„Áríðandi að taka höndum saman um vindorku á hafi ef Norðurlönd eiga að vera í fararbroddi“

29.06.23 | Fréttir
vindkraft till havs
Photographer
Morten Rasmussen/Biofoto/Ritzau Scanpix
Víða á Norðurlöndum á sér stað mikill vöxtur á sviði vindorku á hafi. Að mati norrænu sjálfbærninefndarinnar væri rétt að Norðurlönd samræmdu rannsóknarvinnu sína og stjórnsýsluferli til þess að geta tekið sér forystuhlutverk á þessu sviði.

Margir kostir fylgja því að byggja upp vindorkuver á hafi þegar Norðurlönd færa orkukerfi sín frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orku. 
Á sumarfundi sínum í Færeyjum ræddi norræna sjálfbærninefndin með hvaða hætti löndin geti nýtt reynslu og þekkingu hvers annars í tengslum við þessa öru þróun. 

Mikilvæg skilaboð til atvinnulífsins

„Það liggur á að við breytum orkukerfum okkar svo við hættum að vera háð jarðefnaeldsneyti. Við getum nýtt okkur reynslu og þekkingu hvers annars á Norðurlöndum til að flýta fyrir uppbyggingu vindorku á hafi. Þetta eru mikilvæg skilaboð til atvinnulífsins um að við viljum vera leiðandi á þessu sviði,“ segir Emma Berginger, þingmaður frá Svíþjóð (MP) og fulltrúi í norrænu sjálfbærninefndinni.

Löndin mislangt á veg komin

Þegar kemur að botnföstum vindmyllum eru Danir til dæmis framarlega en í Noregi á sér stað mikil þróun varðandi fljótandi vindorkuver.


Þótt áhugi á að koma upp vindorkuverum úti fyrir ströndum sé mikill alls staðar á Norðurlöndum standa seinvirk leyfiskerfi, tæknileg vandamál og öryggis- og umhverfismál í vegi fyrir uppbyggingunni.


Tillaga flokkahóps miðjumanna um að hvetja norrænu ríkisstjórnirnar til að vinna saman í tengslum við vindorku á hafa naut eindregins stuðnings allra flokkahópa í nefndinni.

Áframhaldandi samstarf um dreifikerfi

Stjórnvöld í norrænu löndunum ættu að mati nefndarinnar að skiptast á þekkingu og reynslu varðandi leyfisferli.

Einnig þarf að efla samstarf norrænna háskóla á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar. 

Nefndin vill einnig auka samvinnu á milli norrænna orkuveitufyrirtækja í tengslum við samræmd norræn dreifikerfi.

„Gríðarlega tækifæri“

„Vindorka á hafi býður upp á gríðarleg tækifæri til að framleiða endurnýjanlega orku, draga úr losun og jafnframt skapa verðmæti. Til þess að ná fram samlegðaráhrifum þurfa öll norrænu löndin að sameina krafta sína og þekkingu,“ segir Lene Westgaard-Halle, þingmaður á norska Stórþinginu (H) og fulltrúi í sjálfbærninefndinni, g bætir við:

„Ég er sérstaklega ánægð með að nefndin undirstriki einum rómi mikilvægi þess að löndin miðli orku hvert til annars og að tengingar á milli landanna séu forsenda þess að vel takist til.“