Gagnvegir góðir: Formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2019
Yfirskrift formennsku Íslands vísar til vináttu milli norrænu ríkjanna, sem birtist meðal annars í hreyfanleika og öflugu samstarfi milli landanna. Samvinnan teygir líka anga sína út í umheiminn, en Norðurlönd eru samheldin á alþjóðavettvangi og saman leggja löndin sitt af mörkum í alþjóðlegu samstarfi að friði, öryggi og umhverfisvernd. Í hinum stafræna heimi liggja ýmis tækifæri til samvinnu í framtíðinni.
Virðing fyrir leikreglum lýðræðisins og réttarríkinu stendur djúpum rótum í samfélögum Norðurlanda. Við erum ákveðin í viðhalda friðsömum og fjölbreyttum velferðarsamfélögum okkar, þar sem menning og menntun blómstrar og þar sem hver og einn hefur möguleika á að njóta sín. Samfélög sem nýta nýsköpun til framþróunar fyrir náttúruna, atvinnulífið og efnahaginn.
Norrænt samstarf hefur sannað að meira vinnst með því að byggja brýr heldur en múra. Samstarf, vinátta og virðing detta aldrei úr tísku. Grunngildi Norðurlanda eru enn jafn mikilvæg og áður.
Ungt fólk á Norðurlöndum
Meðan á formennsku Íslands stendur árið 2019 eru þeir árgangar sem fæddir eru um aldamótin að ljúka grunnmenntun sinni og munu því næst halda áfram námi í háskólum eða fara út á vinnumarkaðinn, flytja að heiman og verða virkir borgarar í samfélaginu. Framtíðin er þeirra. Meðan á formennsku Íslands stendur munum við leggja áherslu á unga fólkið í formennskuverkefnum á sviði mennunar, menningar og heilbrigðismála þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku og samtal við fulltrúa unga fólksins.
Hafið: Blár vöxtur í norðri
Ísland byggir áherslu sína á „Hafið – bláan vöxt í norðri“ á þeirri forystu sem Norðurlöndin hafa tekið á þessu sviði, hvert fyrir sig, á svæðinu í heild og á heimsvísu. Þá er tekið mið af stefnumörkun einstakra ráðherranefnda og almennt af norrænu samstarfi um sjálfbæra nýtingu og verndun auðlinda hafsins, þar á meðal með tilliti til plasts og lífhagkerfis.
Sjálfbær ferðaþjónusta í norðri
Formennska Íslands leggur áherslu á samstarf milli norrænu ríkjanna um jafnvægi milli vaxtar og verndunar í þróun á sjálfbærrar ferðaþjónustu. Stefnt er að því að skapa yfirsýn yfir sameiginlegar áskoranir ríkjanna og stefnumörkun á þessu sviði.