Réttur til heilbrigðisþjónustu á Álandseyjum

Tengillinn „Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi“ vísar á upplýsingar um réttindi í finnska almannatryggingakerfinu (FPA) fyrir þá sem búa eða starfa í Finnlandi. Reglurnar gilda einnig um Álandseyjar.
Heilbrigðisþjónusta á Álandseyjum
Allir sem hafa fasta búsetu á Álandseyjum eiga rétt á heilbrigðisþjónustu. Á meðal þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er á Álandseyjum eru heilsugæslustöðvar, sérfræðilæknar (sjúkrahús), upplýsingaþjónusta, ráðgjöf fyrir barnshafandi konur og ungabörn, heilsugæsla í skólum, fyrir fyrirtæki og fyrir námsmenn, tannlæknaþjónusta, heilbrigðisþjónusta fyrir andleg veikindi og geðsjúkdóma, endurhæfing og umhverfisheilbrigðisþjónusta.
Allir sem starfa á Álandseyjum eiga rétt á heilbrigðisþjónustu óháð því hvort þeir hafa þar fasta búsetu eða ekki. Nemendur frá Norðurlöndum eiga einnig rétt á heilbrigðisþjónustu á Álandseyjum. Í slíkum tilvikum er hægt að fá vottorð frá FPA um að eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í Finnlandi. Slíku vottorði er framvísað á opinberum heilsugæslustofnunum til vitnis um að viðkomandi einstaklingur eigi rétt á heilbrigðisþjónustu.
Auk þess geta alþjóðasamningar Finnlands um félagsleg réttindi og heilbrigðisþjónustu gefið einstaklingum frá löndum utan ESB rétt til opinberrar heilbrigðisþjónustu. Nánari upplýsingar um þetta eru á vefsíðu FPA:
Heilsugæslustöðvar á Álandseyjum
Tvær heilsugæslustöðvar eru á Álandseyjum. Ef þú þarft á þjónustu heilsugæslunnar að halda skaltu snúa þér til heilsugæslustöðvarinnar í Maríuhöfn eða heilsugæslustöðvarinnar í Godby. Ef þú þarft á þjónustu sjúkrahúss að halda getur læknir á heilsugæslustöð gefið út tilvísun fyrir sjúkrahúsið. Heimsóknir á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús eru yfirleitt gjaldskyldar.
Upplýsingar um félagsþjónustu fást hjá sveitarfélögum Álandseyja.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.