Dregur að ákvörðun í umræðu um tungumál í Norðurlandaráði

28.06.18 | Fréttir
Tolkning
Photographer
norden.org/Ane Cecilie Blichfeldt
Ættu finnska og íslenska að fá stöðu opinberra tungumála innan Norðurlandaráðs? Málið hefur verið til umræðu síðan í október 2016 og stefnt er að ákvörðun í því á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í haust. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi þann 27. júní að vinna áfram að málamiðlunartillögu sem skilur milli opinberra tungumála samstarfsins og vinnutungumála skrifstofunnar. Samkvæmt tillögunni yrðu danska, norska, sænska, finnska og íslenska opinber tungumál en skandinavísku tungumálin þrjú yrðu vinnutungumál á skrifstofunni.

Samkvæmt starfsreglum Norðurlandaráðs frá árinu 2012 eru norrænu tungumálin talin jafngild á fundum ráðsins. Danska, norska og sænska eru sem stendur vinnutungumál, bæði á fundum ráðsins og á skrifstofunni og túlkun á finnsku og íslensku er útveguð eftir þörfum. Öll mikilvæg gögn eru þýdd á finnsku og íslensku. 

Finnsku og íslensku landsdeildirnar komu málinu á dagskrá þegar þær lögðu fram tillögu haustið 2016 þess efnis að finnska og íslenska ættu að vera meðal vinnutungumála. Málið hefur verið rætt í forsætisnefndinni og var einnig til meðferðar á þinginu í Helsinki árið 2017. Þar var ákveðið að málið skyldi undirbúið frekar og stefnt að ákvörðun á þinginu 2018. Umfjöllunin í forsætisnefndinni í dag var liður í undirbúningsferlinu.

- Við leggjum mikla áherslu á að finna tæknilega og hagnýta lausn svo að allir þátttakendur frá hinum mismunandi löndum finni að þeiri eigi hlutdeild í samstarfinu og geti kynnt sér þau mál sem eru til umfjöllunar á sínu móðurmáli. Það er líka gott fyrir umræðuna að allir geti tekið þátt í henni á sínu móðurmáli, segir hinn norski Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs. 

Rökin sem sett hafa verið fram í umræðunni snerta lýðræði og jafnrétti, en einnig þær efnahagslegu afleiðingar sem fjölgun vinnutungumála hefði. 

Þörfin fyrir túlkun á fundum Norðurlandaráðs jókst um næstum 30 prósent á milli áranna 2005 og 2017, en það er afleiðing af þverrandi þekkingu í skandinavísku tungumálunum í Finnlandi og á Íslandi. Fjöldi þýddra skjala hefur einnig aukist umtalsvert síðastliðinn áratug.

Forsætisnefndin leggst gegn því að vandamálið verði leyst með því að taka upp ensku sem sameiginlegt tungumál.