiga rétt á samkvæmt dönskum reglum. Hér er að finna upplýsingar um barna- og ungmennabætur ásamt þeim reglum sem gilda ef þú býrð eða starfar í öðru norrænu landi.

Greint er frá tvenns konar bótum fyrir barnafjölskyldur, það er barna- og ungmennabótum (børne- og ungeydelse) og sérstökum barnabótum (børnetilskud).

Barna- og ungmennabætur færðu greiddar með hverju barni upp að átján ára aldri.

Sérstakar barnabætur færðu greiddar ef þú býrð við sérstakar aðstæður. Það getur átt við forsjáraðila sem eru einstæðir, ellilífeyrisþegar, námsfólk eða í starfsnámi, foreldrar fjölbura eða hafa ættleitt börn.

Barna- og ungmennabætur

Barna- og ungmennabæturnar, einnig nefndar barnabætur, eru greiddar með hverju barni upp að átján ára aldri. Upphæðin ræðst af aldri barnsins, hversu lengi þú sem foreldri hefur áunnið þér rétt til danskra fjölskyldubóta og enn fremur af tekjum þínum og hugsanlegs maka.

Nánari upplýsingar eru á vefnum borger.dk.

  Áttu rétt á barna- og ungmennabótum?

  Þú átt rétt á barna- og ungmennabótum ef:

  • barnið þitt er ekki orðið átján ára;
  • barnið þitt dvelst í Danmörku;
  • þú býrð í Danmörku;
  • forsjáraðili barnsins er að fullu skattskyldur í Danmörku;
  • barnið þitt er ekki á framfærslu hins opinbera;
  • þú hefur búið eða starfað í Danmörku, Færeyjum eða á Grænlandi eigi skemur en í sex ár samanlagt á undanförnum tíu árum. Þú getur tekið með tímabil þar sem þú hefur áunnið þér rétt til fjölskyldubóta í öðru ESB/EES-landi og Sviss. Hafirðu þegið barna- og ungmennabætur fyrir 1. janúar 2018 og eigirðu enn rétt á þeim gildir tveggja ára regla um þig. Það þýðir að þú þarft að hafa búið eða starfað í Danmörku hið minnsta tvö ár á undanförnum tíu árum.

  Upp getur komið staða þar sem þú átt ekki rétt á barna- og ungmennabótum þrátt fyrir að þú uppfyllir ofangreind skilyrði. Í ákveðnum tilvikum kunna barnabótagreiðslur til þín einnig að vera stöðvaðar. Nánari upplýsingar eru á vefnum borger.dk.

  Hvenær eru bæturnar greiddar?

  Barnabætur eru greiddar fyrir fram á hverjum ársfjórðungi. Þegar barnið verður fimmtán ára koma ungmennabætur í stað barnabóta. Ungmennabætur eru greiddar eftir á og mánaðarlega.

  Hver fær bæturnar greiddar?

  Ef foreldrar barnsins búa saman og hafa sameiginlega forsjá fær hvort foreldri um sig helming bótanna greiddan út.

  Búi foreldrar barnsins ekki saman eru bæturnar eingöngu greiddar að fullu til annars foreldris eða skipt jafnt á milli foreldranna.

  Á vefnum borger.dk má lesa sér til um hvernig bera skal sig að sé þess óskað að greiðslufyrirkomulagi bótanna verði breytt eða ef foreldrar eru ósammála um það.

  Hversu háar eru greiðslurnar?

  Upphæðir barna- og ungmennabóta er að finna á vefsíðunni borger.dk. Þar er einnig að finna tekjumörk sem leiða til lækkunar bóta.

  Hvernig er sótt um?

  Barna- og ungmennabætur eru greiddar sjálfkrafa ef móttakandinn býr og er almannatryggður í Danmörku. Þú getur sótt um bæturnar ef þú:

  • býrð í Danmörku en starfar í öðru ESB/EES-landi eða Sviss;

  • starfar í Danmörku en býrð í öðru ESB/EES-landi eða Sviss;

  • flytur til Danmerkur frá öðru ESB/EES-landi eða Sviss;

  • ert Dani og snýrð aftur til Danmerkur.

  Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

  Sérstakar barnabætur

  Við sérstakar aðstæður geturðu átt rétt á sérstökum barnabótum. Það á við:

  • ef þú ert einstætt foreldri;
  • ef þú átt fjölbura;
  • ef þú ert ellilífeyrisþegi;
  • ef þú ert í námi;
  • ef faðernismál stendur yfir eða faðernið er óþekkt;
  • ef annað foreldri eða báðir eru látnir;
  • ef þú ættleiðir barn.

  Mismunandi reglur eiga við um hinar ýmsu aðstæður Sérstakar barnabætur eru alla jafna greiddar út að undandgenginni umsókn. Nánari upplýsingar eru á vefnum borger.dk.

  Fjölskyldubætur og útlönd

  Ef þú býrð í öðru norrænu landi ásamt fjölskyldu en starfar í Danmörku.

  Ef þú býrð í öðru norrænu landi en starfar eingöngu í Danmörku er meginreglan sú að þú njótir danskra almannatrygginga og eigir rétt á fjölskyldubótum frá Danmörku. Þú þarft að uppfylla önnur skilyrði sem lesa má um hér að framan.

  Ef hitt foreldri barnsins starfar í búsetulandinu fáið þið fyrst og fremst greiddar fjölskyldubætur þar í landi. Ef danskar fjölskyldubætur eru hærri en þær bætur sem fjölskyldan fær í búsetulandinu greiðir Danmörk mismuninn. Ef dönsku bæturnar eru lægri en bæturnar sem fjölskyldan fær í búsetulandinu eru engar fjölskyldubætur greiddar í Danmörku.

  Ef þú býrð í Danmörku ásamt fjölskyldu en starfar í öðru norrænu landi

  Ef þú býrð í Danmörku en starfar einungis í öðru norrænu landi er meginreglan sú að þú njótir almannatrygginga í starfslandinu. Meginreglan er sú að þú eigir rétt á fjölskyldubótum í starfslandinu. Fáðu nánari upplýsingar um gildandi reglur hjá yfirvöldum í starfslandinu.

  Ef hitt foreldri barnsins starfar í Danmörku fær fjölskyldan fyrst og fremst fjölskyldubætur þar í landi. Ef fjölskyldubætur í starfslandinu eru hærri en bæturnar sem fjölskyldan fær í Danmörku greiðir starfslandið muninn. Ef erlendu fjölskyldubæturnar eru lægri en bæturnar sem fjölskyldan fær í Danmörku eru engar bætur greiddar í starfslandinu.

  Ef þú býrð í Danmörku en færð ellilífeyri frá öðru norrænu landi

  Ef þú býrð í Danmörku en færð lífeyri frá öðru norrænu landi, og hitt foreldri barnsins starfar ekki í Danmörku, áttu ekki rétt á fjölskyldubótum í Danmörku. Ástæðan er sú að þú nýtur ekki danskra almannatrygginga. Hafðu samband við yfirvöld í því landi sem greiðir þér lífeyrinn.

  Ef þú flytur úr landi

  Ef þú flytur úr landi er meginreglan sú að þú missir rétt til danskra barna- og ungmennabóta.

  Ef þú starfar áfram í Danmörku, þiggur danskan lífeyri eða er útsendur starfsmaður og skráður í danskar almannatryggingu, skaltu hafa samband við Udbetaling Danmark.

   Hvar færðu svör við spurningum?

   Samband við yfirvöld
   Spurning til Info Norden

   Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

   ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

   Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
   Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna