Íbúar

Mennesker ved strand
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Stoltar borgir með sögulegum byggingum og nýjum og glæsilegum arkitektúr. Stór græn svæði með fersku lofti og kærkominni ró. Há fæðingartíðni, traustur efnahagur og góð lífskjör. Það er margt sem Norðurlandabúar geta verið þakklátir fyrir og það eru margir sem láta sig dreyma um að flytjast til Norðurlandanna.

Stórhýsi glitra og glampa þar sem þau endurspeglast í vatninu sem bærist í höfninni. Nýbyggingar hafa skotið upp kollinum á gömlum hafnarsvæðum víða í norrænum borgum. Nútímaleg byggingarlist ber vott um framfarir, efnahagslega farsæld, sköpunarkraft og frumleika í hugsun. Allt eru þetta lykilhugtök á Norðurlöndum þar sem fólksfjölgunin í borgum er slíkt að annað eins hefur ekki sést frá því að iðnbyltingin stóð sem hæst í lok 19. aldar.

Úti á landi standa yfirgefin og niðurnídd íbúðarhús og bíða niðurrrifs. Kaupmaðurinn á horninu lokar og skólar eru sameinaðir. Fólksfækkunin er hröð á jaðarsvæðum. Þar hækkar húsnæðisverð ekki á sama ofsahraða og í borgunum og lífskjörin eru almennt heldur ekki alveg eins góð. Þetta er efnahagslegt og félagslegt viðfangsefni sem stjórnmálafólk og yfirvöld á Norðurlöndum verða að bregðast við.

Að fjörutíu árum liðnum er því spáð að íbúum Norðurlanda hafi fjölgað um 3 milljónir. Reynt er að beita virkri byggðastefnu til að laða fólk til strjálbýlustu staðanna á Íslandi og í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þar er nægt rými og landsbyggðin hefur upp á ýmislegt að bjóða sem höfðar æ meir til önnum kafinna borgarbúa. Ró, hreint loft og náttúra skapa kjöraðstæður til útivistar en þar eru líka hráefni eins og sveppir og ber til matargerðar.

Íbúar Norðurlanda, þar með talinna Álandseyja, Færeyja og Grænlands, eru rúmlega 27 milljónir. Engu að síður eru löndin strálbýl með sínum ósnortnu víðernum, skógum, engjum, fjöllum og vatnslendum. Danmörk er eina undantekningin. Þar eru 130 íbúar á ferkílómetra og er landið eitt þéttbýlasta land álfunnar. Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru á bilinu 16 til 21,8 íbúar á ferkílómetra, á Íslandi eru þeir 3,2 en aðeins 0,14 íbúar á hvern ferkílómetra á Grænlandi, sem ekki er þakkinn ís, einkum á suðvesturströnd landsins.

Norðurlandabúum hefur fjölgað um meira en 3 milljónir (13%) frá árinu 1990. Á Íslandi nemur fjölgunin um 28%, þar á eftir koma Noregur með 21% og Álandseyjar með 18%. Íbúatalan hækkar þegar fæðingartíðni er meiri en dánartíðni og þegar aðflutningur fólks er meiri en brottflutningur.

Borgir sem heilla

Nú er búið að breyta gömlum iðnaðarsvæðum í aðlaðandi íbúðarhverfi. Daufleg hafnarsvæði hafa gengið í endurnýjun lífdaga með spennandi háhýsum og sögulegir borgarkjarnar hafa verið verndaðir og gerðir upp. Norrænar borgir laða fólk að, mikil gróska er í efnahagslífinu, púlsinn er hár og sköpunarkrafturinn mikill.

Íbúum fjölgar hraðar á höfuðborgarsvæðum Norðurlanda en í löndunum í heild sinni. Stór-Stokkhólmur er stærsta borg Norðurlanda með 2,2 milljónir íbúa, sú næsta í röðinni er stór-Kaupmannahöfn með 1,3 milljónir íbúa. Í stór-Ósló búa 1,2 milljónir manns og 1,1 milljón í stór-Helsinki.

Á stór-Reykjavíkursvæðinu eru íbúarnir um 215 þúsund manns en fjölgunin þar er hraðari en í hinum höfuðborgunum. Höfuðborgarsvæðið hefur vaxið um 30% frá árinu 1990. Fjölgunin hefur líka verið hröð í Þórshöfn í Færeyjum en þar búa nú rúmlega 20 þúsund manns ef úthverfin eru tekin með.

Landamærasvæðið sem kennt er við Eyrarsund er fjölmennasta svæðið á Norðurlöndum. Það nær yfir austanvert Sjáland og Skán auk Kaupmannahafnar og Malmö. Ný samgönguæð yfir Eyrarsundið var tekin í notkun 2000 og býður upp á góð tengsl milli Skánar og Sjálands.

Íbúarnir eldast

Eldri borgurum fjölgar hraðar en ungu fólki á Norðurlöndum. Samkvæmt nýjustu mannfjöldaspám verða 50% fullorðinna íbúa í Finnlandi og á Álandseyjum eldri en 65 ára árið 2030. Talað er um að aldraðir séu byrði á samfélaginu en í því sambandi má benda á að margir eldri borgarar á Norðurlöndum eru virkir, lifa heilbrigðu lífi og eru sjálfbjarga.

Spár gefa til kynna að 8,6% Norðurlandabúa verði áttræðir eða eldri árið 2040. Meðalævin lengist alls staðar á Norðurlöndum og geta finnskar konur vænst þess að lifa allra lengst. Meðalævilengd þeirra er 84 ár.

Öldruðum fjölgar vegna þess að fólk lifir lengur og að færri börn fæðast en áður. Engu að síður er fæðingartíðni á Norðurlöndum frekar há í samanburði við næstum öll önnur Evrópulönd.

Aðfluttir og brottfluttir

Á Norðurlöndum fer stór hluti búferlaflutninga fram á milli landanna. Frjáls vinnumarkaður, svipuð tungumál og sameiginlegar reglur um námsdvalir auðvelda Norðurlandabúum að færa sig um set.

Aðfluttir á Norðurlöndum er einstaklingar sem snúa heim og erlendir einstaklingar sem fengið hafa dvalarleyfi.

Hinn 1. janúar 2017 var hlutfall erlendra ríkisborgara hæst á Álandseyjum og í Noregi eða um 10,6% íbúanna. Þar á eftir komu Ísland með 8,9%, Svíþjóð með 8,5% og Danmörk með 8,4%. Fæstir erlendir ríkisborgarar eða 4,4% eru í Finnlandi, 2,9% í Færeyjum og aðeins 1,8% íbúa á Grænlandi.

Útlendingum hefur fjölgað alls staðar á Norðurlöndum, en meðal þeirra er fólk sem flýr undan pólitískum róstum og styrjöldum í Afríku, Miðausturlöndum og Asíu, ekki síst Sýrlandi.

Árið 2016 fluttu rúmlega 18.500 Pólverjar til Norðurlanda og tæplega 13 þúsund manns frá Eystrasaltsríkjunum. Flestir settust að í Noregi (2016).

Flestir hælisleitendur til Svíþjóðar og Noregs

Ein aðferð til að fá einhverja mynd af fjölda útlendinga sem óska eftir því að setjast að á Norðurlöndum er að líta á fjölda hælisleitenda.

Hælisleitendur eru fólk sem kemur til Norðurlanda án þess að hafa fengið dvalarleyfi. Þeir eru ekki reiknaðir inn í talnaefni um íbúa landanna.

Einstaklingar sem fengið hafa hæli á Norðurlöndum voru á bilinu 13 þúsund og 36 þúsund manns á ári þar til borgarastyrjöldin braust út í Sýrlandi. 162.877 einstaklingar leituðu hælis í Svíþjóð árið 2015. Af þeim fengu 67.258 hæli árið 2016. Til samanburðar má geta þess að árið 2014 var talan eingöngu 24.498.

Hælisleitendum fjölgaði á árunum 1990–2000 í öllum löndunum nema Svíþjóð þrátt fyrir að mjög margir hafi leitað hælis þar í landi á árunum 1990–1992. Hælisleitendum í Danmörku fækkaði á árunum 2000–2006 um 85-90%.

Hvað munu margir búa hér í framtíðinni?

Gert er ráð fyrir að íbúum Norðurlanda muni fjölga um 6,6%, úr 27,7 milljónum árið 2021 í um 29,5 milljónir árið 2040. Sú spá styðst við fæðingartölur og dánartíðni en einnig fjölda aðfluttra og brottfluttra í löndunum.

Áreiðanlegust er öldrunarspáin þar sem hún nær til einstaklinga sem eru þegar komnir í heiminn.

Nýjustu mannfjöldaspár benda til að íbúum Íslands muni fjölga mest eða sem nemur um 14,2% fram til ársins 2040. Á hinum enda skalans er Grænlands þar sem gert er ráð fyrir að íbúum fækki um 8,4% fram til ársins 2040. Grænland er eina norræna landið þar sem gert er ráð fyrir íbúafækkun.

Fleiri á opinberu framfæri

Um allan heim brjóta sérfræðingar í framtíðarfræðum og stjórnmálafólk heilann yfir framfærslubyrðinni. En í hverju felst hún?

Í stuttu máli má segja að ákveðinn fjöldi fólks vinni og greiði skatta og gjöld og fyrir vikið er hægt að framfæra ákveðnum fjölda barna, ungmenna, sjúkra og gamals fólks.

Ef mikið misvægi skapast milli fjölda þeirra sem borga og hinna sem þiggja er það ákveðið áhyggjuefni. Getum við t.a.m. viðhaldið velferðarríkjunum eins og við þekkjum þau í dag?

Framfærslubyrðin vegna eldri borgara eykst væntanlega alls staðar á Norðurlöndum en minnkar víðast hvar annars staðar í Evrópu. Ástæðan fyrir því er að fæðingartíðnin er nokkuð há á Norðurlöndum.

Árið 2040 verða 27,3% íbúa á Álandseyjum eldri en 65 ára samkvæmt síðustu spám frá 2017. Í Finnlandi er sambærileg tala 26,3%. Í Danmörku, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð eru spátölurnar aðeins lægri og gert er ráð fyrir að eldri borgarar á Grænlandi verði aðeins 14,8% íbúa árið 2040. Ef fjöldi barna og ungmenna á aldrinum 0–19 ára er tekinn með í hóp þeirra sem eru á framfæri vinnufærra borgara á aldrinum 20–64 ára verður hlutfall einstaklinga á framfærslu annarra um 50% almennings árið 2040.