Forsætisráðherrarnir kynna sjálfbærniverkefni

18.04.17 | Fréttir
Erna Solberg
Photographer
Magnus Frderberg/norden.org
Forsætisráðherrar Norðurlanda kynna verkefnið Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum en markmiðið er að framfylgja heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun. Ætlunin er að miðla umheiminum af reynslu og þekkingu Norðurlanda á fjárfestingum í jafnrétti, umskiptum til vistvæns samfélags, sjálfbærri matvælaframleiðslu og velferðartækni.

„Norðurlönd eru samþættasta svæði í heimi. Um áratuga raðir hefur norrænt samstarf skapað reynslu og lausnir sem stuðla að sjálfbærri þróun samfélaga okkar fyrir komandi kynslóðir. Forsætisráðherrarnir hyggjast flytja út norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum,“ segir Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2017.

Þrjú áherslusvið

Norðurlönd voru fyrst í heiminum til þess að rjúfa tengsl milli hagvaxtar og loftslagsáhrifa. Löndin voru ennfremur fyrst til að sýna fram á tengsl jafnréttis og hagvaxtar. Þau eru einnig framarlega á sviði nýjunga í velferðartækni, rannsókna á mataræði og sjálfbærri matvælaframleiðslu.

Umheimurinn hefur sýnt mikinn áhuga á áherslusviðunum þremur, Nordic Green, The Nordic Gender Effect og Nordic Food and Welfare. Norðurlönd hyggjast sameina krafta sína til að bregðast við alþjóðlegri eftirspurn eftir norrænum lausnum.

„Þannig fáum við öflug verkfæri í samstarfi okkar um að framfylgja markmiðum SÞ um sjálfbæra þróun til ársins 2030,“ segir Erna Solberg.

Knýja á um sjálfbærnimarkmiðin

Verkefnið er framlag norrænu forsætisráðherranna til metnaðarfullrar dagskrár sem leiðtogar heimsins komu sér saman um með Parísarsamkomulaginu og áætlun SÞ til ársins 2030.

Vilja þeir jafnframt styrkja markaðsstöðu norrænna fyrirtækja á sviði velferðartækni, umhverfisvænnar orku, endurnýjanlegs eldsneytis og sjálfbærrar borgarþróunar.

Enn eigum við langt í land þar til heimsmarkmiðunum hefur verið náð og því hefur öðrum löndum heims verið boðið til gagnkvæmrar miðlunar á lausnum og reynslu.

Verkefni forsætisráðherranna samanstendur af flaggskipsverkefnum sem verður hleypt af stokkunum á vordögum 2017. Norræna ráðherranefndin og stofnanir hennar hafa umsjón með verkefnum.

Lesið nánar um verkefnin: