Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi

Veikindi meðan búið er eða starfað í Finnlandi
Í Finnlandi er hægt að velja milli ríkis- og einkarekinnar læknisþjónustu. Finnska almannatryggingastofnunin, Kela, endurgreiðir hluta kostnaðar við einkarekna læknisþjónustu.
Einstaklingar búsettir í Finnlandi samkvæmt þjóðskrá eiga rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi í sinni heimabyggð. Einnig er hægt að leita til einkarekinna heilsugæslustöðva. Vinnuveitendur sjá yfirleitt um að sjúkratryggja starfsfólk sitt. Einstaklingur sem starfar í Finnlandi í að minnsta kosti fjóra mánuði og er sjúkratryggður þar fær sjúkratryggingakort, einnig nefnt Kela-kort. Flytji einstaklingur til Finnlands frá öðru ESB/EES-landi á hann rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu þó að hann starfi skemur en fjóra mánuði í Finnlandi. Námsfólk getur einnig leitað til heilsugæslustöðva háskólanna.
Veikindi meðan dvalið er tímabundið í Finnlandi
Einstaklingur sem er sjúkratryggður í öðru norrænu landi og veikist skyndilega í Finnlandi á rétt á meðferð við veikindum sínum. Þá þarf að framvísa vegabréfi eða öðrum opinberum skilríkjum og taka fram að lögheimili sé í öðru Norðurlandi. Einnig er hægt að framvísa evrópsku sjúkratryggingakorti.
Leitað til læknis í öðru norrænu landi
Íbúar í Finnlandi geta sótt læknismeðferð í öðru norrænu landi, óski þeir þess. Hægt er að fá læknismeðferð erlendis samþykkta fyrirfram en það er þó ekki nauðsynlegt. Þó að meðferð hafi ekki verið samþykkt fyrirfram er oft hægt að sækja um endurgreiðslu eftir á frá sjúkratryggingum í búsetulandinu.
Einstaklingar búsettir í öðru norrænu landi sem vilja sækja læknismeðferð í Finnlandi þurfa að spyrjast fyrir um möguleika á endurgreiðslu hjá yfirvöldum í búsetulandinu.
Íbúum Finnlands sem vilja sækja læknismeðferð í öðru norrænu landi er bent á að fá hana samþykkta fyrirfram hjá Kela eða sækja að öðrum kosti um endurgreiðslu eftir á hjá Kela.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.