Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi

Oikeus terveyspalveluihin Suomessa
Hér segir frá rétti til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi meðan búið er eða starfað í Finnlandi. Greint er frá heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera og einkaaðila í Finnlandi, svo og endurgreiðslu vegna lyfja- og ferðakostnaðar. Einnig er sagt frá rétti til heilbrigðisþjónustu þegar dvalið er tímabundið í Finnlandi eða sótt um þjónustu eða meðferð í öðru norrænu landi. Þær reglur sem hér er lýst eiga einnig við á Álandseyjum.

Ef þú býrð eða starfar í Finnlandi átt þú rétt á heilbrigðisþjónustu þar. Þú átt einnig rétt á vissri þjónustu meðan þú dvelur tímabundið í Finnlandi. Að auki áttu rétt á að sækja tiltekna heilbrigðisþjónustu í öðru norrænu landi meðan þú býrð í Finnlandi, eða í Finnlandi meðan þú býrð í öðru norrænu landi.

Veikindi meðan búið er eða starfað í Finnlandi

Einstaklingar búsettir í Finnlandi samkvæmt þjóðskrá eiga rétt á heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera á heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi í sinni heimabyggð. Einnig er hægt að leita til einkarekinna heilsugæslustöðva. Vinnuveitendur sjá yfirleitt um að sjúkratryggja starfsfólk sitt. Námsfólk getur einnig leitað til heilsugæslustöðva háskólanna.

Kela-kort og evrópska sjúkratryggingakortið

Handhafi Kela-korts á rétt á niðurgreiðslu frá finnskum sjúkratryggingum. Kela-kort er nauðsynlegt til að fá kostnað á einkareknum heilsugæslustöðvum niðurgreiddan.

Þú getur sótt um Kela-kort og ýmiss konar bætur og styrki frá Kela (finnsku almannatryggingastofnuninni) á þínu svæði á vefsíðu Kela. Ef þú hefur ekki sótt um bætur eða Kela-kort áður og ert flutt(ur) til Finnlands skaltu líka tilkynna um flutning til Finnlands. Þú færð skriflegt svar við bótaumsókn þinni. Sé litið svo á að þú hafir flutt varanlega til Finnlands færðu Kela-kort sent í pósti. Nánari upplýsingar á síðunni Að tilkynna flutninga og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi.

Sjúkratrygging í Finnlandi veitir einnig rétt á evrópska sjúkratryggingakortinu sem Kela gefur út (European Health Insurance Card, EHIC). Það veitir rétt til skjótrar heilbrigðisþjónustu án endurgjalds þegar ferðast er eða dvalið tímabundið í öðru ESB- eða EES-landi, Sviss, Bretlandi eða Norður-Írlandi.

Niðurgreiðsla sjúkrakostnaðar

Hægt er að fá niðurgreiddan lyfjakostnað í sumum tilfellum, einnig hluta af kostnaði vegna einkarekinnar heilbrigðisþjónustu og ferðakostnaði vegna læknismeðferðar.

Niðurgreiðslu vegna lyfjakostnaðar færð þú beint frá apótekinu. Gjald vegna þjónustu lækna á einkareknum heilsugæslustöðvum er niðurgreitt á staðnum á grundvelli sjúkratrygginga, gegn framvísun Kela-korts. Fáist niðurgreiðslan ekki á staðnum er hægt að sækja um endurgreiðslu frá Kela innan sex mánaða. Til að sækja um endurgreiðslu þarf að fylla út eyðublað.

Sjómenn og einstaklingar sem vinna á landamærasvæðum í Finnlandi eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í því landi sem unnið er í, auk búsetulandsins. Kostnaðinn ber það land sem viðkomandi er sjúkratryggður í.

Veikindi meðan dvalið er tímabundið í Finnlandi

Ef þú ert sjúkratryggð/t/ur í öðru norrænu landi og veikist skyndilega í Finnlandi átt þú rétt á meðferð við veikindum þínum. Ef þú ert sjúkratryggð/t/ur í öðru norrænu landi þarft þú að framvísa vegabréfi eða öðrum opinberum skilríkjum og taka fram að lögheimili sé í öðru norrænu landi. Einnig er hægt að framvísa evrópsku sjúkratryggingakorti.

Leitað til læknis í öðru norrænu landi

Íbúar í Finnlandi geta sótt læknismeðferð í öðru norrænu landi, óski þeir þess. Þú getur sótt um læknismeðferð erlendis með samþykki frá finnskum sjúkratryggingum, en slíkt samþykki er þó ekki alltaf nauðsynlegt. Hafi meðferð ekki verið samþykkt fyrirfram er oft hægt að sækja um endurgreiðslu eftir á frá sjúkratryggingum í búsetulandinu.

Íbúar í öðru norrænu landi sem vilja sækja læknismeðferð í Finnlandi

Einstaklingar búsettir í öðru norrænu landi sem vilja sækja læknismeðferð í Finnlandi þurfa að spyrjast fyrir um möguleika á endurgreiðslu hjá yfirvöldum í búsetulandinu.

Íbúar í Finnlandi sem vilja sækja læknismeðferð í öðru norrænu landi

Íbúum Finnlands sem vilja sækja læknismeðferð í öðru norrænu landi er bent á að fá hana samþykkta fyrirfram hjá Kela eða sækja að öðrum kosti um endurgreiðslu eftir á hjá Kela.

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna