Norrænu tungumálin
Norrænt málsamfélag
Stór hluti Norðurlandabúa talar tungumál sem eru svo náskyld að þeir sem tala þau skilja hver annan með lítilli fyrirhöfn. Þetta er stundum kallað gagnkvæmur málskilningur norrænna grannþjóða.
Á Norðurlöndum eru þó einnig töluð tungumál sem standa utan þessa málsamfélags. Um leið vinnur enskan á sem sameiginlegt mál, bæði í fræði- og menningarlegu samhengi. Þetta skapar þrýsting á hinn gagnkvæma málskilning norrænna grannþjóða.
Ýmsar fleiri áskoranir blasa við málsamfélagi skandinavísku málanna; dönsku, norsku og sænsku. Væntingar okkar um hve vel aðrir skilja okkur, svo og hugmyndir okkar um það hvort við getum skilið aðra, hafa áhrif á það hvaða mál við veljum að nota þegar við hittum fólk frá norrænu grannlöndunum.
Hugmyndir okkar og væntingar mótast meðal annars af því hvort tungumál grannþjóðanna heyrast yfirleitt í daglegu umhverfi okkar. Gott dæmi er norska þáttaröðin SKAM, sem hóf göngu sína 2016 og átti þátt í að efla áhuga ungmenna á öllum Norðurlöndum, allt frá Íslandi í vestri til Finnlands í austri, á norrænu málsamfélagi.
Ýmis orð og setningar úr SKAM, svo sem „russebuss“, „dritkul“ og „kroppen din trenger potet“ urðu fljótlega vinsæl og útbreidd meðal aðdáenda þáttaraðarinnar. Tíminn mun leiða í ljós hvort eitthvað af norska slangrinu úr SKAM kemur til með að festast í sessi í öðrum norrænum tungumálum.
Framhaldsskólakennarar á öllum Norðurlöndum hafa notað þáttaröðina til að vekja athygli nemenda á norrænu grannmálunum með góðum árangri, og einnig unnið með norrænar menningar- og samfélagsvísanir úr þáttunum. Það verður áhugavert að sjá hvernig áhrifin sem SKAM hefur haft á norræna unglingamenningu munu skila sér í kennslu í og um grannmálin til lengri tíma litið.
SKAM hafði áhrif á hugmyndir margra aðdáenda þáttanna um norskukunnáttu sína. Sú þjálfun sem áhorfendur þáttanna hafa fengið í að skilja annað norrænt mál er verðmæt, en áhrifin á gagnkvæman skilning grannþjóðanna til lengri tíma eru ekki síður mikilvæg. Sú sannfæring að auðvelt sé að skilja norsku, og að hún sé jafnvel dálítið skemmtileg, mun hafa langtímaáhrif á SKAM-kynslóðina.
Tungumál á Norðurlöndum
Gegnum tíðina hefur stór hluti Norðurlandabúa skilið móðurmál nágranna sinna. Þetta málsamfélag þvert á landamæri er eitt af því sem tengir norrænu löndin menningarböndum.
Norrænt mál- og menningarsamfélag byggir á skyldleika tungumálanna og sögulegum tengslum.
Svo öldum skiptir hafa norrænu ríkin og sjálfstjórnarsvæðin gengið í stjórnmálasambönd og annars konar bandalög hvert með öðru. Þannig hafa Danmörk, Noregur og Ísland haldið nánum tengslum á sviðum tungumáls og menningar. Sama gildir um Finnland og Svíþjóð. Tengslin styrktust enn frekar með sænsk-norska sambandinu, ríkjasambandi Danmerkur, Færeyja og Grænlands og ríkjasambandi Finnlands og Álandseyja. Noregur fékk sjálfstæði 1905, Finnland 1917 og Ísland varð fullvalda 1944. Fram að því hafði annað hvort danska eða sænska verið opinbert mál þessara landa í stjórnsýslu-, mennta- og kirkjumálum. Auk þess áttu norrænu löndin mikla sameiginlega bókmenntasögu og því upplagt að viðhalda mál- og menningarsamfélagi þeirra að sjálfstæði fengnu – að minnsta kosti að því marki sem íbúar landanna voru reiðubúnir til.
Hvað tungumálatengslin snertir eru flest tungumál Norðurlanda af indóevrópskum stofni. Það á við um færeysku, íslensku, norsku, dönsku og sænsku, sem öll eru norðurgermönsk mál og hafa þróast frá sama norræna málinu sem talað var á tímum víkinganna. Síðan þá hafa þau fjarlægst hvert annað og skipst í vesturgrein og austurgrein, annars vegar sænsku og dönsku og hins vegar norsku, færeysku og íslensku. Færeyska og íslenska eru nefnd norræn eyjamál. Fólk sem talar þau skilur ekki norrænu meginlandsmálin, sem eru skandinavísku málin danska, norska og sænska, án þess að hafa lært þau. Þessi skipting byggir meðal annars á þróun á framburði (hljóðkerfum).
Enn í dag er munur á framburði eitt af því sem stendur helst í vegi fyrir gagnkvæmum skilningi grannmálanna. Öfugt við það sem ætla mætti af ofannefndri skiptingu eiga Norðmenn og Svíar auðveldara með að skilja hver annan í dag en Danir og Svíar.
Finnska og samísku tungumálin tilheyra ætt finnsk-úgrískra mála. Samísku málin eru töluð í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í Finnlandi er lítill minnihluti sem hefur karelísku að móðurmáli, í Noregi er kvenska minnihlutamál og í Svíþjóð meänkieli. Fólk sem talar önnur norræn tungumál skilur ekki þessi mál án þess að hafa lært þau.
Grænlenska eða „kalaallisut" tilheyrir inui-grein eskimó-aluetískra tungumála og töluð á Grænlandi. Tungumálið er af ætt tungumála sem töluð eru í norðurhluta Kanada og Alaska.
Auk talaðra tungumála eru notuð mismunandi táknmál í ríkjunum. Táknmálunum má einnig skipta í austur- og vesturætt. Táknmál finnsku, finnlandssænsku og sænsku eru náskyld hvert öðru og táknmál dönsku, norsku og íslensku sömuleiðis. Táknmál grænlensku og færeysku byggja bæði á dönsku táknmáli, en hafa þó hvort sín sérkenni.
Síðast en ekki síst eru fjölmörg tungumál innflytjenda töluð í norrænum ríkjum.
Staða tungumálanna á Norðurlöndum og utan þeirra
Danska, finnska, norska, íslenska og sænska (að finnlandssænsku meðtalinni) eru opinber tungumál norrænu ríkjanna fimm. Ásamt færeysku, grænlensku og samísku er þau svokölluð undirstöðutungumál Norðurlanda. Norrænu táknmálin hafa sérstaka stöðu í samfélögum Norðurlanda. Í „Yfirlýsingu um norræna málstefnu“ er gerð grein fyrir stöðu tungumálanna og meginsviðum norrænnar málstefnu. Ábyrgðin á framkvæmd yfirlýsingarinnar er í höndum landanna en norrænt samstarf á að styðja aðgerðir landanna þar að lútandi.
Danska, finnska og sænska eru opinber tungumál í Evrópusambandinu.
Danska er töluð af minnihlutanum í þýska héraðinu Slésvík-Holsetalandi. Í Suður-Slésvík hefur danska haft stöðu eins af nokkrum opinberum tungumálum síðan 2015.
Finnska er töluð í lýðveldinu Karelíu í Norðvestur-Rússlandi.
Málnotkun í norrænu samstarfi
Í norrænu samstarfi fer að vissu leyti fram samhliða tungumálanotkun milli annars vegar skandinavísku málanna þriggja; dönsku, norsku og sænsku, og hinsvegar ensku.
Í opinberu norrænu samstarfi eru danska, norska og sænska notuð sem vinnutungumál. Á fundum í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni er túlkað eftir þörfum milli finnsku, íslensku og skandínavísku en aldrei milli skandínavísku tungumálanna. Danska, norska og sænska eru einnig vinnutungumál á skrifstofum Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
Frá árinu 1991 hefur Norræna ráðherranefndin byggt upp náið samstarf við Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. Í samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er vinnutungumálið enska.
Samstarf fer einnig fram á ensku í ýmiss konar fræðilegu samhengi.
Að sumu leyti væri einfaldara og hagkvæmara ef samstarfið eins og það leggur sig færi fram á ensku. Sú staðreynd að norrænt stjórnmálastarf hefur haldið fast við gagnkvæman skilning milli dönsku, norsku og sænsku sendir þó jákvæð skilaboð um norræna samkennd þvert á landamæri þjóða og tungumála.
Norðurlöndin hafa gert með sér nokkra samninga um norrænt tungumálasamstarf.
Í tungumálasamstarfi sínu hefur Norræna ráðherranefndin lagt sérstaka áherslu á hlustunarskilning milli dönsku, norsku og sænsku. Nánari upplýsingar um gagnkvæman skilning grannmálanna eru í rannsóknaskýrslum á borð við „Håller språket i hop Norden?“ (2005), „Dansk og svensk – Fra nabosprog til fremmedsprog?“ (2013) og „Man skal bare kaste sig ud i det“ (2016).