Réttindi og skyldur launafólks í Finnlandi

Työntekijän oikeudet ja velvollisuudet Suomessa
Hér er sagt frá þeim réttindum og skyldum sem launafólk hefur í Finnlandi. Einnig er sagt frá því hvert hægt er að snúa sér ef vandamál koma upp.

Ráðningarsamningur

Þegar þú færð nýtt starf skal gera ráðningarsamning, sem gott er að hafa skriflegan.

Í ráðningarsamningi eru tiltekin öll þau atriði sem varða nýja starfið: vinnutíma, ráðningartíma, laun, mögulegar launauppbætur, útborgunardag og fleira. Í ráðningarsamningi er einnig hægt að kveða á um mögulegt starfsreynslutímabil svo og uppsagnarfrest.

Samkvæmt finnskum lögum um ráðningarsamninga getur ráðningarsamningur verið skriflegur, munnlegur eða rafrænn. Sé ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur eða ef tilskilin atriði koma ekki fram í skriflegum ráðningarsamningi er vinnuveitanda skylt að afhenda starfsmanninum, án þess að um það sé sérstaklega beðið, skriflega greinargerð á starfskjörum áður en fyrsta launatímabil hans er á enda.

Staðfesting á starfstímabili

Að starfstímabili loknu getur þú beðið vinnuveitanda þinn um staðfestingu á starfstímabili. Þar þarf að koma fram lengd starfstímabils og eðli starfsins. Óskir þú eftir því á einnig að skrá þar ástæðu starfsloka og mat vinnuveitanda á hæfni þinni og hegðun í starfi.

Réttindi og skyldur launafólks

Launafólk á rétt á

  • launum og öðrum fríðindum í samræmi við ráðningarsamning
  • vernd í samræmi við lög og sáttmála, svo sem gegn mismunun á vinnustað
  • fagmannlegu skipulagi 
  • heilnæmu og öruggu starfsumhverfi
  • lögbundnu fæðingarorlofi og foreldraorlofi

Launafólki ber skylda til að

  • sinna vinnu sinni af natni
  • hlíta leiðsögn vinnuveitanda síns
  • forðast alla samkeppni við vinnuveitanda sinn
  • ekki ljóstra upp um iðnaðar- eða fagleyndarmál
  • sinna störfum sínum með hliðsjón af hagsmunum vinnuveitanda síns

Nánari upplýsingar um réttindi og skyldur launafólks eru meðal annars í upplýsingabanka fyrir innflytjendur í Finnlandi.

Aðstoð ef vandamál koma upp

Komi upp ósætti milli þín og vinnuveitanda þíns getur þú leitað ráða hjá trúnaðarmanni stéttarfélags á þínum vinnustað, hjá öryggisfulltrúa starfsmanna á vinnustöðum með fleiri en 10 starfsmenn, eða hjá yfirmanni vinnuverndarmála sem skipaður hefur verið af vinnuveitanda. Nánari upplýsingar veita hinar svæðisbundnu skrifstofur stjórnsýslustofnunar finnska ríkisins (fi. Aluehallintovirasto).

Verðir þú fyrir mismunun á vinnustað þínum getur þú snúið þér til vinnuverndardeildar þinnar stjórnsýslustofnunar.

Nánari upplýsingar er einnig að fá hjá finnsku vinnuverndarstofnuninni (fi. Työsuojeluhallinto) eða vinnuverndarmiðstöðinni (fi. Työturvallisuuskeskus).

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna